fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Saltstokk, Woodstock og David Crosby

Egill Helgason
Miðvikudaginn 22. ágúst 2018 19:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir mörgum árum sá ég myndbrot frá tónlistarhátíð sem haldin var um hvítasunnu í Saltvík á Kjalarnesi. Það var árið 1971.  Þetta var víst heldur blaut helgi en þótti þó söguleg fyrir ýmsar sakir. Þarna var viðtal við mann, mig minnir að það hafi verið Karl Sighvatsson, sem talaði um að ein plata hefði verið spiluð alla helgina í hljóðkerfinu. Þetta var If I Only Could Remember My Name með David Crosby. Karl sést á myndinni hér fyrir neðan með hljómsveitinni Trúbrot. Hún var seinna undir miklum áhrifum frá Crosby og félögum – á plötu sem hét meira að segja Undir áhrifum.

 

 

Crosby var þá meðlimur í einni frægustu hljómsveit heims, Crosby, Stills, Nash & Young. Það var eins konar samlag rokkstjarna sem var stundum saman og stundum sundur. En það vill svo til að tæpum tveimur árum áður hafði CSN&Y verið eitt aðalnúmerið á hinni goðsagnakenndu tónlistarhátíð Woodstock. Hið íslenska Saltstokk var auðvitað nefnt eftir henni. Kvikmyndin Woodstock, heilir þrír tímar af tónlist og ungu fólki að skemmta sér, hafði einmitt verið sýnd í Austurbæjarbíói vorið 1971. Hippalega klædd ungmenni þyrptust í bíó, en bíóið notaði tækifærið til að hækka verðið svo verðlagseftirlitið varð að skerast í leikinn.

 

 

Crosby, Stills, Nash & Young höfðu líka gefið út á plötu lag eftir Joni Mitchell sem nefndist einfaldlega Woodstock. Hún komst ekki á hátíðina, ólíkt strákunum, en samdi lagið sem er tengt við hana. Í viðtali sem ég tók við David Crosby í dag sagðist hann álíta að Joni væri mesti snillingur í rokk- og poppsögunni, meiri en Dylan. En á sínum tíma var varla sá plötuskápur hjá ungu fólki að þessa hljómplötu væri ekki þar að finna.

 

 

David Crosby er sá sem situr í ruggustólnum, með riffil og í kögurjakka. Þegar ég var strákur vissi ég ekki neinn sem var meiri töffari en Crosby, mig dreymdi um að eiga svona jakka. Svo eignaðist ég hann loks, en þá var það orðið of seint, tíðarandinn hafði farið annað, jakkinn var orðinn hallærislegur og ég lét fjarlægja kögrið. Kvikmyndin Eazy Rider var vinsæl, sumir sáu hana oft. Það duldist ekki að Dennis Hopper byggði persónuna sem hann lék á David Crosby. Crosby var frægur fyrir að vera flippaður, ólíkindatól, sá mælskasti úr hippamenningunni í Kaliforníu, hafði verið rekinn úr Byrds sem voru eitt helsta svar Bandaríkjanna við Bítlunum.

 

 

Ég nefndi áðan að ég hefði tekið viðtal við Crosby í dag. Það er dálítill atburður fyrir mig, ég hef hlustað á og handleikið plötur sem hann kemur fram á síðan ég var barn. Í þá tíð stúderaði maður líka albúmin og kunni utan að útlit þeirra, nöfnin sem komu fram á þeim og textana. Ég held ég hafi verið tíu ára þegar ég eignaðist plötuna Four Way Street með CSN&Y. Þá voru Bítlarnir nýhættir og þeir voru hugsanlega frægasta starfandi hljómsveit heims – ásamt Led Zeppelin. Ég dró fram plötu með Crosby og Nash og viti menn, ég kunni ennþá textana, þó ég hafi varla heyrt músíkina í fjörutíu ár. Svona virkar heilabúið einkennilega.

 

 

Crosby og Graham Nash eru víst ekki vinir lengur – og almennt er engin sérstök vinátta milli meðlimanna í hljómsveitinni, sagði Crosby við mig í viðtalinu. Hann sagði að samt fyndist sér að þeir ættu að koma saman aftur, láta heyra í sér. Það yrði þá út af pólitík, nauðsynlegt væri að veita núverandi stjórnvöldum í Bandaríkjunum harða andspyrnu. Crosby talar af mikilli fyrirlitningu um Donald Trump og segir að Bandaríkjamenn þurfi hvarvetna að skammast sín fyrir hann.

David Crosby hefur á síðustu árum gefið út þrjár sólóplötur sem hafa fengið afbragðsgóða dóma, sú fjórða er á leiðinni. Sumir segja að þetta sé besta tónlist sem hann hefur samið – Crosby batnar með aldrinum er ein fyrirsögnin. Menn hefðu kannski ekki átt von á þessu. Crosby átti í miklum erfiðleikum eftir að hippatímanum lauk. Lágpunkturinn var þegar hann var handtekinn og þurfti að sitja inni í Texas. Í viðtalinu segir hann að þetta hafi bjargað lífi sínu – þá hafi hann vaknað til vitundar hvert stefndi – þegar fangaverðir ávörpuðu hann glottandi: „Herra rokkstjarna.“ Það er merkilegt að heyra mann tala um vinina sem hann missti í gin eiturlyfjana og nefna Jimi, Janis og Cass Eliot – hvað hefðu Jimi Hendrix og Janis Joplin verið að gera núna ef þau hefðu lifað? spyr Crosby.

Crosby þakkar forsjóninni fyrir að fá að halda áfram að spila og syngja – og hafa röddina frægu ennþá í lagi. Plöturnar sem hann hefur gert undanfarin ár nefnast Croz (2014), Lighthouse (2016) og Sky Trails (2017). Hér er lag af Lighthouse. Brot úr viðtalinu við Crosby var sýnt í fréttum RÚV í kvöld – viðtalið í heild sinni verður sýnt á næstunni, um pólitíkina, dópið, lífið, félagana og tónlistina. Crosby heldur tónleika í Háskólabíói á fimmtudagskvöld.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki