fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019
Eyjan

Össur: RÚV þegir fréttir í hel – Óboðlegt að RÚV þegi um þessar upplýsingar

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 23. september 2018 15:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þáttur Loga Bergman sem frumsýndur var á sjónvarpi Símans hefur vakið mikla athygli. Þar ræddi Logi við fyrrverandi forseta Íslands Ólaf Ragnar Grímsson. Þar kom margt nýtt fram sem Ólafur hefur ekki farið djúpt í saumana áður.

Össur Skarphéðinsson fyrrverandi þingmaður, ráðherra og formaður Samfylkingarinnar lagðist yfir viðtalið við Ólaf. Fannst honum það stórmerkilegt að mörgu leyti. Össur greinir frá því að hann hafi unnið bæði með Loga og Ólafi á Þjóðviljanum sáluga. Þegar Ólafur steig til hliðar sem ritstjóri tók Össur við. Þá starfaði Logi á miðlinum sem íþróttafréttamaður. Össur náði þeim „merka áfanga í fjölmiðlasögunni að reka Loga Bergmann. Ég réði hann þó aftur um kvöldið.“

Af hverju þegir RÚV

Össur kryfur þátt Loga í ítarlegum pistli á Facebook. Fyrir utan að dásama þetta merkilega viðtal gagnrýnir hann RÚV harðlega og sakar ríkisfjölmiðilinn um þöggun því þrátt fyrir að þar væri að finna ótal söguleg „skúbb“ hefur RÚV látið vera að vitna í viðtal Loga. Össur segir:

„Ólafur Ragnar dró upp nöturlega mynd af samskiptum við Bandaríkin í hruninu. Þegar hann notaði persónuleg tengsl til að nálgast bandarísk stjórnvöld varðandi liðveislu voru viðbrögð Timothy Geithner fjármálaráðherra Bandaríkjanna í efnislegri umorðun fyrrverandi forseta svona: „Siglið þið bara fyrir björg og það kemur okkur ekkert við.“ Vaá!! Það er meira en digurt hjá fyrrverandi forseta að leggja svona á borðið. Það er stórfrétt. Ekki síst þegar um er að ræða ríki einsog Bandaríkin sem flestar íslenskar ríkisstjórnir líta af sögulegum ástæðum á sem helsta bandamann sinn ef veður þrútna.“

Össur kveðst sjaldan lesa fréttir þessa dagana en þegar það gerist verði RÚV oft fyrir valinu. Þögn Rúv er því vonbrigði en líkt og Össur orðar það borgar hann RÚV fyrir að segja honum „real news“.

„Einhvern tíma hefði ríkismiðillinn stokkið á svona frétt, og skoðað slík ummæli fyrrverandi þjóðhöfðingja um traustan bandamann í tætlur. En ég hef ekki heyrt orð um þetta á RÚV. Ef upplýsingum forsetans er púslað saman við upplýsingar í Wikileaks-skjölunum af skyldri atburðarás á sínum tíma og tilraunum Íslendinga til að verða hluti af gjaldeyrisskiptasamningi Bandaríkjanna við Norðurlöndin þá birtist nokkuð heilleg mynd. Bandaríkin létu okkur einfaldlega róa. Væntanlega höfðu þau sínar ástæður fyrir því. En það er hollt fyrir okkur að horfa inn í veruleikann. Á þessum veruleika hefur blessað RÚV-ið ekki áhuga fremur en kettirnir sem liggja hér í sófanum, sílspikaðir og fallegir.“

Össur heldur áfram:

„Í framhaldi af þessari frásögn upplýsti Ólafur Ragnar um samskipti hans og Geirs H. Haarde við forseta Kína, sem leiddu til að hann gaf beinlínis fyrirmæli um að fulltrúi Kína styddi af alefli við málstað Íslands innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem Bretar höfðu þá náð að læsa gegn Íslandi. Afstaða Kína skipti Ísland miklu máli og hafði – að ég tel – áhrif á afstöðu annarra auðugra stórvelda sem tóku einnig upp stuðning við Ísland. Þessa atburðarás þekkti ég sem ráðherra, en minnist þess ekki að hún hafi komið fram opinberlega. Og RÚV finnst það ekki einu sinni þess virði að splæsa einni frétt á málið – hvað þá ræfilslegum fréttaauka.“

Össur bendir á að í kjölfarið hafi einn af valdamestu mönnum Kína gert sér ferð til Íslands til að gera gjaldmiðlaskiptasamning. Segir Össur að ekki hafi allir ráðherrar hrifist af því.

