fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019
Eyjan

Hrunupprifjanir: Togstreitan um hvaða saga verður ofan á

Egill Helgason
Miðvikudaginn 3. október 2018 08:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Víða erlendis þykjast menn vita það um Ísland að það hafi lent í efnahagshruni, náð sér upp úr því og um leið neitað að borga skuldir sem bankar stofnuðu til, réttað yfir stjórnmálamönnum og dregið bankamenn fyrir dómara. Maður heyrir þetta helst í löndum sem fóru illa út úr kreppunni sem hófst 2008 – til dæmis í Grikklandi og á Spáni. Í báðum þessum löndum var íslenskum fánum veifað í mótmælaaðgerðum, myndir af því bárust hingað til Íslands.

Ekkert af þessu er beinlínis rangt, en samt vitum við líka að þetta var ekki nákvæmlega svona.

Eftir fáa daga eru liðin tíu ár frá hruninu. Stærsti atburðurinn er óefað ræða Geirs Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í sjónvarpi um hjábjartan dag: Guð blessi Ísland. Það gengur á með miklum upprifjunum um hrunið og heldur örugglega áfram næstu vikuna.

Samt efast maður um að komi mikið út úr því. Almennt eru menn í sömu skotgröfum og var, átakalínurnar eru löngu markaðar og þekktar. Í því efni hefur ekkert breyst. Þátttakendur keppast við að reyna að skrifa söguna eftir sínu höfði, Seðlabankastjórinn gamli ritstýrir enn forðum öflugasta blaði Íslands að því er virðist aðallega til að rétta sinn pólitíska hlut eftir hrunið. Forsetinn fyrrverandi fer með 250 kassa af skjölum í Þjóðskjalasafnið og gefur peninga með til að hægt sé að skrásetja. Það mun vera á leiðinni enn ein heimildamynd um forsætisráðherrann sem tók við eftir hrunið.

Við erum ekki komin með þá fjarlægð á atburðina að þeir séu neitt farnir að skýrast – togstreitan um hvaða saga verður ofan á stendur enn yfir. Það er rétt að okkur tókst að varpa nokkrum bankamönnum í fangelsi – það er ekkert sérstakt ánægjuefni í sjálfu sér. Talandi um skuldir sem við ekki greiddum, þá galt íslenskur almenningur hrunið dýru verði. Ójöfnuður hefur aukist eftir það, rétt eins og víðast í heiminum. Það er þráttað um hverjir voru góðir eða vondir við okkur eftir hrun, jú, Kínverjar buðu gjaldmiðlasamning, Pólverjar og Færeyingar hringdu, Rússar buðu lán, en á endanum var staðreyndin sú að við settumst í bekk hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og útskrifuðumst með láði úr meðferð hans. Hefðum líklega átt að hafa samband fyrr árið 2008, en stolt ráðamanna leyfði það ekki.

Mér er sérlega minnisstætt núna hvað fólk vissi lítið hvað var að gerast. Fjölmiðlarnir stóðu sig alls ekki nógu vel. Ég man eftir að hafa hitt áhrifamann í samfélaginu nákvæmlega þennan dag fyrir tíu árum. Hann sagði mér að allt væri að hrynja. Það var komin helgi. Hann sagði að allt myndi fara veg allrar veraldar á mánudeginum. Ég fór í boð þar sem var talsvert af fólki úr stjórnmálum og fjölmiðlum. Ég bar þeim tíðindin og sagði að spilið væri búið. Ég man að allir voru mjög hissa og sumir urðu reiðir – þeir voru stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar sem þá sat. Ég lét mig hverfa.

Almenningur var algjörlega óviðbúinn gagnvart hruni bankanna og sparisjóða og stórfyrirtækja. Þess vegna varð áfallið svo mikið – og það hvernig traustið hvarf algjörlega og hefur ekki náð að byggjast upp aftur. Orðræðan sem fólk var fóðrað á var lygi og blekkingar sem afar fáir sáu í gegnum. En svo voru auðvitað einhverjir í klíkunni sem vissu löngu fyrr en við hin og tókst að hafa sitt á þurru.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“