fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Alþýðufylkingin dregur saman seglin: „Mun einbeita sér að grasrótarstarfi“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 8. október 2018 11:45

Þorvaldur Þorvaldsson. Trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aukalandsfundur Alþýðufylkingarinnar var haldin um helgina. Samkvæmt tilkynningu var þetta fjórði landsfundur flokksins og jafnframt sá fjölmennasti, en ekki er tilgreint hversu margir sóttu fundinn.

Meðal helstu niðurstaðna fundarins er að hann hyggst ekki bjóða fram í næstu Alþingis- eða sveitarstjórnarkosningum. Þess í stað mun hann einbeita sér að grasrótarstarfi og starfi með frjálsum félagasamtökum. Þá var einnig fellt úr gildi bann við því að meðlimir Alþýðufylkingarinnar mættu vera í öðrum flokkum.

Samþykkt var að fækka í framkvæmdastjórn og miðstjórn og nokkur umskipti urðu í forystunni: Þorvaldur Þorvaldsson var endurkjörinn formaður. Vésteinn Valgarðsson lét af störfum sem varaformaður og Þorvarður Bergmann Kjartansson var kjörinn varaformaður. Björgvin Rúnar Leifsson var kjörinn ritari flokksins. Tamila Gámez Garcell var kjörin gjaldkeri flokksins. Úr framkvæmdastjórn fóru Elín Helgadóttir, Erna Lína Örnudóttir og guðmundur Smári Sighvatsson. Landsfundarkjörnir í miðstjórn voru Jóhannes Ragnarsson, Valtýr Kári Daníelsson og Þorsteinn Bergson en úr miðstjórn víkja Claudia Overesch og Þórarinn Hjartarson.

Samþykktar voru átta ályktanir: Um að verja fullveldi landsins í orkumálum, um að hafna markaðsvæðingu í heilbrigðiskerfinu, gegn heimsvaldastefnu og stríðsstefnu, áskorun til verkalýðsforystunnar vegna komandi kjarasamninga, um umhverfisvá vegna kapítalismans, um húsnæðisvandann í landinu, um hve lítið hefur í raun breyst á tíu árum frá hruninu og um stöðu og verkefni flokksins hér eftir og hingað til.

Sjá nánar:

 

Ályktanir landsfundar Alþýðufylkingarinnar   6. – 7. okt. 2018

Staða og verkefni Alþýðufylkingarinnar

Ályktun frá landsfundi Alþýðufylkingarinnar 6.-7. október 2018

Þó að Alþýðufylkingin hafi ekki flegið feitan gölt í kosningaúrslitum undanfarin ár, verður að meta mikilvægi flokksins eftir fleiri mælistikum.

Eftir efnahagshrunið 2008 hefur Alþýðufylkingin, ein flokka, varpað ljósi á orsakir kreppunnar og sett fram raunhæfa alhliða stefnu, sem beinir stéttabaráttunni að uppgjöri við auðvaldsskipulagið og barist gegn aðild að ESB, Nató og öðrum stuðningi við heimsvaldastefnuna.

Alþýðufylkingin hefur afhjúpað hvernig kapítalisminn viðheldur ójöfnuði í samfélaginu og efnahagslegu ójafnvægi, sýnt fram á mikilvægi félagsvæðingar fjármálakerfisins og annarra innviða samfélagsins og sett fram nokkuð ítarlega stefnu í umhverfismálum, heilbrigðismálum og fleiri málaflokkum.

Alþýðufylkingin hefur á fáum árum opinberað byltingarsjónarmið á flestum sviðum, í stefnuskrám, fjölda ályktana, kosningabaráttu, útgáfustarfi, innan fjöldahreyfinga og á öðrum vettvangi. Þar hafa þau vakið verðskuldaða athygli og fengið talsverðar undirtektir, þó að fjölmargir, sem hafa tekið undir stefnuna, hafi kosið að verja atkvæði sínu á annan hátt af „taktískum“ ástæðum.

Alþýðufylkingunni hefur þó ekki tekist að virkja nægilegan fjölda til virkrar þátttöku í starfi flokksins, til að byggja upp öflugan forystukjarna. Það hefur komið niður á árangri flokkssins og tiltrú á mikilvægi hans. Það hefur aftur komið niður á virkni félaganna, samstöðu og frumkvæði.

