fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019
Eyjan

Vigdís Finnbogadóttir, Erró, Friðrik Ólafsson og Þorgerður Ingólfsdóttir skora á borgarstjóra: „Þarna ráða peningar gjörðum, ekki menning og saga“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 25. september 2018 16:40

Frá fundinum í dag Mynd/Áshildur Haraldsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þau Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, stórmeistarinn Friðrik Ólafsson, Þorgerður Ingólfsdóttir kórstjóri og myndlistarmaðurinn Erró eiga það sameiginlegt að hafa öll verið valin heiðursborgarar Reykjavíkur.

Í dag afhentu þau þrjú fyrstnefndu borgarstjóra Reykjavíkur, Degi B. Eggertssyni, áskorun um að stöðva fyrirhugaða hótelbyggingu í Víkurgarði, einnig þekktum sem Fógetagarði, hinum gamla kirkjugarði á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis, aftan við Landssímahúsið. Þar má til dæmis finna elsta gróðursetta tré borgarinnar, Silfurreyni sem var gróðursettur árið 1884.

Óverjandi ákvörðun

„Við undirrituð, sem njótum þess trausts að hafa verið valin heiðursborgarar Reykjavíkur, teljum með öllu óverjandi að reist verði hótel í Víkurgarði, einum elsta kirkjugarði landsins og helgistað í höfuðborginni.  Í grafreitnum, þar sem byggja á hótelið, var síðast jarðsett árin 1882 og 1883. Þarna átti hvílustað fólk sem breytti þorpi í bæ og lagði grunn að höfuðstað Íslands. Í þessum hópi eru ýmsir sem mörkuðu djúp spor í þjóðarsöguna. Enn ber byggðin í Kvosinni hið geðfellda yfirbragð sem þetta fólk ljáði henni og mikilvægt er að verja og vernda. Andi staðarins og saga má ekki týnast í hringiðu stundarhagsmuna.

Árið 2016 voru fluttar brott jarðneskar leifar fólks úr hvílustað þess í Víkurgarði til að rýma fyrir hótelinu. Fáheyrt er að jarðneskar leifar fólks í vígðum reit séu látnar víkja fyrir veraldlegri byggingu. Þetta er gróf vanvirðing við söguna og minningu forfeðra okkar. Ljóst er að skipulag og bygging hótels á þessum stað á sér rætur í vanþekkingu á sögu Víkurgarðs og mistökum við gerð deiliskipulags. Fram hjá því verður ekki litið að mannvirki, eins og hér um ræðir, í fornum kirkjugarði, samræmist ekki ákvæðum laga nr. 36/1993 um kirkjugarða,“

segir í áskorun fjórmenningana.

Hagnaður ofar helgi og menningu

„Sagt er að í hótelinu verði 145 herbergi. Þarna ráða peningar gjörðum, ekki menning og saga. Hagnaðarvonin og stundarhagsmunir ryðja burt virðingunni og helginni. Og þá tekur óhjákvæmilega við uppblástur mennsku og menningar. Það skapar engum gæfu.Við skorum því á Reykjavíkurborg og byggingaraðila að láta þegar í stað af fyrirhuguðum áformum, sem mundu fyrirsjáanlega valda óbætanlegum spjöllum á þessum viðkvæma og söguhelga reit í hjarta höfuðborgarinnar. Við erum þess fullviss að afkomendur okkar muni um alla framtíð verða þakklátir ef svo giftusamlega tækist til að horfið yrði frá þessum áformum og Víkurgarði þyrmt.“

Borgaryfirvöld hlusta ekki á rök

Friðrik Ólafsson er formaður Kvosarinnar, félags sem stuðlar að umhverfisvernd í Kvosinni í Reykjavík og leitast við verndun sögulegra minja sem þar er að finna.

Í viðtali við Fréttablaðið í sumar sagði Friðrik að málið ætti sér langan aðdraganda:

„… sem hófst með því að nýtt deiliskipulag var samþykkt árið 2013. Þar er gert ráð fyrir því að hluti af kirkjugarðinum, þ.e. austurhlutinn, verði notaður undir nýbyggingu. Okkur hugnaðist ekki að níu hundruð ára gamall kirkjugarður, þar sem þrjátíu kynslóðir Reykvíkinga hafa verið lagðar til hinstu hvílu, væri notaður sem grunnur undir hótelbyggingu – og raunar ekki byggingar af neinu tagi. Talað er um að vera lagður til hinstu hvílu, en það á ekki við í þessu tilviki. Okkur sem stöndum að Kvosinni var einfaldlega misboðið. Í félaginu eru hátt í hundrað manns og í þeirra röðum er margt málsmetandi fólk og þjóðþekktir einstaklingar.“

„Þegar deiliskipulagið var samþykkt árið 2013 mætti það strax mikilli andstöðu og því var harðlega mótmælt. Eigandi fasteignanna á Landssímareitnum reri að því öllum árum að þarna yrði búið til skipulag fyrir þennan tiltekna reit, enda jók það verðgildi hans eigna. Deiliskipulagið var í raun klæðskerasniðið í kringum hann og borgin féllst á það.

Frá upphafi hefur ekki verið neinn áhugi hjá borgaryfirvöldum á að hlusta á rök gegn þessum framkvæmdum. Þar er algjörlega talað fyrir daufum eyrum. Borgarstjórnarmeirihlutinn lét samþykkja það sem honum sýndist því hann er með meirihluta atkvæða og hirðir ekki um að fara eftir lögum og reglum. Það er mín reynsla.

Rótin að þessu öllu eru mikil mistök sem einhver vígreifur embættismaður framdi fyrir rúmum þrjátíu árum, eða 1987, þegar samþykkt var deiliskipulag Kvosarinnar. Þá voru mörk Víkurgarðs ranglega færð og sett miklu vestar, svo það lítur ekki út fyrir að þessi tiltekni reitur sé hluti af garðinum. Þetta er lögleysa en því miður er enginn vilji til að láta þetta ganga til baka, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar,“

sagði Friðrik við Fréttablaðið.

 

 

VÍKURGARÐUR ER ÞJÓÐARGERSEMI.

Greinargerð 

með áskorun heiðursborgara Reykjavíkur; frú Vigdísar Finnbogadóttur, Þorgerðar Ingólfsdóttur, Errós og Friðriks Ólafssonar. 

VANRÆKSLA 

Víkurgarður er hinn forni kirkjugarður Reykjavíkurkirkju og náði frá núverandi Aðalstræti og langleiðina að Austurvelli. Hann er helgur reitur í hjarta höfuðborgarinnar, sameign borgarbúa og raunar landsmanna allra, sannkölluð þjóðargersemi. Hann hefur verið órjúfanlegur hluti gömlu landnáms-byggðarinnar við Aðalstræti og gegnt mikilvægu hlutverki í sögu okkar. Við megum ekki gleyma þessu þótt umgengnin við hann af hálfu reykvískra borgaryfirvalda hafi verið til háborinnar skammar. Vanræksla veldur að útlit og yfirbragð garðsins, sem skilgreindur er í dag sem almenningsgarður, hefur látið stórum á sjá miðað við það sem hann var á síðustu öld þegar hann skartaði sínu fegursta sem skrúðgarður, þá bæði núverandi Fógetagarður og austurhlutinn, nær Austurvelli. Það skýtur því skökku við þegar ráðamenn borgarinnar bera fyrir sig óhrjálegt ástand garðsins sem afsökun fyrir því að þarna í austurhlutanum þurfi að byggja. Þeim væri nær að vernda og varðveita þennan söguhelga reit fremur en að leggja á ráðin um tortímingu hans. Slíkt ráðslag er ekki kjörnum fulltrúum okkar í borgarstjórn samboðið og til lítils sóma.

UMHYGGJA
Okkur er hollt að rifja upp ávarp nokkurra þjóðkunnra einstaklinga, sem sammæltust um það undir lok sjötta áratugar síðustu aldar að beina því til Alþingis og ríkisstjórnar, forráðamanna Reykjavíkurborgar og þjóðarinnar allrar, að bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar við Aðalstræti yrði friðlýst sem þjóðlegur helgistaður. Í ávarpinu sagði m.a: 
Frá höfuðsetri Ingólfs í Reykjavík … þróaðist hið íslenska þjóðfélag … með allsherjarlögum, alþingi við Öxará og allsherjargoða í Reykjavík. 

Efalaust verður að telja að bær Ingólfs í Reykjavík hafi staðið við sunnanvert Aðalstræti að vestan, andspænis þeim stað, þar sem síðar var kirkjan og gamli kirkjugarðurinn. Öllum má kunnugt vera hversu það bar til að höfuðborg landsins var reist á túnum og tóftum hins fyrsta landnámsmanns, þar sem ævaforn sögn hermir að guðirnir hafi vísað honum til bólfestu. Söguhelgi þessa staðar er sameign okkar Íslendinga. Engin þjóð önnur kann frá slíkum atburðum að segja úr sinni sögu, þar sem í einn stað koma upphaf og framtíð. Ekki þarf orða við um það að bæjarstæði Ingólfs á að vera um aldur og ævi friðhelgur þjóðminningarreitur.

Það var einvalalið sem undirritaði ávarp þetta:

Bjarni Jónsson, vígslubiskup, Einar Ólafur Sveinsson, prófessor, Guðni Jónsson, prófessor, Helgi Hjörvar, rithöfundur, Kristján Eldjárn, þjóðminjavörður,  Magnús Már Lárusson, prófessor, Matthías Þórðarson, fyrrv. Þjóðminjavörður, Ólafur Lárusson, prófessor, Pétur Benediktsson, bankastjóri, Ragnar Jónsson, forstjóri, Sigurbjörn Einarsson, biskup, Sigurður Nordal, prófessor, ´Tómas Guðmundsson, skáld, og Þorkell Jóhannesson, háskólarektor.

RÍKISSTJÓRNIN AFSTÝRIR HELGISPJÖLLUM

Á árunum 1965-6 gerðust þau óvenjulegu tíðindi að ríkisstjórnin sem þá sat (ráðuneyti Bjarna Benediktssonar, 1963-1970) greip inn í rás atburða, sem ógnuðu tilvist gamla kirkjugarðsins, og kom í veg fyrir að þar risi firnamikil viðbygging, sunnan við gamla Landsímahúsið, nánast sams konar bygging og nákvæmlega á sama stað og byggingin sem nú er áformað að þar rísi, illu heilli.

Skipulagsnefnd kirkjugarða, undir forystu herra Sigurbjarnar Einarssonar biskups og Kristjáns Eldjárn þjóðminjavarðar, frétti af fyrirætlunum um hina miklu byggingu. Nefndin var forveri núverandi Kirkjugarðaráðs. Kom einkum til kasta Kristjáns að kanna málið og taldi hann að byggingin fyrirhugaða tæki yfir 360 fm af Víkurgarði eða fimmtung hans. Kristján ritaði borgarlögmanni í mars 1965, í umboði Skipulagsnefndar kirkjugarða, og vakti athygli á að lög heimiluðu ekki að reist yrði þarna mannvirki í kirkjugarði nema með sérstakri undanþágu ráðherra, að fengnu samþykki Skipulagsnefndar kirkjugarða. Sama lagaákvæði gildir enn þá, en Kirkjugarðaráð er komið í stað Skipulagsnefndar kirkjugarða. Ríkisstjórnin bannaði svo framkvæmdina í september 1965. Viðbyggingin hafði verið teiknuð samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur og ráðgert var að hún yrði um 12.000 rúmmetrar, fimm og sex hæðir og með kjallara. Ríkisstjórnin óskaði eftir því að byggingin raskaði ekki grafreitum í kirkjugarðinum. Var því teiknuð ný bygging með það í huga að hún gengi sem minnst út í kirkjugarðinn og yrði kjallaralaus. Við þessa breytingu var byggingin minnkuð niður í 6 – 7.000 rúmmetra og varð aðeins fjórar hæðir. Var þannig sæst á miklu minni byggingu. Þetta er viðbyggingin við Landsímahúsið sem var brotin niður núna í sumar.

ENGIN SAMFÉLAGSLEG NAUÐSYN FYRIR BYGGINGU 
Árið 1965 stóðu menn frammi fyrir þrýstingi Pósts síma sem hafði aðsetur í Landsímahúsinu og beitti sér ákaft fyrir viðbyggingu. Forsvarsmenn fyrirtækisins gátu vísað til þess að gerðar væru miklar kröfur um aukna póst- og símaþjónustu og stækka yrði athafnarými fyrirtækisins á staðnum. Núna er langt um liðið síðan Póstur og sími fluttist af svæðinu en samt skal byggt miklu meira þarna en leyft var 1966. Hið ört vaxandi fyrirtæki Póstur og sími stundaði meginstarfsemi sína þarna á afar óheppilegum stað árið 1965 og ekki mun þá hafa þótt fært að flytja fyrirtækið. Staðan núna er mjög lík því sem hún var 1965-6. En ólíkt því sem var þá  rekur ekki nein samfélagsleg nauðsyn til þess að reisa þarna byggingu. Hóteli má finna heppilega lóð annars staðar.

BEIN FLUTT, VÍGÐUR REITUR AÐ ENGU VIRTUR

Á útmánuðum 2016 voru grafin upp bein í austurhlura Víkurgarðs til að rýma fyrir hóteli. Það eru mestu spjöll sem unnin hafa verið í garðinum, m.a. voru fluttar brott  20 heillegar kistur með heillegum beinagrindum.  Bann við að grafið væri fyrir kjallara 1967 þjónaði þeim tilgangi að hlífa legstöðum eftir mætti. En núna er leyft að grafið sé fyrir kjallara, líka þar sem viðbyggingin frá 1967 var reist, sú sem var brotin niður á dögunum og hafði engan kjallara. Leyft er að nýja byggingin verði álíka stór og byggingin sem fyrirhuguð var 1965 en tókst að afstýra að yrði reist. Í þessum hluta kirkjugarðsins var síðast jarðsett 1882 og 1883. Þarna er vígður reitur, a.m.k. nærri 300 fm, kannski stærri, sem ætlaður var sem hinsti hvílustaður forfeðra okkar og –mæðra, en skal lagður undir hótel. Okkur finnst brýnt að mótmæla þessu.

Við teljum rök til þess að halda að enn kunni að vera jarðneskar leifar Reykvíkinga í gamla garðinum þar sem viðbygging Landsímahússins stóð. Þetta ber að kanna rækilega og að svo búnu leyfa þeim sem þarna kunna að finnast að hvíla þar áfram. Þar sem viðbyggingin stóð voru eitt sinn minningarmörk sem enn eru varðveitt og ber að setja aftur á viðeigandi staði. Beinum sem flutt voru á útmánuðum 2016 úr legstað við Kirkjustræti væri eðlilegt að koma þar fyrir aftur.

VANÞEKKING RÆÐUR FÖR

Þannig er næsta skrefið, að öllu óbreyttu, að reisa í gamla kirkjugarðinum viðlíka stórbyggingu og Viðreisnarstjórnin fyrir ríflega hálfri öld kom í veg fyrir að risi þar, góðu heilli. Þessum nýju áformum hefur verið mótmælt ítrekað við borgaryfirvöld. Þeir sem stóðu að byggingunni eða höfðu samþykkt hana leyfðu sér sumir að efast um að kirkjugarðurinn næði eins langt í austur og andstæðingar framkvæmdanna töldu. Fornleifarannsóknir á útmánuðum 2016 færðu þeim sönnun um annað.

Þegar borgaryfirvöld hafa svarað mótmælendum hafa þau borið fyrir sig deiliskipulagið frá 1988, svonefnt Kvosarskipulag. Skjalfest gögn og heimildir hafa legið fyrir um það hjá Reykjavíkurborg, að Víkurkirkjugarðurinn hafi náð langleiðina út að Austurvelli. Þetta var t.d. ljóst í umræðum 1965-6 og þegar viðbyggingin var reist árið 1967 og jarðneskar leifar fólks komu í ljós þar sem var grafið fyrir sökkli (undirstöðu). Allan þennan tíma síðan þá hafa þessar heimildir verið innan seilingar hjá borgaryfirvöldum og aðgengilegar. Samt sem áður létu einhverjir skipulagsstjórar þar á bæ sér til hugar koma, þegar unnið var að undirbúningi deiliskipulags fyrir Kvosina (samþykkt 1987 og staðfest 1988), að gera austurhluta garðsins að „byggingarreit“, sem að sjálfsögðu er marklaus gerningur sem engan rétt getur skapað.
Byggingarrétturinn verður ekki búinn til með því að láta tæma kirkjugarðinn af kistum og jarðneskum leifum áa okkar og ættmenna, nákvæmlega á því svæði þar sem byggja á hótelið, enda hefði aldrei verið við þeim hreyft ef ekki hefði átt að rísa þarna bygging. Þetta er ótrúlega gróft inngrip í aflagðan kirkjugarð, vígðan reit sem nýtur friðhelgi samkvæmt lögum og verndar sem fornleifar.

Ljóst er að skipulagning og bygging margra hæða hótels á þessum stað byggist á vanþekkingu á sögu Víkurgarðs. Þegar síðast var jarðsett þarna í austurhlutanum í Víkurgarði árin 1882 og 1883 nefndu yfirvöld garðinn „gamla kirkjugarðinn“. Enginn vafi lék á að þetta taldist vígður og helgur reitur þá og hvergi liggur fyrir að hann hafi verið formlega aflagður. Þarna mátti aðeins rækta blóm og tré en ekki byggja hús og garðurinn skyldi vera girtur. Þessi sjónarmið giltu langt fram eftir 20. öld, höfðu fulla lagastoð og réðu afstöðu Skipulagsnefndar kirkjugarða árið 1965.

LÖG EKKI VIRT

Ítrekað skal að telja verður að bygging mannvirkis í kirkjugarðinum sé ekki í samræmi við gildandi lög og vísum þá í lög nr. 36/1993 og jafnframt eldri lög um kirkjugarða en eftir þeim var farið 1965. Framkvæmdin samræmist ekki 33. gr. í gildandi lögum þar sem segir að í niðurlögðum kirkjugarði megi ekki reisa nein mannvirki nema ráðherra veiti undanþágu. Slík undanþága skal þó vera háð samþykki Kirkjugarðaráðs. Borgaryfirvöld hafa aldrei farið fram á neitt leyfi eða undanþágu. Kirkjugarðaráð  hefur af þessum sökum krafist skýringa á þessu hátterni þeirra.

MIKIL RÖSKUN Á VIÐKVÆMU SVÆÐI

Hótelið á ekki einungis að reisa á sögulegum og helgum stað. Það veldur líka óskunda með því að vera stórt, mikil bygging. Í heild skulu vera í hótelinu a.m.k. 145 herbergi, eftir því sem hermt er, og aðkoma gesta skal vera um Fógetagarðinn, við Aðalstræti og Kirkjustræti, og hann yrði þá eins konar forgarður hótelsins og þar virðist gert ráð fyrir veitingaaðstöðu fyrir hótelgesti. Yrði þá að mestu úti um garðinn sem almenningsgarð. Þjónustuaðkoma skal vera frá Austurvelli (Thorvaldsensstræti). Miðað við þjónustuaðkomu t. d. á Hótel Sögu (við gafl að sunnanverðu) gæti þarna  við Austurvöll orðið mikil umferð stórra bíla með varning og hæfir lítt útivist fólks á Austurvelli, götuveitingum í Vallarstæti, starfsemi Alþingis og helgi Dómkirkjunnar. Ljóst er að byggingin er of stór með of mikla starfsemi á viðkvæmu svæði sem þolir ekki svo mikil umsvif og álag vegna gestagangs og þjónustu. Ofan á þetta bætist svo helgi og sögufrægð Víkurgarðs. Nýja hótelbyggingin á ekki heima þarna, henni verður að finna annan og betri stað þar sem hún ætti betur heima vegna stíls og stærðar.

GERUM ÓSVIKINN ALMENNINGSGARÐ

Hin nýja hótelbygging auðveldar fólki ekki útivist í Fógetagarðinum og á Austurvelli og er ekki líkleg til að auka ánægju af henni. Samkvæmt fyrrgreindum lögum skal niðurlagður kirkjugarður vera almenningsgarður. Það er líka yfirlýst stefna í Kvosarskipulaginu svonefnda að auðvelda fólki útivist og ferðir milli almenningssvæða.  Fyrirhuguð stórbygging fer þvert gegn öllu slíku, er til trafala fyrir för gangandi milli Austurvallar og Fógetagarðs, gerir umferð gangandi mun torveldari en verið hefur. Hér eins og annars staðar í miðbæ Reykjavíkur í seinni tíð skal nýbygging ná að ystu mörkum lóða og opin, græn svæði eru vanrækt.

Núna gefst sögulegt tækifæri til að bæta úr þessu eftir að viðbygging Landsímahúss frá 1967 hefur verið brotin niður. Þar með gefst færi á að rækta upp almenningsgarð milli Landsímahúss og Kirkjustrætis í framhaldi Fógetagarðs. Í þessu sambandi má rifja upp að Austurvöllur er mikilvægasta svæði Reykjavíkur til útifunda og ræðupalli er jafnan komið fyrir rétt við hinn gamla Víkurgarð. Við hönnun í austurhluta hans og alveg að Thorvaldsensstræti  yrði að taka mið af því með greiðum göngustígum. Ræktaður garður þarna með greiðum stígum auðveldaði mjög aðkomu að Austurvelli og brottför þaðan.

FÍNGERÐ ÁSÝND AÐ ENGU HÖFÐ

Núna virðist kostað kapps um að láta jafnan hæstu byggingu á hverjum stað ráða hæð nýbygginga í Kvosinni. Nýbyggingin fyrirhugaða samræmist ekki vel þeirri byggð sem fyrir er, timburhúsabyggð við Kirkjustræti og Aðalstræti, hvorki um stærð né stíl. Timburhúsabyggð í Kvosinni þróaðist á 19. öld og var í blóma um aldamótin 1900 og snemma á 20. öld með glæsihúsum eins og þeim sem sjá má á Alþingisreitnum í Kirkjustræti. Einkenni þeirra eru reist þök og kvistir, sérstakur gluggaumbúnaður og smágerðir gluggar, hófstillt hlutföll, timbur og bárujárn.  Nýbyggingin sem reist skal andspænis er af annarri ætt, á ekki heima þarna. Sú mikla natni sem Alþingi lagði í að endurgera gömlu húsin við Kirkjustræti, af metnaði og með talsverðum kostnaði til að bæta og fegra umhverfið, hefur orðið til lítils því að ekkert tillit er tekið til þess í nýju byggingunni heldur vaðið áfram eins og nágrenni Landsímareitsins skipti engu máli. Nýbyggingar í Aðalstræti í gömlum stíl, Uppsalir og Fjalaköttur, risu eftir mikil átök um Grjótaþorp. Um þau varð sátt og stefna virtist mörkuð sem Alþingi fylgdi, gætt skyldi að sögu svæðisins og mikilvægum einkennum umhverfis. Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa þetta að engu.

PENINGAHYGGJA OG ANDMÆLI

Þeirri hugsun verður ekki varist að gróðavon ráði för þegar hótelið skal vera svo stórt sem raun ber vitni á svo viðkvæmu svæði. Áformin hafa verið gagnrýnd árum saman og til varnar bent á sögu svæðisins, helgi Víkurgarðs, mikilvægi hinnar gömlu byggðar, þörf fyrir almenningsgarða, of mikla umferð og umsvif á viðkvæmu svæði, vanþekkingu á sögunni, skort heimildar að lögum og margt fleira auk þess sem mikil gróðahyggja hefur verið harðlega gagnrýnd. Svonefndur BIN hópur gagnrýndi hvernig staðið var að samkeppni um hús á Landsímareit 2011-13. Hópurinn barðist hatrammlega gegn fyrirhuguðu hóteli og þar með nýbyggingu við Kirkjustræti og Thorvaldsensstræti. 10. júli 2012 ýtti hópurinn úr vör undirskriftasöfnun gegn risahóteli, eins og það var nefnt, og fyrir varðveislu Nasasalarins svonefnda. 25. október 2012 höfðu 16.818 undirritað og sama dag voru borgarstjóra afhentar undirskriftirnar að viðstöddum fréttamönnum. Áður en yfir lauk höfðu 18.000 manns undirritað. BIN hópurinn gerði grein fyrir þeirri skoðun að umræddu risahóteli ætti að finna lóð annars staðar og borgaryfirvöld ættu að beita sér fyrir lóðaskiptum. Yfirvöld borgarinnar daufheyrðust við öllum aðfinnslum við hótelið og tillögum til úrbóta. Fjöldi einstaklinga mótmælti hótelinu við Umhverfis- og skipulagssvið á árinu 2013 en kom ekki að neinu gagni. Margoft var bent á að ósæmandi væri að reisa hótelið í hinum gamla kirkjugarði. Slík andmæli fengu aukinn þunga þegar fornleifagröftur var hafinn í kirkjugarðinum 2016 og bein flutt brott í geymslur. Sérstakur fjölmennur mómælafundur var haldinn í safnaðarheimili Neskirkju 21. nóvember 2017 og sendi borgaryfirvöldum ályktun um verndun Víkurgarðs. Fólk sem sótti fundinn ritaði nöfn sín og tjáði sig þar með reiðubúið að starfa að verndun Víkurgarðs. Á grunni þessa fundar var stofnað félagið Kvosin sem hefur á stefnuskrá „að stuðla að umhverfisvernd í Kvosinni í Reykjavík og leitast við að vernda sögulegar minjar sem þar er að finna“. Félagið kærði leyfi til nýbyggingar í Víkurgarði.

Barátta BIN hópsins og félagsins Kvosarinnar hefur ekki fengið góðar undirtektir þeirra sem stýra borgarmálum. Gagnrýni almennings á meðferð Víkurgarðs hefur ekki hlotið mikinn hljómgrunn í borgarkerfinu. Fáir aðrir en þeir sem með völdin fara eða þeir sem standa fyrir framkvæmdum munu mæla nýju byggingunni bót, vegna stærðar hennar, væntanlegrar starfsemi og staðarvals.

SKUGGAVARP

Gert er ráð fyrir að þak á Landsímahúsinu, Thorvaldsensstræti 4, verði hækkað og jafnframt verði kvistar settir á það. Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort Guðjón Samúelsson hafi hugsað sér svona kvista á byggingunni. Ef ekki, ber skilyrðislaust að hafna þeim. Við gerð þessara kvista mun húsið hækka og skuggavarp aukast við Austurvöll. Sú aukning er talin verða óveruleg en engu að síður er þetta íhugunarefni vegna þess að Austurvöllur er einn helsti sólar- og sælureitur fólks á höfuðborgarsvæðinu að sumarlagi. Mun sjálfsagt leitun að þeim sem fagni þessari hækkun en hinir fjölmargir sem vilja hana ekki. Í ljósi þessa ber líka að fordæma fyrirhugaða nýbyggingu sem kemur í stað viðbyggingarinnar sem hefur verið brotin niður. Hún skal vera sex hæðir þar sem hún rís hæst. Jafnframt skal reist í framhaldinu önnur ný bygging við Thorvaldsensstræti og meðfram Kirkjustræti. Auðsætt er að þessar byggingar munu varpa allmiklum skugga inn á Austurvöll og er ekkert fagnaðefni.

NIÐURLAGSORÐ

Hér skal að lokum lögð áhersla á nokkur atriði. Ekki er forsvaranlegt að reisa veraldlega byggingu í kirkjugarði þar sem var síðast jarðsett árin 1882 og 1883. Víkurgarður hefur mikilvæga, sögulega skírskotun og ber að varðveita í heild og sýna sóma. Hann skal varðveita sem almenningsgarð og tryggð skulu náin tengsl hans við Austurvöll. Stærð og gerð fyrirhugaðrar byggingar sýnir ekki vilja til að virða byggðina sem fyrir er við Kirkjustræti og Aðalstræti. 145 herbergja hótel með miklum umsvifum og starfsemi sem fylgir samræmist illa Fógetagarði sem almenningsgarði. Heilladrýgst er að hætta við byggingaráformin og leyfa Víkurgaði að njóta sín í þágu almennings.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“