fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Ólína kvartar yfir vinnubrögðum Þingvallanefndar: „Umsækjendum enn ekki verið gerð skrifleg grein fyrir ráðningunni “

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 9. október 2018 17:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólína Þorvarðardóttir, sem sótti um stöðu þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum, en fékk ekki, segist enn ekki hafa fengið rökstuðning frá formanni Þingvallanefndar, Ara Trausta Guðmundssyni, þingmanni VG, fjórum dögum eftir að málið komst í fjölmiðla:

„Vinnubrögð Þingvallanefndar. Fjórum dögum eftir að fjölmiðlum var kunnugt um ráðningu þjóðgarðsvarðar, hefur umsækjendum enn ekki verið gerð skrifleg grein fyrir ráðningunni eða forsendum hennar. Rökstuðningur sá sem boðað var af formanni Þingvallanefndar, Ara Traust Guðmundssyni, að yrði opinberaður nú um helgina hefur ekki sést.“

Þá segir hún einnig:

„Fjórir dagar hafa liðið, helgin liðin og komið vel inn í vikuna. Ekkert bólar á rökstuðningnum. Ekkert bólar heldur á bréfi til umsækjenda – þar sem þakkað er fyrir umsóknir þeirra, gerð grein fyrir ráðningunni og ástæðum hennar, eins og venjan er og góðir stjórnsýsluhættir bjóða. En góðir stjórnsýsluhættir hafa auðvitað ekki verið viðhafðir í þessu máli – þannig að það er kannski ekki við miklu að búast.“

Sjá nánarÓlína skilar skömminni:Segist látin gjalda þess að vera komin yfir fimmtugt og hafa setið á Alþingi

 

Heimild misbeitt til að þrýsta fólki í störf

Ólína rekur aðdraganda málsins og gagnrýnir að staðan hafi ekki verið auglýst upphaflega:

„Þegar ljóst var að Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður myndi hætta vegna aldurs fyrir ári, ákvað Þingvallanefnd að auglýsa ekki stöðuna (sem þó hefði verið eðlilegt að lögum), heldur setja þann sem nú hefur verið ráðinn í hana án auglýsingar til eins árs. Lagaheimildinni fyrir tímabundnum ráðningum án auglýsingar er ætlað að bregðast við óvæntum forföllum stjórnenda, alvarlegum veikindum eða skyndilegum dauðsföllum. Því miður hefur reynslan oft verið sú að þessari heimild hefur verið misbeitt til þess að þrýsta fólki í störf og veita því þannig forskot yfir aðra hæfari umsækjendur.

Jæja – svo kemur að því að það þarf að auglýsa stöðuna eftir eitt ár, eins og lög bjóða. Þá eru leiktjöldin sett upp. Staðan auglýst. Tuttugu sækja um. Þrír boðaðir í viðtal við fjóra nefndarmenn úr Þingvallanefnd ásamt starfsmanni Capacents, sem hafði fyrir þann fund útbúið einhverskonar stigagjöf fyrir umsækjendurna. Ekki náðist niðurstaða eftir fyrstu viðtöl, en valið stóð nú á milli tveggja. Mannsins sem hafði verið heilt ár í stöðunni án auglýsingar og mín. Þá var ákveðið að láta okkur hafa „verkefni“. Framtíðarsýn fyrir Þingvallaþjóðgarð og hvernig við hyggðumst innleiða þá framtíðarsýn á næstu tveimur árum – takk fyrir. Fjórir dagar til að leysa þetta.“

Sýndarverkefni á fjórum dögum

Ólína segir að Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi ekki átt í vandræðum með að taka afstöðu þrátt fyrir mikla fjarveru:

„Vitanlega voru hæg heimatökin fyrir sitjandi þjóðgarðsvörð að sækja efni í vinnutölvuna sína – enda búinn að vera í djúpum samræðum við Þingvallanefnd um endurskoðaða stefnumótun sem hefur verið í vinnslu fyrir Þingvallaþjóðgarð allt undanfarið ár. Öðru máli gegndi um mig – en ég bretti upp ermar og gerði stefnumótunarskjal ásamt 20 mínútna kynningu sem tók mig að sjálfsögðu alla þá 4 daga sem ég hafði til verksins og ég lagði fram og kynnti fyrir nefndinni á örlagafundinum þann 5. október, þar sem nefndin átti öll að vera viðstödd til að gera upp hug sinn. Þegar til kom vantaði tvo nefndarmenn af sjö. Annar (Karl Gauti Hjaltason) hafði raunar verið viðstaddur fyrra viðtal, svo fjarvera hans kom ekki að sök. Páll Magnússon, hafði hins vegar ekki verið viðstaddur nein viðtöl. Hann lét ekki sjá sig fyrr en ég hafði lokið minni framsögu og var á leið út úr herberginu. Var þó ekkert hik á Páli að taka afstöðu til umsækjendanna, eins og síðar kom á daginn.“

Símtal en ekkert bréf – engin rök

„Tveim tímum síðar kom símtal eins og ég hef áður lýst – þar sem formaður nefndarinnar Ari Trausti Guðmundsson gerði mér grein fyrir niðurstöðunni (stjórnarmeirihlutinn valdi Einar Sæmundsen en aðrir nefndarmenn völdu mig). Ekki vildi formaðurinn greina mér frá forsendu ákvörðunarinnar. Hann var ekki tilbúinn með eina röksemd. Sagði að rökstuðningur yrði opinberaður síðar. Endurtók það svo fyrir fjölmiðla og sagði von á rökstuðningi um helgina.

Fjórir dagar hafa liðið, helgin liðin og komið vel inn í vikuna. Ekkert bólar á rökstuðningnum.

Ekkert bólar heldur á bréfi til umsækjenda – þar sem þakkað er fyrir umsóknir þeirra, gerð grein fyrir ráðningunni og ástæðum hennar, eins og venjan er og góðir stjórnsýsluhættir bjóða.

En góðir stjórnsýsluhættir hafa auðvitað ekki verið viðhafðir í þessu máli – þannig að það er kannski ekki við miklu að búast.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt