fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019
Eyjan

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn um Ísland: „Frekari styrking eftirlits með fjármálageiranum þarf að njóta forgangs – Tilefni til aðgerða í stað umræðna“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 25. september 2018 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur sent frá sér álit eftir tveggja vikna heimsókn til Íslands. Sendinefndin átti fundi með fulltrúum stjórnvalda, Seðlabanka Íslands, aðilum á vinnumarkaði og fulltrúum atvinnulífsins og fjármálastofnana. Heimsóknin er hluti af árlegri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðu og horfum í íslensku efnahagslífi (e. Article IV Consultation).

Álit sendinefndarinnar var kynnt á fundi með fréttamönnum í Hannesarholti í Reykjavík í morgun.

Í úttektinni er sett fram margvísleg gagnrýni á ríkisreksturinn, þó svo lýst sé yfir ánægju með að hægst hafi á vexti hagkerfisins.

Mælst er til gaumgæfilegri forgangsröðun í styrkingu innviða, lagt er til að gagnsæi verði aukið í ríkisfjármálum og eftirlit með fjármálageiranum verði sett í forgang og styrkt enn frekar:

„Frekari styrking eftirlits með fjármálageiranum þarf að njóta forgangs og nú tíu árum eftir fjármálahrun er tilefni til afgerandi aðgerða.

Í samræmi við fyrri ráðgjöf vinnur Ísland nú að því að styrkja eftirlit með fjármálageiranum.
Takmarkið ætti að vera skipan sem er sjálfstæð, vel fjármögnuð og gædd öllum helstu heimildum til
að setja reglur og framfylgja þeim. Skipanin ætti einnig að tryggja að hvorki sé um að ræða
ónauðsynlega skörun né gloppur.

Nú þegar tíu ár eru liðin frá fjármálahruni er tilefni til aðgerða í stað umræðna. AGS sér kosti í að
sameina allt eftirlit með fjármálageiranum, þrautavaralánveitingar og verkefni skilavalds í Seðlabanka
Íslands. Það myndi auka samlegðaráhrif, koma í veg fyrir óþarfa skörun verkefna, samþætta betur
eindar- og þjóðhagsvarúð, endurspegla kerfislegt mikilvægi íslensku lífeyrissjóðanna og efla viðbúnað
fyrir hnekki í framtíðinni. Með því að færa í reynd fjármálaeftirlit inn í Seðlabankann mætti einnig
lágmarka annmarka í breytingarferlinu.“

Álit sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (Enska)

 

Lausleg þýðing á áliti sendinefndar AGS:

Ísland: Álit sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir árlega heimsókn til Íslands (Article IV)
Hægari hagvöxtur á Íslandi eftir ósjálfbæran vöxt síðustu ára er jákvæð þróun. Áhætta hefur aukist,
en viðnámsþróttur hefur aukist og stefna ber að því að bæta viðnám enn frekar. Áætlanir í
ríkisfjármálum gera ráð fyrir nauðsynlegum fjárútlátum til innviða, heilbrigðisþjónustu og menntunar,
en gæta þarf að forgangsröðun og framkvæmd svo að markmiðum í ríkisfjármálum verði náð.
Stefnan í peningamálum á halda áfram að beinast að verðstöðugleika. Stefnan varðandi
fjármálastöðugleika þarf að beinast bæði að þjóðhagsvarúð og eindarvarúð. Frekari styrking eftirlits
með fjármálageiranum þarf að njóta forgangs og nú tíu árum eftir fjármálahrun er tilefni til afgerandi
aðgerða. Að endingu, betra fyrirkomulag kjaraviðræðna er nauðsynlegt fyrir samkeppnishæfni;
frekari þróun í ferðamannaþjónustu krefst heildrænnar stefnumótunar; og sjálfbærar veiðar kalla á
áframhaldandi viðleitni til alþjóðlegrar samvinnu.

1. Hægari vöxtur í íslenska hagkerfinu hefur dregið úr áhyggjum af ofhitnun. Styrking krónunnar á
árunum 2014-16 hefur, með töf, dregið úr vexti í ferðamennsku og vexti innlendrar eftirspurnar.
Aukið framboð nýs húsnæðis hefur hægt á verðhækkunum á fasteignamarkaði. Lánavöxtur hefur
aukist en frá lágum upphafspunkti. Gengi krónunnar hefur á heildina verið stöðugt frá miðju ári 2017
sem er betra fyrir útflytjendur en ef styrking undanfarinna ára hefði haldið áfram. Verðbólga hefur
verið nálægt opinberu markmiði í fimm ár, sem er eftirtektarverður árangur í ljósi sögu
verðóstöðugleika á Íslandi. Sérfræðingar AGS búast við að smám saman muni hægja á hagvexti þar til
hann nær sjálfbærari slóðum í kringum 2½%.

2. Hins vegar hefur birst ný áhætta. Hátt olíuverð og aukin samkeppni í flugsamgöngum eru áskoranir
sem flugþjónustan stendur frammi fyrir. Aukin spenna í alþjóðaviðskiptum gæti haft neikvæð áhrif á
útflutningsverð á áli og öðrum varningi. Óvissa tengd samningaviðræðum um útgöngu Breta úr
Evrópusambandinu eykur líkurnar á veikari útflutningseftirspurn frá einum af stærstu mörkuðum
Íslands og gæti flækt frekar fiskveiðisamvinnu á Norður-Atlantshafi. Að lokum gætu komandi
samningaviðræður á vinnumarkaði leitt til þess að laun hækka um of, með neikvæðum áhrifum á
samkeppnishæfni landsins.

3. Efnahagsstefnan þarf því að miða að því að efla viðnámsþrótt hagkerfisins. Efnahagsreikningar
heimila, fyrirtækja og hins opinbera hafa styrkst gríðarlega undanfarin ár. Þar sem hagkerfið er lítið,
opið og næmt fyrir áföllum er nauðsynlegt að hafa borð fyrir báru með lágum opinberum skuldum,
öflugu eiginfé og lausafé banka ásamt nægum gjaldeyrisforða, auk þess að móta stefnu sem eykur
vaxtarmöguleika, styður við samkeppnishæfni og dregur úr áhættusækni.

4. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn styður markmið Íslands í ríkisfjármálum en kallar eftir frekara gagnsæi
um undirliggjandi áform. Þessi áform eru líkleg til að skila jafnvægi í ríkisfjármálum sem er við hæfi
með tilliti til horfa um hagvöxt. Þau samrýmast líka frekari skuldalækkun sem myndi auka rými fyrir
sveiflujafnandi aðgerðir ef áhætta raungerist. Sjóðurinn styður áherslu á innviði, heilbrigðismál og
menntun en kallar eftir gaumgæfilegri forgangsröðun. Sparnaðaraðgerðir ættu að vera skýrt settar
fram, minna ætti að reiða sig á ófyrirsjáanlegar arðgreiðslur og skattaumbætur þarf að íhuga
vandlega til að styðja við áætlanir um ríkisfjármál og að tryggja að heildarmarkmiðum um afgang í
ríkisfjármálum verði náð.

5. Peningastefna ætti áfram að hafa verðstöðugleika að meginmarkmiði. Verðbólgumarkmiðið ætti
að fanga neyslumynstur heimila með fullnægjandi hætti, þar á meðal útgjöld vegna húsnæðis.
Vaxtahækkanir eiga rétt á sér ef verðbólguþrýstingur eykst, t.d. vegna of mikilla launahækkana, eða
ef um mikið útflæði fjármagns yrði að ræða. Inngrip á gjaldeyrismarkaði ættu að takmarkast við að
sporna gegn óróa á markaði og leggja áherslu á að viðhalda nægjanlegum gjaldeyrisforða.

6. AGS styður við áform stjórnvalda um að endurnýja lagagrundvöll fjárstreymistækis í formi
sérstakrar bindingarskyldu á tiltekið innflæði fjármagns. Fjárstreymistæki af þessu tagi geta verið
gagnleg við ákveðnar kringumstæður svo framarlega sem þau koma ekki í stað nauðsynlegrar
aðlögunar í þjóðarbúskapnum. Engu að síður bendir AGS einnig á að minnkandi vaxtamunur milli
Íslands og helstu myntsvæða gefi til kynna að hægt sé að vinda ofan af bindingarhlutfallinu.

7. Í samræmi við fyrri ráðgjöf vinnur Ísland nú að því að styrkja eftirlit með fjármálageiranum.
Takmarkið ætti að vera skipan sem er sjálfstæð, vel fjármögnuð og gædd öllum helstu heimildum til
að setja reglur og framfylgja þeim. Skipanin ætti einnig að tryggja að hvorki sé um að ræða
ónauðsynlega skörun né gloppur.

8. Nú þegar tíu ár eru liðin frá fjármálahruni er tilefni til aðgerða í stað umræðna. AGS sér kosti í að
sameina allt eftirlit með fjármálageiranum, þrautavaralánveitingar og verkefni skilavalds í Seðlabanka
Íslands. Það myndi auka samlegðaráhrif, koma í veg fyrir óþarfa skörun verkefna, samþætta betur
eindar- og þjóðhagsvarúð, endurspegla kerfislegt mikilvægi íslensku lífeyrissjóðanna og efla viðbúnað
fyrir hnekki í framtíðinni. Með því að færa í reynd fjármálaeftirlit inn í Seðlabankann mætti einnig
lágmarka annmarka í breytingarferlinu.

9. Sjóðurinn styður eindregið viðleitni til að bæta samningalíkan á vinnumarkaði og tengja það
framleiðnivexti og samkeppnishæfni. Þar sem kaupmáttur hefur aukist um 25% prósent á síðustu
fjórum árum sem er eftirtektarvert – og jafnvel meira ef reiknað í erlendum gjaldeyri – ættu
kjarasamningar að verða í takti við framleiðniaukningu til að koma í veg fyrir áframhaldandi vöxt
launakostnaðar á framleidda einingu.

10. Að styrkja sjálfbærni hagvaxtar og umhverfis ætti einnig að vera forgangsmál. Hægari vöxtur í
ferðamannaþjónustu hefur leitt í ljós mikilvægi þess að innleiða heildræna sýn og grípa til
áþreifanlegra aðgerða, t.a.m. að bæta þjónustu við vinsæla ferðamannastaði og aðgengi að stöðum
lengra frá Reykjavík. Í sjávarútvegi er varfærin stjórn á sjávarauðlindinni lykilatriði í velgengni geirans
og ætti að fela í sér frekari viðleitni til að tryggja varanlega samninga um flökkustofna við aðrar
fiskveiðiþjóðir í Norður-Atlantshafi.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“