Alþýðufylkingin verður að breyta um áherslur og leggja vinnu í innri uppbyggingu til að geta skapað sér verðugan sess í íslenskri pólitík. Áherslan verður að vera á að festa í sessi öflugan kjarna af félögum, sem byggja upp þekkingu sína og pólitíska vitund með námi og starfi bæði innan flokksins og út á við. Flokkurinn verður að læra að takast á við veikleika sína og bæta úr þeim, og allir virkir félagar verða að taka þátt í því. Það skapar okkur nýjan og sterkari grundvöll til að fá nýja félaga og stuðningsfólk til liðs við okkur.

Þó að Alþýðufylkingin muni, að óbreyttu, ekki leggja áherslu á þátttöku í kosningum á næstunni, mun hún áfram verða í fararbroddi í málefnastarfi og byltingarsinnaðri stefnumótun, ásamt því að taka þátt í stéttabarátunni, og framsækinni baráttu á mörgum sviðum.

Kreppa er óhjákvæmilegur hluti kapítalismans!

10 ár frá hruni

 Ályktun frá landsfundi Alþýðufylkingarinnar 6.-7. október 2018

Árið 2008 tröllreið kreppa kapítalismans íslensku þjóðfélagi. Ekki í fyrsta skipti og heldur ekki í síðasta skipti, en á eftirminnilegan hátt. Þegar hin svokallaða millistétt – skuldsett vinnandi fólk – sá eignir sínar brenna upp og ríkisstjórnina ráðalausa, var sem hulu væri svipt af fólki, það þyrptist á mótmælafundi og felldi að lokum ríkisstjórnina. Aðalbyltingin í Búsáhaldabyltingunni var að allur almenningur þættist geta komið fram og krafist réttar síns án þess að skeyta um álit borgarastéttarinnar.

Þótt ljóst sé að kreppa fylgir kapítalisma alltaf og óhjákvæmilega, óðu uppi aðrar og tækifærissinnaðri skýringar á eðli vandans: Sumar lutu að klaufaskap, sumar að kynhormónum – sumar að siðferði. En slæmt siðferði er ekki ástæða kreppu og hruns í kapítalismanum, heldur er það líka eðlilegur fylgifiskur hans, rétt eins og kreppan: Kapítalismi laðar fram slæmt siðferði og góður kapítalismi er í besta falli tálsýn.

Hin stóra takmörkun sósíalískra byltingarsinna veturinn 2008-2009 var að þeir voru of fáir og of illa skipulagðir til þess að geta komið fram sem byltingarsinnaður, sósíalískur valkostur við ríkjandi ástand. Það var því á sinn hátt eðlilegt að fram sprytti urmull framboða sem boðuðu allskyns umbætur, en voru flest meira og minna tækifærissinnuð og flest smáborgaraleg í eðli sínu. Hér má telja með Vinstri-græn, sem voru pólitísk jómfrú, varkár í yfirlýsingum og stefnu og óspjölluð af reynslunni.

Ríkisstjórnin sem tók við af hrunstjórninni var auðvaldssinnuð í gegn. Því til stuðnings nægir að nefna endurreisn bankakerfisins, harða baráttu fyrir því að fá að borga IceSave-skuldirnar og svo auðvitað umsóknina að Evrópusambandinu. Fordæmalaus tækifæri til félagsvæðingar voru látin ónotuð – og þótt sýta megi það, var það líka eðlilegt, þar eð raddir sósíalismans voru of veikar til að geta haft áhrif.

Þegar útséð var um að nokkru yrði þokað í sósíalíska átt, tók hópur sig til og stofnaði Alþýðufylkinguna. Á þeim tæpu 6 árum sem síðan eru liðin hefur Alþýðufylkingunni ekki tekist að vinna nein vígi af borgarastéttinni eða handbendum hennar, þótt að vísu hafi byggst upp harðsnúinn og vaxandi hópur félaga í flokknum, ásamt betri og betri stefnuskrá í stórum og litlum málum þjóðfélagsins. Þá hefur flokknum tekist að koma málstað sósíalismans inn í umræðuna í kringum kosningaþátttöku.

