fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Styrmir: „Stuðningur jafnaðarmanna við alþjóðavæðingu illskiljanlegur“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 8. október 2018 17:50

Styrmir Gunnarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, veltir fyrir sér hættum alþjóðavæðingarinnar fyrir örríkið Ísland. Hann segir mafíur heimsins ekki láta lög og reglur landsins stöðva sig og segir afstöðu ráðamann vera barnaskap, sem vísi til þeirra.

Þá segir hann alþjóðavæðinguna leiða til ójöfnuðar og því sé stuðningur jafnaðarmanna við hana illskiljanlegur:

„Þótt hinni svonefndu alþjóðavæðingu í viðskiptum síðustu áratugi hafi fylgt margt jákvætt og vafalaust rétt, sem m.a. Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum formaður Alþýðuflokksins og fyrrum utanríkisráðherra, hefur ítrekað bent á að hún hafi lyft mörg hunduð milljónum manna úr fátækt, á hún sér líka neikvæðar hliðar.

Ein þeirra er sú, að störf hafa verið flutt frá þróaðri löndum, þar sem launakjör eru orðin há í samanburði við lönd, sem ekki eru komin jafn langt í þróun atvinnulífs og viðskipta. Þetta hefur leitt til minnkandi vinnu og jafnvel atvinnuleysis á Vesturlöndum, sem aftur hefur skapað pólitískan jarðveg fyrir menn eins og Donald Trump.

Hin stóru alþjóðlegu fyrirtæki hafa nýtt sér aukið frelsi til viðskipta á milli landa og frjálst flæði fjármagns á þann hátt að alþjóðavæðingin hefur orðið megin ástæða vaxandi ójöfnuðar í okkar heimshluta. Hin alþjóðlegu stórfyrirtæki skila minnkandi launakostnaði við framleiðslu ekki nema að takmörkuðu leyti til neytenda heldur stinga honum í eigin vasa.

Af þessum sökum er stuðningur jafnaðarmanna við alþjóðavæðingu illskiljanlegur.“

Á varðbergi gegn eignarkaupum útlendinga

Styrmir segir að Íslendingar þurfi að vera á varðbergi fyrir glæpastarfssemi og eignakaupum útlendinga:

„Frjálst flæði fjármagns um heim allan er ekki bara jákvæð þróun. Það frjálsa flæði hefur líka orðið farvegur fyrir alþjóðleg glæpasamtök, mafíur, til þess að koma illa fengnu fé fyrir og í skjól. Skýrt dæmi um þetta er sá gífurlegi peningaþvottur, sem fram hefur farið í gegnum lítið útibú Danske Bank í Eistlandi. Þeir peningar eiga sér uppruna í Rússlandi. Evrópusambandið telur þetta mesta fjármálahneyksli, sem upp hefur komið í Evrópu í langan tíma. Þetta frjálsa flæði fjármagns þýðir svo að örríki eins og okkar verður að vera á varðbergi, þegar kemur að eignakaupum útlendinga hér. Hverjir eru þar á ferð? Í sumum tilvikum er það bara venjulegt fólk, sem hefur efnast með heiðarlegum hætti En í öðrum getur annað verið á ferð.

Mörgum var létt, þegar Norsk Hydro keypti álverið í Straumsvík en þegar þau kaup gengu til baka vöknuðu áhyggjur á ný. Hinn alþjóðlegi álheimur er ekki bara sakleysið sjálft. Þar eru á ferð aðilar, sem m.a. eru á refsilistum vestrænna þjóða vegna vafasamra viðskiptahátta. Ef slíkir aðilar reyndu að kaupa álverið í Straumsvík væri hætta á ferðum. Sumir ráðamenn hér telja að það sé engin hætta á ferðum vegna þess að hér gildi lög og reglur. Sú afstaða lýsir nánast ótrúlegum barnaskap. Mafíur láta slíkt ekki stöðva sig. Og það má velta því fyrir sér, hvort smitandi áhrif viðskiptahátta í heimi mafíunnar birtist hér m.a. í illri meðferð á erlendu vinnuafli. Alþjóðavæðingin hefur hættur í för með sér fyrir örríki eins og Ísland.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt