fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019
Eyjan

Hætta steðjar að Íslandi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 22. september 2018 15:08

Styrmir Gunnarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svo kann að fara að vestræn ríki missi forystuhlutverk sitt í heiminum og það færist til Asíu, aðallega til Indlands og Kína. Þetta segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, í aðsendri grein til blaðsins. Styrmir segir að íslenskir stjórnmálamenn hafi ekki skilning á þessari uggvænlegu þróun. Styrmir segir að áhugi annarra þjóða á auðlindum okkar sé augljós og Kínverjar séu þar ekki undanskildir.

„Sjálfstæði Íslands getur reyndar líka verið í hættu vegna þess að nýjar kynslóðir stjórnmálamanna virðast ekki hafa næga þekkingu á okkar eigin sögu til þess að skilja hvað er að gerast í kringum okkur hvort sem um er að ræða orkupakka ESB eða kínverska stórveldið sem læðist með veggjum í viðleitni við að endurheimta fyrri stöðu Kína á heimsbyggðinni,“ skrifar Styrmir en grein hans í heild er svohljóðandi:

Það eru miklar breytingar í aðsigi í samskiptum ríkja heims. Sú mesta kann að vera að vestræn ríki séu að missa úr sínum höndum það forystuhlutverk sem þau hafa gegnt á heimsvísu síðustu 200 ár eða svo og þungamiðja valda og áhrifa sé að færast áný til Asíu og þá fyrst og fremst til Kína og Indlands.

Kína hefur á síðustu áratugum á hógværan og kurteislegan máta verið að auka áhrif sín, ekki sízt í Afríku. Þótt Kínverjar láti minna fara fyrir sér en Vesturlandaþjóðir þegar þær ruddust um á heimsvísu og arðrændu aðrar þjóðir með vinnubrögðum og framkomu sem ekki þola dagsins ljós fer ekki á milli mála að auknum umsvifum Kínverja í atvinnu- og viðskiptalífi í öðrum heimshlutum fylgja aukin pólitísk áhrif.

Að sögn brezka tímaritsins, Economist, verður Kína í náinni framtíð orðið mesta efnahagsveldi heims. Sumir telja að viðskiptastríð Trumps Bandaríkjaforseta á hendur Kína sé örvæntingarfull viðbrögð gamals stórveldis sem finni að það er að missa tökin.

Hvað sem segja má um þær kenningar er hins vegar ljóst að vaxandi áhrif Kína þýða aukin áhrif einræðisstjórnar Kommúnistaflokksins í Kína. Bandaríkin hafa þegar orðið fyrir verulegu pólitísku tjóni vegna veru Trumps í Hvíta húsinu og augljóst að það tjón mun aukast í hans tíð. Evrópusambandið er í uppnámi og ekki lengur hægt að útiloka að það leysist upp á næstu áratugum og evran með. Rússland er hnignandi veldi, eins konar risi á brauðfótum. Nýlega lýstu Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, og eiginkona hans, Bryndís Schram, ferðalagi með Síberíuhraðlestinni frá Peking til Moskvu fyrir skólasystkinum sínum úr Menntaskólanum í Reykjavík á þá leið að þegar lestin brunaði inn í Rússland hefði 19. öldin blasað við út um lestargluggana. Hver er staða örríkis á eyju í Norður-Atlantshafi á slíkum breytingatímum?

Fyrir skömmu flutti Anna Agnarsdóttir prófessor fyrirlestur fyrir troðfullu húsi í Norræna húsinu þar sem hún sagði frá áhuga Evrópuþjóða á Íslandi á 18. öld. Til eru heimildir sem sýna að þá voru uppi í París hugmyndir um að skipta á Louisiana-ríki í Bandaríkjunum, sem þá náði yfir landsvæði þar sem nú er að finna á annan tug ríkja, fyrir Ísland, að Danir fengju landsvæðið í Bandaríkjunum en Frakkar Ísland en héðan gætu þeir að mati vísra manna í París herjað á Breta. Þessi áhugi Evrópuþjóða á Íslandi er enn til staðar og lýsir sér í margvíslegum tilraunum Evrópusambandsins til þess að ná auknum áhrifum hér, nú síðast með því að opna sér tækifæri til að ná yfirráðum yfir orku fallvatnanna með hinum svonefnda orkupakka 3.

Skilningsleysi nýrrar kynslóðar íslenzkra stjórnmálamanna á því sem þar er á ferð – ekki sízt í Sjálfstæðisflokknum – er sorglegt. En það er ekki bara spurning um ítrekaðar tilraunir Evrópuþjóða til þess að ná tangarhaldi á auðlindum Íslands. Hið landfræðilega mikilvægi legu Íslands er aðstóraukast á ný og þótt athyglin beinist þessa stundina kannski mest að auknum hernaðarlegum umsvifum Rússa í Norðurhöfum er það þó staða okkar sem eins konar áfangastaður á nýjum siglingaleiðum á milli Atlantshafs og Kyrrahafs sem mestu skiptir hvort sem horft er til vestur eða austurs.

Hið sama á við um Grænland og Færeyjar.

Áhugi hins hógværa stórveldis sem er að rísa í Asíu á aðstöðu á Grænlandi og Íslandi hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni síðustu áratugi. Um skeið beindist sá áhugi meira að Íslandi en Grænlandi en neikvæð viðbrögð hér heima fyrir og ný tækifæri á Grænlandi hafa orðið til þess að síðustu árin hefur athygli Kínverja beinzt meira að Grænlandi. Það hefur svo aftur vakið umræður í Danmörku sem hafa ekki alltaf verið geðfelldar.

 

Í heimi nútímans fylgja fjárfestingum og eignakaupum í einstökum ríkjum pólitísk áhrif. Það var mörgum létt þegar norskt fyrirtæki gerði samninga um kaup á álverinu í Straumsvík sem því miður hafa gengið til baka. Nú er aftur hætta á því að það álver geti lent í höndunum á óæskilegum aðilum. Það er stutt á milli sumra stórfyrirtækja í áliðnaði á heimsvísu og alþjóðlegra undirheima. Þess vegna ættu stjórnvöld að fylgjast vandlega með því sem gerist í framhaldi af því að norska fyrirtækið hefur dregið sig til baka í Straumsvík.

 

Og þótt brezkur auðmaður sem eigandi margra jarða á Austurlandi geti verið sakleysið sjálft getur annað tekið við ef hann tæki ákvörðun um að selja þær eignir aðilum sem hefðu annað í huga en huga að laxveiðiám.

 

Í fyrradag mátti lesa frétt hér í Morgunblaðinu þess efnis að í Þorlákshöfn leituðu menn nú erlendra fjárfesta til frekari uppbyggingar hafnarinnar þar og þar kæmu kínverskir fjárfestar við sögu. Hvenær eru kínverskir fjárfestar bara venjulegir fjárfestar og hvenær eru þeir í raun á vegum kínverskra stjórnvalda? Búa ráðamenn í Þorlákshöfn, einir manna í heiminum, yfir upplýsingum um það? Sjálfstæði Íslands er hætta búin úr nýjum áttum í breyttum heimi.

 

Sjálfstæði Íslands getur reyndar líka verið í hættu vegna þess að nýjar kynslóðir stjórnmálamanna virðast ekki hafa næga þekkingu á okkar eigin sögu til þess að skilja hvað er að gerast í kringum okkur hvort sem um er að ræða orkupakka ESB eða kínverska stórveldið sem læðist með veggjum í viðleitni við að endurheimta fyrri stöðu Kína á heimsbyggðinni. Þá er ekki um annað að ræða en að hin aldna sveit rísi upp!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“