Hvað hefur breyst á þessum tíu árum? Sá efnahagslegi bati sem hefur sést hefur í fyrsta lagi komið til vegna ferðamannastraums og breyttrar hegðunar fiskistofna. Í öðru lagi hefur hann ekki skilað sér nema til hluta landsmanna, meðan drjúgur hluti situr í versta húsnæðisvanda síðan áður en Breiðholt var byggt, og sér ekki fyrir endann á honum enn. Heilbrigðiskerfi og menntakerfi eru í sárum eftir grófan niðurskurð. Öryrkjar sitja enn með óbættan hlut. Á meðan baða hinir ríku sig í gróða og mikill ójöfnuður geisar.

Á tíu ára afmæli hrunsins blasa enn við verkefni sem við erum því miður orðin vön: Þörfin fyrir að byggja upp byltingarsinnaðan flokk, sem getur í alvörunni tekið forystu í baráttunni fyrir þjóðfélagi þar sem velferð og réttlæti ná til allra. Alþýðufylkingin skorar á alla sósíalista að taka þátt í þessu verkefni, til þess að mannsæmandi þjóðfélag geti orðið að veruleika á okkar dögum.

Sigrumst á víti heimilisleysis og ótryggs húsnæðis

 

Ályktun frá landsfundi Alþýðufylkingarinnar 6.-7. október 2018

 

Fjöldi heimilislausra hefur aukist stöðugt yfir lengri tíma og eru nú 349 manns heimilislausir samkvæmt skýrslu Velferðarráðs Reykjavíkur 2017.

 

Stöðug fjölgun heimilislausra yfir langan tíma er merki vangetu núverandi samfélagsgerðar til að:

 

  1. Koma í veg fyrir að einstaklingar missi fótfestu í lífi sínu. Sú fótfesta byggir á stoð sem kapítalískt samfélag ræðst gegn úr ýmsum áttum. Stór hluti fólks á hverjum tímapunkti hefur ekki og er ólíklegt til að fá örugga atvinnu. Enda er það í hag auðvaldsins að hafa slíku ótryggu vinnuafl til að dreifa, sem þarf að sætta sig við lág laun og léleg kjör, og sem í leiðinni dregur úr samningamætti stöðuga vinnuaflsins. Gróðadrifni fasteignamarkaðurinn blæs upp verð húsnæðis að því marki að á almennum markaði kostar leiga eða útborgun af húsnæðisláni einn til tvo þriðju, jafnvel meira, af mánaðarlaunum láglaunastarfsmanns.

 

  1. Koma stoð undir þá einstaklinga sem hafa misst þessa fótfestu. Manneskjur sem hafa engan fjárhagslegan stöðugleika og ýmist treysta sér ekki til eða hreinlega geta ekki leigt eða keypt heimili. Eins á manneskja sem búin er að missa heimili og er jafnvel háð fíkniefnum erfitt með að feta sig á vinnumarkaðinum. Ofan á bætast heilbrigðis- og geðræn vandamál sem spretta af því að lifa við heimilisleysi sem koma enn frekar í veg fyrir fjárhagslegt öryggi manneskjunnar.

 

Úrræðin gegn heimilisleysi verða ekki aðeins að vera til þess að hjálpa þeim sem nú þegar eru heimilislausir heldur líka til þess að fyrirbyggja heimilisleysi til að byrja með. Enda dugar ekki að þurrka gólfið meðan enn rennur úr krananum.

 

Slík úrræði hjálpa ekki aðeins þeim sem eru eða eiga á hættu að verða heimilislausir, heldur nýtur öll alþýðan góðs af þeim. Skref í áttina að öruggu húsnæði fyrir alla eru:

 

  1. Réttur til atvinnu og réttur til húsnæðis.

 

  1. Að fasteignir, yfir höfuð, séu teknar úr markaðskerfinu og leigðar eða þeim úthlutað þannig að enginn þurfi að hafa áhyggjur af því að geta ekki borgað leigu eða lánsútgjöld um mánaðarmótin

 

  1. Félagsvæðing hagkerfisins, sem leiðir af sér styttri vinnutíma, hærri laun fyrir þau lægst launuðu, mannsæmandi meðferð á vinnustöðum og lægra húsnæðisverð.

 

Búsetuúrræðin sem nú eru til staðar rúma aðeins um 150 manns eða varla helming heimilislausra. Bæta þarf aðstöðu til að allir heimilislausir geti átt öruggt húsaskjól hverju sinni. Einnig er skortur á gistiúrræði sem er opið allan sólarhringinn.

