fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019
Eyjan

Ekki eitthvað sem þjóðin var að fá að vita í fyrsta sinn

Egill Helgason
Miðvikudaginn 3. október 2018 20:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mitt í upprifjuninni um hrunið fáum við eitthvað að tala um sem bendir til þess að takmörkuð siðbót hafi orðið á Íslandi: Framkomu okkar við innflutt verkafólk og meðferðina á því. Þarna er hver sagan annarri blöskranlegri eins og þær birtust í Kveik í gærkvöldi. Við höfum fyrirtæki undir stjórn fólks sem lítur stórt á sig, telur sig vera máttarstólpa samfélagsins, en í raun er það svo samansaumað að til þess að spara smáaura er það til í að kaupa verk af aðilum sem þverbrjóta allar reglur og hirða ekkert um siðferði.

Ég byggi stórt hús eða er með flota af skipum, allt er í þessu fína hjá mér, en hluta af starfseminni útvista ég til aðila í bæ sem útvega mér vinnuafl á spottprís. Ég kem helst ekki nálægt þessu sjálfur,  vil helst ekkert vita hvernig þetta fer fram – jafnvel þótt það gerist innan míns eigin fyrirtækis.

Við höfum dæmi um þetta út um allan bæ. Miklu fleiri en í Kveik þar sem var til dæmis nefnt stórt skipafélag og umsvifamikið byggingafélag og svo fyrirtæki í ferðaþjónustu. Víðast hvar hefur ræstingum til dæmis verið útvistað til starfsmannaleiga – og það líka hjá ríki og borg. Þar spyr helst enginn hvernig starfseminni er háttað, en þarna kemur inn á vinnustaði starfsfólk, yfirleitt útlendingar, sem er algjörlega annars flokks – fyrir okkur er það nánast ósýnilegt.

Kennitöluflökkurum er endalaust falið að vinna verkefni – vegna þess að þeim er í lófa lagið að undirbjóða heiðarlegu fyrirtækin. Slíkt minnir á Ítalíu þar sem ráðamenn láta fyrirtæki í eigu mafíunnar ganga fyrir um verkefni.

Nú rjúka stjórnmálamenn og fjölmiðlar upp til handa og fóta, speglinum hefur verið brugðið beint í andlitið á okkur.  En þetta eru samt ekki að öllu leyti nýjar fréttir. Við höfum í raun vitað af þessu. Bara látið okkur það í léttu rúmi liggja. Þetta bitnar jú á útlendu fólki, það kemur og fer, en tryggir um leið að vörurnar og þjónustan sem við fáum er ódýrari – verkin sem þarf að vinna kosta minna ef verkafólkið er á skítakaupi og hefur engin réttindi.

Því fátt hefur verið meiri áhrifavaldur í góðærinu sem nú stendur yfir á Íslandi en allt erlenda verkafólkið sem hingað kemur. Vegna þess hefur hagkerfið getað þanist út – en það er líka svo ódýrt að verðbólgan hefur haldist niðri.

Sverrir Albertsson, formaður verkalýðsfélagsins Afls á Austurlandi og frambjóðandi til forseta ASÍ, er í viðtali um þetta í blaðinu Austurfrétt:

Að vissu leyti er þetta skrýtin reiði því svona getur ekki viðgengist nema með þegjandi sátt. Ég fletti til baka í blöðum og fréttasöfnum eftir þáttinn og þetta er ekki eitthvað sem þjóðin var að fá að vita í fyrsta sinn.

Við getum gert kröfur til stjórnvalda um harðari aðgerðir en við verðum líka að gera kröfur til okkar sjálfra. Svona getur ekki viðgengist nema við skiptum okkur ekki af. Meðalmanneskjan þarf að spyrja sjálfa sig hvort hún kaupi kaffibollann samt sem áður ef hún veit að sá sem þjónar fái borgað langt undir mannsæmandi kjörum. Ef svarið er já erum við í vanda.“

Sverrir segir að þetta sé alls ekki nýtt af nálinni og rifjar upp sögur frá byggingu Kárahjúkavirkjunar. Eins og menn muna var það allt á vegum opinberra aðila sem kusu að horfa í aðra átt og láta verktakana hafa sína hentisemi:

Þetta rifjaði ótal margt upp. Þetta eru sömu viðfangsefnin aftur og aftur. Ill meðferð á fólki og úrræðaleysi eða hreinlega afskiptaleysi stjórnvalda. Það er grátlegt að sjá hvernig stjórnvöld og við sem þjóð leyfum okkur að fara með fólk.

Og Sverrir tengir þetta hinu margumtalaða afmæli hrunsins:

Það sem var sorglegast við þáttinn í gær var að núna tíu árum síðar er eins og við höfum ekkert lært. Meðferðin, mannvirðingin og gróðafíknin er sú sama.

Það er ömurlegt að sjá að á bakvið fyrirtækin eru glæpamenn sem aftur og aftur hafa skipt um kennitölur. Þetta er vel þekkt vandamál og maður spyr sig hví Alþingi detti ekki í hug að koma böndum á slíkt. Í flestum tilfellum lendir kostnaðurinn og tjónið á almenningi en glæpamennirnir hirða gróðann.

Við skulum samt gera okkur grein fyrir því að við erum ekki ein á báti Íslendingar. Hvarvetna á Vesturlöndum er grafið undan réttindum verkafólks – oftast í nafni hagkvæmni eða þess að vinnumarkaðurinn sé að breytast. Breytingarnar felast reyndar aðallega í stórvaxandi ójöfnuði og auðsöfnun fárra.

Milljónir ungra Vesturlandabúa hafa ekki annað að leita en í harkhagkerfið þar sem ekkert er að hafa nema lág laun, ótrygga vinnu og lítlinn sem engan rétt til orlofs eða sjúkratrygginga. Málið er bara að hér gerast hlutirnir stundum svo undarlega hratt; við förum öfganna á milli – hátt í 15 prósent allra starfa á Íslandi eru unnin af útlendingum, en við höfum látið eins og það sé bara vinnuafl  (ömurlegt orð) en ekki fólk af holdi og blóði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“