fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2019
Eyjan

Ragnar Þór um spurningakönnun Samtaka atvinnulífsins: „Ef þú gerir könnun með leiðandi spurningum færðu leiðandi niðurstöður“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 19. september 2018 13:00

Ragnar Þór, formaður VR

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gagnrýnir spurningakönnun Gallup sem gerð var fyrir Samtök atvinnulífsins um afstöðu almennings til kjarasamninga. Hann segir spurningarnar leiðandi, sem gefi niðurstöður í samræmi við það.

Spurt var:

Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) kjarasamningum með meiri áherslu á stöðugt verðlag og minni áherslu á launahækkanir ?

Almennt séð, veldur mikil verðbólga þér miklum eða litlum áhyggjum?

Hvað viltu að verði lögð mest áhersla á í næstu kjarasamningum?  

Svarmöguleikar: Að auka sveigjanleika vinnutíma – Að hækka laun verulega – Að stuðla að lágri verðbólgu með hófstilltum launahækkunum – Að stytta vinnutíma – Annað

 

Leiðandi spurningar gefi leiðandi niðurstöður

Ragnar segir könnunina ómarktæka:

„Viltu banna byssueign ef það kemur í veg fyrir morð? Ef þú gerir könnun með leiðandi spurningum færðu leiðandi niðurstöður. Svarhlutfall getur vart talist marktækt þegar einungis 773 svara könnuninni en þess má geta að innan ASÍ eru félagsmenn yfir 120.000 talsins,“

segir Ragnar Þór.

Könnun Gallup fyrir SA var gerð 24. ágúst til 3. september 2018. Markmið hennar var að kanna viðhorf almennings til áherslna í komandi kjarasamningum og breytingar þar á frá fyrri mælingum. Um var að ræða netkönnun, úrtak var 1.445 manns af landinu öllu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallup. Fjöldi svarenda var 773 og svarhlutfall 53,5% samkvæmt frétt SA.

Vilja fremur hófstilltar launahækkanir

Niðurstaða könnunarinnar gengur þvert gegn kröfum verkalýðshreyfingarinnar um launahækkanir umfram fjögur prósent:

„Mun fleiri landsmenn eru hlynntir en andvígir kjarasamningum þar sem lögð er meiri áhersla á stöðugt verðlag en launahækkanir. Tæplega tveir af hverjum þremur hafa áhyggjur af mikilli verðbólgu. Helmingur landsmanna er hlynntur kjarasamningum þar sem meiri áhersla er lögð á stöðugt verðlag og minni áhersla á launahækkanir en fjórðungur er andvígur slíkum samningum. Fjórðungur er hvorki hlynntur né andvígur. Niðurstöður könnunarinnar sýna afdráttarlaust að Íslendingar eru ekki tilbúnir til að fórna ávinningi stöðugs verðlags með launahækkunum sem setja verðbólgu á skrið. Stytting vinnutíma er mikilvægasta málið í komandi kjaraviðræðum að mati Íslendinga en því næst koma hófstilltar launahækkanir.“

 

Sjá má frétt SA um könnunina hér að neðan:

 

Afstaða almennings til kjarasamninga haustið 2018
Undanfarinn áratug hafa Samtök atvinnulífsins reglulega falið Gallup að kanna viðhorf almennings til komandi kjarasamninga. Í meginatriðum eru sömu spurningar lagðar fyrir þannig að sjá má  þróun viðhorfa undanfarin ár. Fjöldi svarenda er yfirleitt um 800 manns og þar af eru um 60% launafólk en aðrir eru lífeyrisþegar, sjálfstætt starfandi, námsmenn o.fl. Munur á viðhorfum launafólks og heildarinnar er hverfandi. Nýjasta könnunin var gerð í ágúst og september þessa árs.

Val milli tveggja leiða
Í könnuninni er fólk beðið um að velja á milli tveggja leiða í kjaramálum með því að svara hvort það sé hlynnt eða andvígt kjarasamningum þar sem lögð verði meiri áhersla á stöðugt verðlag og minni áhersla á launahækkanir.

Niðurstaðan nú er mjög áþekk og í aðdraganda síðustu kjarasamninga.

Flestir hafa áhyggjur af verðbólgu
Samkvæmt könnuninni hafa tveir þriðju hlutar landsmanna áhyggjur af mikilli verðbólgu. Það er svipað hlutfall og í fyrri könnunum, sbr. meðfylgjandi mynd. Einungis 10% landsmanna hafa litlar áhyggjur af verðbólgu. Þetta viðhorf almennings, sem tengist kjarasamningum, sýnir að flestum er ljóst samhengið milli launahækkana og verðbólgu.

Áhersluatriði kjarasamninga
Í könnun Gallup var fólk spurt um mat á helstu áherslum í komandi kjarasamningum. Boðið var upp á fjóra kosti en einnig var frjálst að nefna annað. Kostirnir fjórir voru eftirfarandi:

  • Stytta vinnutíma
  • Stuðla að lágri verðbólgu með hófstilltum launahækkunum
  • Hækka laun verulega
  • Auka sveigjanleika vinnutíma

Einnig var fólk beðið um að forgangsraða kostunum, þ.e. í fyrsta, annað, þriðja og fjórða sæti. Flestir settu hófstilltar launahækkanir í fyrsta sæti, síðan styttingu vinnutíma, þá verulega launahækkun og og loks sveigjanlegan vinnutíma.

Þegar kostirnir fjórir eru vegnir saman eftir mikilvægi, og gefin einkunn á skalanum 0-100, fær stytting vinnutíma hæstu einkunn, 49, síðan hófstilltar launahækkanir, 45, veruleg launahækkun 33 og sveigjanlegur vinnutími 32.

Viðhorf almennings til kjaramála virðist því á skjön við málflutning um nauðsyn mikilla launahækkana og harðra átaka á vinnumarkaði.

Könnun Gallup fyrir SA var gerð 24. ágúst til 3. september 2018. Markmið hennar var að kanna viðhorf almennings til áherslna í komandi kjarasamningum og breytingar þar á frá fyrri mælingum. Um var að ræða netkönnun, úrtak var 1.445 manns af landinu öllu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallup. Fjöldi svarenda var 773 og svarhlutfall 53,5%.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

OR var með ólöglega álagningu

OR var með ólöglega álagningu
Eyjan
Í gær

Mynd dagsins: Cyti hall is closed – Sérð þú allar villurnar ? Þær eru fleiri en þú heldur…

Mynd dagsins: Cyti hall is closed – Sérð þú allar villurnar ? Þær eru fleiri en þú heldur…
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir almenning taka sökina fyrir mengun stóriðju: „Hér starfa erlend fyrirtæki sem brenna yfir 1000 tonnum af kolum á dag“

Segir almenning taka sökina fyrir mengun stóriðju: „Hér starfa erlend fyrirtæki sem brenna yfir 1000 tonnum af kolum á dag“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Össur um orkupakkann: Sigmundur, Miðflokksmenn og Frosti ruddu brautina

Össur um orkupakkann: Sigmundur, Miðflokksmenn og Frosti ruddu brautina