 

Ásamt skammtímaúrræðum þarf langtímaúrræði sem miða að endurhæfingu og aðlögun. Einn af dragbítum endurhæfingar heimilislausra er glæpavæðing eiturlyfjanotkunar. Eiturlyfjanotkun ætti að teljast til heilbrigðisvanda og viðeigandi meðferð gefin af heilbrigðiskerfinu.

 

Kapítalisminn er stærsta umhverfisógnin

 

Ályktun frá landsfundi Alþýðufylkingarinnar 6.-7. október 2018

 

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar, haldinn í Reykjavík 6.-7. október 2018, áréttar að meðan þjóðfélagið er keyrt áfram af gróðadrifnu markaðskerfi, sem gerir endalausar kröfur um síaukinn hagvöxt sé tómt mál að tala um uppfyllingu markmiða Parísarsamkomulagsins og annarra skuldbindinga Íslendinga hvort sem er hérlendis eða á alþjóðavettvangi. Fundurinn hafnar öllu daðri við olíuvinnsluhugmyndir og mengandi þungaiðnað og hvetur stjórnvöld til fara raunhæfar leiðir til að minnka losun koltvísýrings en þá þarf að koma til félagsvæðing þjóðfélagsins þar sem hagsmunir samfélagsins en ekki auðmanna eru hafðir í fyrirrúmi.

 

Alþýðufylkingin berst fyrir því að undið verði ofan af umhverfisógninni og komið á sjálfbæru samfélagi sem ekki gengur á rétt komandi kynslóða með græðgi fámennrar auðstéttar. Landsfundurinn hvetur íslenskan almenning til þess að taka umhverfismálin föstum tökum og vinna að því að gripið verði til viðunandi viðbragða við þeim vanda sem óbilgirni markaðshyggjunnar hefur skapað í heiminum. Til þess að bjarga jörðinni út úr vítahring mengunar og sóunar auðstéttarinnar er mikilvægt að skilningur vaxi, bæði hjá almenningi og innan umhverfishreyfinga, á því að kapítalisminn verður aldrei grænn.

 

 

Stéttabarátta, ekki stéttasamvinna!

 

Ályktun frá landsfundi Alþýðufylkingarinnar 6.-7. október 2018

Frá stofnun hefur Alþýðufylkingin tekið fortakslausa afstöðu með verkafólki, fólkinu sem vinnur við undirstöðustörf þjóðfélagsins á lægstu laununum.

Hnignunarsaga ASÍ frá því er hagfræðingarnir náðu þar völdum sýnir svo ekki verður um villst að árangur í kjarabaráttu launafólks næst ekki með stéttasamvinnu. Eina leiðin til að ná fram raunverulegum kjarabótum er stéttabarátta.

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar haldinn 6.-7. október 2018 krefst þess að ný forysta ASÍ standi þétt upp við bakið á stéttarfélögum sambandsins í komandi kjarabaráttu þeirra í vetur og skorar á forystu félaganna að hvika hvergi í þeirri baráttu.

Koma verður í veg fyrir félagsleg undirboð og niðurrif á réttindum verkafólks, þar sem erlent verkafólk og ungt fólk verður harðast úti. Skammtímaráðningar og starfsmannaleigur, sem ekki lúta lögum íslensks vinnumarkaðar eru meðal verkfæra auðvaldsins í þessu skyni. Uppræta verður starfsmannaleigur, sem ekki lúta íslenskum lögum og -kjarasamningum, og hafa það eina hlutverk að lifa sníkjulífi á erlendu verkafólki og halda því í ómanneskjulegum aðstæðum. Þetta verður að setja að skilyrði í samningum á vinnumarkaði í vetur.

 

Ályktun gegn heimsvaldastefnu og stríðsstefnu

 

Ályktun frá landsfundi Alþýðufylkingarinnar 6.-7. október 2018

 

Spenna á alþjóðavettvangi vex stig af stigi. Umfangsmikil NATO-æfing við Ísland í þessum mánuði, 10 herskip, 6000 sjóliðar, landgöngusveitir æfa landgöngu á Suðurnesjum og aðrir æfa sig í Þjórsárdal. Bandaríkin boða aukin hernaðarumsvif á N-Atlantshafi.

 

Heræfingin við Ísland er undanfari gríðarlegrar NATO-æfingar í Noregi í haust – Trident Juncture. Þar sem taka þátt 40 þúsund hermenn, 70 herskip, 130 flugvélar og þúsundir stríðsökutækja og skriðdreka. Mesta heræfing í Skandinavíu í marga áratugi.  Í september var mikil æfing í Úkraínu með þátttöku 3000 frá NATO. Úkraína og Noregur eiga landamæri að Rússlandi. Rússar hafa þegar svarað með 300 þúsnd manna heræfingu í Austur-Síberíu, með þátttöku Kínverja.

 

Hvað er að gerast? Þetta eru ekki átök kapítalisma og sósíalisma heldur átök auðvaldsblokka. Undir átökunum liggur gróðadrifin heimsvaldastefna, á tíma hnattvæðingar. Tvær tilhneigingar einkenna þróun síðustu tíma:

 

  1. A) Annars vegar er taflið um heimsviðskiptin, þar sem Bandaríkin með bandamönnum sínum (ESB, Japan) eru á hröðu undanhaldi fyrir nýjum keppinautum, fyrst og fremst Kína í bandalagi við Rússland og önnur nýmarkaðsríki (BRICS). Viðskiptataflið harðnar viðskiptastríð er staðreynd.

 

  1. B) Hins vegar er svo hernaðartaflið um hnöttinn þar sem ófriðarský hrannast upp. RÚV segir okkur eins og venjulega – og hefur það eftir vestrænu sjónvarpsrisunum – að því valdi vondir einræðisherrar eins og Saddam Hussein, Gaddafi, Assad og nú síðast Pútín, en árásarhneigðin hefur undanfarna áratugi fyrst og fremst komið frá Bandaríkjunum og NATO eftir að kaflaskipti urðu um 1990 með falli Sovétríkjanna. Þá tóku Bandaríkin stefnu á „einpóla heim“ með miðju í Wall Street. NATO þandi sig um alla Austur-Evrópu í áföngum að landamærum Rússlands. Árið 2001 lýstu svo Bandaríkin og NATO yfir svokölluðu „stríði gegn hryðjuverkum“ sem hefur staðið linnulaust síðan í Stór-Miðausturlöndum og valdið gríðarlegri upplausn og flóttamannavanda.

 

Síðustu fimm ár hafa stórveldaátökin magnast hraðar. Annars vegar er það af því stórveldið Rússland er aftur komið upp á fæturna og ver hagsmuni sína af kappi, hins vegar af því hvað Kína (og önnur nýmarkaðsríki) sækir hratt fram á heimsmarkaði. Við því eiga Bandaríkin og gömlu heimsveldin fyrst og fremst eitt svar: Vígvæðingu. Eins og stundum áður er Rússagrýlan mjög notadrjúg til að kynda undir vígvæðingu, en höfum þá í huga að NATO er eina hernaðarbandalag heims og hernaðarútgjöld Rússa voru árið 2016 aðeins 1/12 af herútgjöldum NATO-ríkja.

 

Eftir tímabundinn ósigur sósíalismans og með fullkomnari tökum heimsvaldasinna á helstu áróðurs- og heilaþvottatækjum hafa mestu morðingjar heimsins náð að dulbúa hernaðarútrásir sínar sem leiðangra til stuðnings „mannréttindum“ ellegar sem stuðning við „uppreisnir gegn harðstjórn“. Meirihluti svokallaðra vinstri flokka á Vesturlöndum, þ.á.m. á Íslandi, hafa keypt megnið af þessum áróðri.

 

Fyrir andheimsvaldasinna er allra verst að sama gildir um þá vestrænu friðarhreyfingu sem hefur stundum hefur barist hatrammlega gegn stríðsöflunum (nefnum Víetnam, Írak) en er nú nánast lömuð. Friðarhreyfingin hefur að undanförnu gengið fram undir merkjum ópólitískrar friðarhyggju og siðferðilegrar mannréttindahyggju, en hefur sleppt hugtakinu „heimsvaldastefna“ úr orðaforða sínum.

 

Baráttan gegn heimsvaldastefnunni er æpandi nauðsyn. Að öðrum kosti blasa við fleiri svæðisbundin stríð og stigmögnun þeirra í átt að stórstyrjöld.

 

 

Höfnum markaðsvæðingu í heilbrigðiskerfinu

 

Ályktun frá landsfundi Alþýðufylkingarinnar 6.-7. október 2018

 

Heilbrigðiskerfi Íslands á nú í vök að verjast, eins og það hefur reyndar gert lengi. Öfl markaðsvæðingar sækja stöðugt á og vilja leyfa meiri einkarekstur, enda gefur það meira í aðra hönd fyrir þau sjálf. Mikilvægt er að fólk sem lætur sér annt um heilbrigðismál í landinu, um velferð og jöfnuð sjúklinga og um hvernig opinberu fé er ráðstafað, standi saman gegn öllum áformum um frekari markaðsvæðingu og snúi við þeirri þróun sem verið hefur, með því að félagsvæða á nýjan leik starfsemi sem þegar hefur verið markaðsvædd.

 

Tekið hefur verið eftir viðspyrnu heilbrigðisráðherra gegn frekari markaðsvæðingu. Vera má að þar fylgi hugur máli, en þá rekst ráðherrann á þann vegg sem ríkisstjórnarsamstarf með tveim helstu spillingarflokkum Íslands er – og sá veggur lifir ekki sjálfstæðu lífi, heldur er hann rökrétt afleiðing af tækifærisstefnu Vinstrigrænna. Auðvitað fer þessi andstaða fyrir lítið í meirihlutasamstarfi með opinberum markaðshyggjuflokkum. En ekki hvað?

 

Markaðsvæðing er líka hluti af þeirri hægrisinnuðu efnahagsstefnu sem landið fylgir, og mun fylgja meðan ekki veljast forystuöfl sem stefna á félagsvæðingu. Þannig er aðild landsins að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) beinlínis Þrándur í Götu fyrir félagsvæðingu, fyrir utan að á henni byggist sjálf tilvera Sjúkratrygginga Íslands, með þeirri markaðsvæðingarumgjörð sem hún byggist á, sem er hindrun fyrir félagslega reknu heilbrigðiskerfi. Ef tilskipanir frá EES standa félagslega reknu heilbrigðiskerfi fyrir þrifum, skorum við á stjórnvöld að skrá Ísland úr EES sem skjótast.

 

Á sama tíma og peningar fossa úr sameiginlegum sjóðum út í einkarekstur, leka þök og deildum er lokað vegna fjárskorts í opinbera kerfinu. Sú ömurlega staða sem Landspítali og aðrar opinberar heilbrigðisstofnanir eru í, er bein afleiðing hægristjórnar í heilbrigðismálum sem hefur verið ríkjandi óslitið síðan fyrir aldamót.

Íslensk alþýða ætti að fylkja sér um þær kröfur, að sporna gegn frekari markaðsvæðingu í heilbrigðiskerfinu og að endurreisa það félagslega rekna heilbrigðiskerfi sem við bjuggum eitt sinn við og eigum að eignast aftur, með félagsvæðingu.

 

 

Verjum fullveldi Íslands í orkumálum

 

Ályktun frá landsfundi Alþýðufylkingarinnar 6.-7. október 2018

 

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 2018 skorar á Alþingi að hafna innleiðingu 3. orkupakka Evrópusambandsins. Með innleiðingu hans yrði haldið áfram markaðsvæðingu orkumála á Íslandi og landið missti yfirráð yfir eigin orkuauðlindum og ráðstöfun þeirra.

Acer, orkustofnun Evrópusambandsins, yrði æðsta stjórnvald í orkumálum, og úrskurðir í málaflokknum yrðu í höndum stofnana ESB. Ísland gæti ekki brugðist við síðari breytingum á málaflokknum heldur þyrfti aðeins að sætta sig við þær.

Með innleiðingu 3. orkupakkans myndi verð hækka á raforku til almennings, en áhrif kapítalískra stórfyritækja myndu aukast. Miklar líkur eru á að rafstrengur yrði lagður til landsins til að tengjast evrópska dreifikerfinu. Það myndi enn hækka verð til almennings og auka þrýsting á virkjun alls sem hreyfist hér á landi.

Breytingar í orkumálum hér á landi ættu frekar að lúta að því að vinda ofan af þeirri markaðsvæðingu, sem þegar hefur verið innleidd, og stefna að því að málaflokkurinn verði félagslega rekinn að öllu leyti.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“