„Sá samningur var partur af því spili sem leiddi til þess að Ísland náði aftur hluta af sínum vopnum í erfiðri glímu erlendis. Enginn veit betur en sá sem var utanríkisráðherra meðan þau ósköp dundu yfir að það skipti máli að rísandi stórveldi lét ekki aðeins uppi stuðning í orðum, heldur lýsti með táknrænum og raunverulegum hætti gegnum gjaldmiðlasamninginn að Ísland átti amk. annarra kosta völ. Um stutta hríð var Kínakortið eina raunverulega spilið sem Ísland hafði á hendi. Því var sannarlega beitt í Brussel. Það segir sína sögu að samninginn þurfti aldrei að virkja.

Þetta gerði Kína, segir Ólafur, án þess að biðja um neitt í staðinn. Svo var ekki um önnur stórveldi sem um hríð virtust reiðubúin til aðstoðar. Sagan á eftir að leiða það í ljós.“

Össur segir óboðleg að RÚV fjalli ekki um þessar merku sögulegu upplýsingar sem nú hafi komið fram sem setji eitt mesta drama Íslandssögunnar í annað samhengi.

„Hvar er fréttamatið? Eða ræðst fréttamatið af spælingum RÚV yfir því að örlítill keppinautur (amk. í fréttum) breikar málið? Þetta eru þó stórfréttir, og það er hlutverk RÚV að segja þeim ansi stóra parti þjóðarinnar sem ekki horfir á sjónvarp Símans frá þeim – og setja þær í sögulegt samhengi. Það hvarflar að mér að hugsanlega skipti máli að Logi vinnur líka við útvarp sem Mogginn gerir út? Það væri agnarsmátt.“

Össur heldur áfram:

Gordon brown

„Helgreipar Bretlands og Gordons Brown á Íslandi innan AGS voru spenntar upp af Kína, Japan, Þýskalandi og Svíum, einkum vegna harðrar málafylgju Carls Bildts hvarvetna fyrir okkar hönd, og lítillar en feikilega duglegrar utanríkisþjónustu. Innan AGS, í embættismannastóðinu, var Dominique Strauss-Kahn – nú útskúfaður fyrir bresti á öðrum sviðum – sá maður sem best reyndist Íslandi að lokum. Allt saman er það önnur saga, en Ólafur hefur þó stórmerk ummæli eftir Strauss-Kahn, sem sannarlega eru stórfréttir af munni fyrrverandi forseta. Um þau er annar vitnisburður. Svo vill til, þó óþægilegt hafi verið fyrir mig á þeim tíma, að sömu viðhorf komu fram í samtölum mínum við Strauss-Kahn, bæði á tveggja manna fundi okkar í Bandaríkjunum og áður í símtali um miðja nótt. Þetta fannst RÚV þó ekki endursagnar virði af munni fyrrverandi forseta lýðveldisins.“

Össur segir að Ólafur hafi aldrei opnað sig með þessum hætti líkt og hann gerði í viðtalinu við Loga. Össur endar sinn langa pistil á þessum orðum:

„Það er hlutverk RÚV að koma sjónarmiðum af því tagi á framfæri […] Utan dagskrár, þá hefðum við á Þjóðviljanum í gamla daga örugglega líka hent á lofti og amk. gantast „sub rosa“ með gagnrýni forsetans á eftirmann sinn gegnum litla sögu af samtali við Ingiríði ekkjudrottningu sem ekki verður þó túlkuð hér. En þar var hinn gamli Bessastaðabóndi á miklu dýpi og þurfti æfða menn í kremlólógíu til að skilja hvað hann var að meina,“ segir Össur og spyr að lokum:

„Á vorum dögum er talsvert talað um „fake news“. En hvað heitir það að þegja fréttir í hel?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“