fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

„Við sjómenn þurfum að geta komið okkar sjónarmiðum á framfæri, því ekki gerir sjómannaforystan það“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 1. október 2018 11:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heiðveig María Einarsdóttir, sjómaður og sjálfstætt starfandi viðskiptalögfræðingur, gagnrýnir sjómannaforystuna harðlega fyrir að standa ekki í lappirnar þegar kemur að hagsmunum sjómanna varðandi veiðigjaldafrumvarpið og önnur mál:

„Miðað við mína reynslu af samskiptum við okkar verkalýðsforystu gerði ég ekki ráð fyrir að okkar hagsmuna væri gætt hér frekar en fyrri daginn þegar nýtt veiðigjaldafrumvarp var kynnt nú í síðustu viku,“

segir Heiðveig á Facebooksíðu sinni.

Í samtali við Eyjuna sagðist Heiðveig ætla að bjóða sig fram til forystu innan Sjómannafélags Íslands í haust:

„Fyrst og fremst er ég að gagnrýna forystu Sjómannafélagsins. Þeir hafa ekki viljað hafa sig í frammi. Mér finnst veiðigjaldafrumvarpið hrikalega illa unnið og hef gert athugasemdir við það. Við sjómenn þurfum að geta komið okkar sjónarmiðum á framfæri, því ekki gerir Sjómannaforystan það. Og ef svona umsögn fer eitthvað fyrir brjóstið á fólki, þarf það að athuga sinn gang og fyrir hvern það er að vinna,“

sagði Heiðveig.

Skortur á jarðtengingu

Hún segir skorta jarðtengingu bæði hjá Sjómannafélagi Íslands, sem og Sjómannasambandi Íslands og nefnir tvö önnur mál þar sem forystan fær falleinkun:

„Það er engin virkni í þessum félögum. Maður veit ekki neitt, hvort verið sé að vinna að einhverjum málum eða ekki og maður fær engar upplýsingar um það. Til dæmis þegar þetta stóra mál kemur upp, að sjómenn séu skildir eftir þegar kemur að auknu mótframlagi í lífeyrissjóð, þá eru engin svör gefin, hvorki hjá sjómannasambandinu eða sjómannafélaginu. Sjómannasambandið er ekkert að tala fyrir meirihluta sjómanna og það er hreinlega eins og það sé engin jarðtenging hjá þeim við það sem er að gerast í þjóðfélaginu, til dæmis varðandi síðustu kjaraviðræður og svo eftirlitsmyndavélafrumvarpið núna, þar sem formaðurinn, fyrir hönd allra meðlima, sagðist vera fylgjandi. Það er er bara ekkert rétt, það eru mjög skiptar skoðanir á því. Og þeir sendu ekki einu sinni inn umsögn um frumvarpið.“

Sjómenn látnir greiða veiðigjöldin ?

Heiðveig hefur gert athugasemdir við veiðigjaldafrumvarpið  og sent inn umsögn til atvinnuveganefndar:

„Við sjómenn ræðum það okkar á milli að líklega verði veiðigjöldin að einhverju leiti klipin af okkar hlut og af þeirri ástæðu hef ég tekið saman athugasemdir og umsögn um frumvarpið og komið þeim á framfæri við Atvinnuveganefnd Alþingis sem fer með málið,“

segir Heiðveig

Helstu athugasemdir Heiðveigar við frumvarpið eru:

  1. Verðmætaaukning fiskvinnslu er ekki tekin inn í gjaldstofn til útreiknings á veiðigjaldi sem er hreinn og beinn hvati fyrir útgerð að lækka verð til sjómanna og handstýra enn frekar verðmyndun á fiski.
  2. Frumvarpið tekur ekki á þeirri brotalöm sem á sér stað í verðmyndun á fiski, en upplýsingar úr opinberum gögnum benda til þess að sjómenn fái ekki gert upp á réttum verðum.
  3. Frumvarpið er illa unnið og langt í frá boðlegt sem grunnur að einhverskonar sátt um pólitískt hitamál.

 

Telji störf kvenna mikilvægari en störf karla

Heiðveig gerir einnig athugasemd við jafnréttiskaflann í veiðigjaldafrumvarpinu. Í samtali við Eyjuna sagði hún engu líkara en að höfundar hafi ákveðið á síðustu stundu, að það þyrfti að vera „bara einhver svona jafnréttisvinkill“ til staðar:

„Að lokum getur undirrituð ekki leynt hneykslun sinni yfir þeirri fáránlegu rökleysu sem reynt er að setja fram í frumvarpi þessu sem rök fyrir mati á áhrifum á lagasetningu. Frumvarpshöfundar slá upp jafnréttisskikkjunni með eftirfarandi orðum og í raun leggja fram þessi einu rök fyrir því að stofn til útreiknings veiðigjalds skuli ekki byggður á fiskvinnslu. í kaflanum kemur fram:

Ástæða er til að víkja sérstaklega að jafnréttismálum. Vinnumarkaðurinn hér á landi er kynjaskiptur eins og víða í hinum vestræna heimi. Konur eru að miklu leyti launþegar í ýmis konar þjónustugreinum. Fram hefur komið það sjónarmið að á landsbyggðinni séu víða ríkjandi karllæg viðmið og gildi þar sem störf sem karlmenn gegna séu meira metin, svo sem í frumatvinnugreinunum, sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði (Stöðugreining 2017. Byggðaþróun á íslandi. Byggðastofmm, Sauðárkrðki, apríl 2017, bls. 19). Störf í landvinnslu hafa jafnan verið að meirihluta á hendi kvenna. Þá má geta þess að konur hafa á síðustu árum verið mun sýnilegri í sjávarútvegi en áður. Nefna má að með frumvarpi þessu er ekki lagt til að vinnsla á sjávarafla 6 verði hluti af reiknistofni veiðigjalds sem mundi fremur, samkvæmt þessu, koma við störf kvenna en karla.“

Með þessari framsetningu eru frumvarpshöfundar að varpa fram þeirri spurningu að veiðigjaldið komi til með að verða greitt af þeim sem við greinina starfa frekar en þeim er hagnast af henni og stingur það algjörlega í stúf við markmið, umfjöllun og „loforð“ þar um. Að sama skapi má lesa út úr þessari málsgrein að frumvarpshöfundar telji störf kvenna mikilvægari en störf karla, þá sjómanna sem eru að meirihluta karlmenn, þá að því gefnu að frumvarpshöfundar séu samkvæmir sjálfum sér í skrifum þessum. Að fórna og ógna afkomu sjómanna og fjölskyldna þeirra og þá tekjum ríkissjóðs með röklausri jafnréttisskikkju er því algjör tímaskekkja og í besta falli algjörlega á skjön við allt það sem frumvarp þetta á að byggja á. Heilt á litið er íramlagning þessa frumvarps tímaskekkja með tilliti til vinnubragða og þeim veika grunni leikreglna og laga er það byggir á. Því er skorað á löggjafann að rýna umsögn þessa sér til gagns og leggja frumvarpið fram að nýju með þeim endurbótum er þörf er á. Það er algjör lágmarkskrafa að löggjafinn í það minnsta tryggi það að sú stétt sem á sér hvað mest kjör sín bundin í lögum settum af löggjafanum sjálfum (mörg hver orðin úrelt og bam síns tíma, t.d. lög nr. 247/1986 um Skiptaverðmæti), þá sjómenn, tryggi það að hlutur stéttarinnar verði ekki skertur enn frekar með íþyngjandi löggjöf til handa stéttinni líkt og frumvarp þetta verði það að lögum.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki