fbpx
Mánudagur 17.júní 2019
Eyjan

Geldur varhug við þrýstingi Kínverja þegar Ísland tekur formannssæti í Norðurskautsráði

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 10. ágúst 2018 10:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, skrifar um kínverskan þrýsting nær og fjær í Morgunblaðið í dag. Hann fjallar meðal annars um áhuga Kínverja á norðurslóðum, ásókn þeirra í Ástralíu sem og reynslu Grænlendinga og Íslendinga af hinni kommúnísku stórþjóð í austri, sem vill verða stórveldi við norðurpólinn einnig.

Hann segir að Ísland þurfi að hafa varann á sér gagnvart þrýstingi í Norðurskautsráðinu á næstu árum, meðan Ísland gegnir þar formennsku:

„Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu á næsta ári og gegnir henni í tvö ár. Þetta er mesta ábyrgðarstaða sem íslensk stjórnvöld takast á hendur á alþjóðavettvangi og mikilvægt að hún fari vel úr hendi og trúverðugleiki fullveldisins aukist en minnki ekki við þessa áraun og þann þrýsting sem henni fylgir.“

Þess má geta að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, átti fund með háttsettum fulltrúum kínverska kommúnistaflokksins (CPC) á dögunum, þar sem Kínverjarnir kynntu hugmyndir flokksins að auknu samstarfi við önnur ríki, líkt og segir á vef stjórnarráðsins.

Eyjan mun fjalla ítarlegar um þá heimsókn um helgina.

Björn minnist á að þó svo að Kínverjar telji sig nánast til norðurskautslands, sé nyrsti hluti Kína álíka nálægt norðurskautinu og höfuðborg Þýskalands:

„Xi Jinping, forseti Kína, sýnir norðurslóðum mikinn áhuga. Hann sagði í ræðu árið 2014 að Kínverjar vildu verða „stórveldi“ við norðurpólinn. Kína varð árið 2013 áheyrnafulltrúi að Norðurskautsráðinu. Í janúar á þessu ári birtu kínversk stjórnvöld fyrstu norðurslóðastefnu sína. Þar er Kína sagt „nánast norðurskautsland“ þótt nyrsta byggð í Kína sé álíka langt frá norðurheimskautinu og Berlín, sagði í grein The Economist um norðurslóðaáhuga Kínverja fyrr á árinu. […] Vegna sóknar Kínverja til yfirráða á Suður-Kínahafi hefur spenna vaxið þar milli flotavelda. Við að sigla norðurleiðina sjá Kínverjar ekki aðeins þann kost að spara tíma heldur losna skipin við að fara um hernaðarlega mikilvægt Malakka-sundið sem auðvelt er fyrir keppinauta Kínverja að loka. Í kínverskum fjölmiðlum er talað um „ísilagða silkileið“, það er ný samgönguæð í norðri frá Kína vestur á bóginn á sjó og landi. Hugmyndir eru meðal annars uppi um að leggja norðurslóða-járnbraut frá Kína og um Finnland.“

Reynsla Íslendinga

Björn reifar uppbyggingu Kínverja á Íslandi og nefnir að þeir hafi náð mikilvægri fótfestu hér á landi:

„Á Arctic Circle (Hringborði norðursins) hér í Reykjavík í október 2017 kynntu Kínverjar að þeir hefðu áhuga á að reisa stöð til vísindarannsókna á Grænlandi án þess að nefna ákveðinn stað. Geri þeir það verður það þriðja rannsóknastöð á vegum Kínversku heimskautastofnunarinnar á norðurslóðum. Kínverjar opnuðu sumarið 2004 fyrstu rannsóknastöð sína á norðurslóðum í Nýja-Álasundi á Svalbarða. Er stöðin þar meðal margra erlendra vísindastöðva og reistu Kínverjar þar tvílyft 500 fm hús sem getur hýst um 20 manns. Kínverska heimskautastofnunin fjármagnar nú byggingu 800 fermetra húss á Kárhóli í Reykjadal í Þingeyjarsýslu. Skóflustunga var tekin 2014 og átti að hefja rannsóknir árið 2016 en var frestað til 2017. Nú hefur verið ákveðið að verja 380 m. kr. til framkvæmdanna og opna stöðina í haust. Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir 200 m. kr. kostnaði en hann verði að minnsta kosti 500 m. kr. sagði í nýlegri frétt ríkisútvarpsins. Sjálfseignastofnun heimamanna, Aurora Observatory, stendur fyrir framkvæmdunum. Bygging og rekstur Kárhólsstöðvarinnar vekur alþjóðlega athygli og er talin til marks um sókn Kínverja á norðurslóðir. Þeir hafi náð mikilvægri fótfestu hér. Kínverskum ferðamönnum fjölgar mikið ár frá ári. Sé litið á tölur komu 5.780 Kínverjar hingað sem ferðamenn árið 2008 en voru 86.003 árið 2017. Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu á næsta ári og gegnir henni í tvö ár. Þetta er mesta ábyrgðarstaða sem íslensk stjórnvöld takast á hendur á alþjóðavettvangi og mikilvægt að hún fari vel úr hendi og trúverðugleiki fullveldisins aukist en minnki ekki við þessa áraun og þann þrýsting sem henni fylgir.“

Kínverjar ógni lýðræði og fullveldi Ástralíu

Þá nefnir Björn reynslu Ástrala og Grænlendinga af ásókn Kínverja einnig, sem líkja má við nýlendutilburði, ef marka má löggjöfina sem Ástralir settu gegn erlendri íhlutun í þarlend stjórnmál:

„Á þessari útrás kínverskra stjórnvalda er önnur hlið: Viðleitni til að fara inn á ný svið í samskiptum við önnur ríki, búa um sig á „gráum svæðum“ til að hafa sem mest ítök og áhrif. Ástralir hafa kynnst þessu betur en flestar vestrænar þjóðir. Ástralska þingið samþykkti nú í júní nýja löggjöf til að útiloka erlenda íhlutun í áströlsk stjórnmál. Þegar Malcom Turnbull forsætisráðherra kynnti frumvarpið á þingi Ástralíu í desember 2017 sagði hann að „aldrei fyrr“ hefði áströlsku lýðræði og fullveldi verið ógnað eins og nú af erlendum herferðum í þágu ákveðinna skoðana. Allir vissu að með orðum sínum vísaði hann til tilrauna Kínverja til að koma ár sinni fyrir borð í Ástralíu. Ástralskur prófessor, Clive Hamilton, segir frá nýju lögunum og tilefni þeirra í grein á vefsíðu bandaríska tímaritsins Foreign Affairs undir lok júlí. Hann segir að áströlsk yfirvöld, leyniþjónustan og aðrir hafi staðið ráðþrota gagnvart vaxandi erlendri ásælni og þess vegna séu nú sett lög til að stemma stigu við athöfnum erlendra ríkisstjórna sem falli ekki undir njósnir en er ætlað að skaða þjóðaröryggi Ástralíu eða hafa áhrif á ákvarðanaferlið á vettvangi stjórnmála eða stjórnsýslu í Ástralíu. Refsileysi á þessu sviði hafi skapað svigrúm til athafna fyrir óprúttna erlenda aðila.“

Reynsla Grænlendinga

„Óþarft er að fara alla leið til Ástralíu til að kynnast tilraunum Kínverja til að auka ítök sín. Líta má til Grænlands. Í mars 2018 settu stjórnvöld á Grænlandi kínverska ríkisfyrirtækið China Communication Contstruction Company á lista yfir fimm fyrirtæki með heimild til að gera tilboð í þrjú flugvallarverkefni á Grænlandi. Nokkrum vikum síðar létu þrír lykilráðherrar dönsku ríkisstjórnarinnar til sín taka vegna málsins: forsætisráðherrann, utanríkisráðherrann og varnarmálaráðherrann. Claus Hjort Frederiksen, varnarmálaráðherra Dana, hitti Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, í Washington í maí. Að fundinum loknum sagði ráðherrann: „Það er augljóst að Bandaríkjamönnum stendur ekki á sama um fjárfestingar Kínverja á Grænlandi.“ Mattis hefði vikið að hervæðingu Kínverja á eyjum á SuðurKínahafi, hún ætti að vera áminning þegar hugað væri að Grænlandi. Í lögum frá 2009 sem tryggja Grænlendingum stjórn eigin mála segir að séu öryggishagsmunir í húfi falli viðkomandi mál undantekningarlaust undir forræði dönsku ríkisstjórnarinnar. Danska stjórnin telur flugvallaframkvæmdirnar snerta þjóðaröryggi. Í fyrstu mölduðu grænlensk stjórnvöld í móinn en nú ætla stjórnir landanna að kanna hvernig tryggja megi að til flugvallanna renni danskt fjármagn frá ríki, einkaaðilum eða báðum saman. Þetta minnir á það sem gerðist fyrir tveimur árum þegar kínverskt fyrirtæki lýsti áhuga á að kaupa herstöðina í Grönnedal á vesturströnd Grænlands sem Danir höfðu lokað og flutt starfsemina til Nuuk. Þá allt í einu sagði danska varnarmálaráðuneytið að stöðin yrði ekki seld heldur notuð undir birgðir og til æfinga. Upphaflega reistu Bandaríkjamenn þessa stöð í seinni heimsstyrjöldinni til að verja þarkrýólít-námu fyrir Þjóðverjum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Umsóknum í HR fjölgar um 10%

Umsóknum í HR fjölgar um 10%
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásmundur Einar duglegur við að skaffa framsóknarmönnum vinnu með pólitískum skipunum: „Ekkert óeðlilegt við það“

Ásmundur Einar duglegur við að skaffa framsóknarmönnum vinnu með pólitískum skipunum: „Ekkert óeðlilegt við það“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Maður vinnur ekki ef maður spilar við eiganda spilavítisins

Maður vinnur ekki ef maður spilar við eiganda spilavítisins
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Benedikt gagnrýnir hæfisnefnd um stöðu seðlabankastjóra – „Þetta er í hæsta máta óeðlilegt“

Benedikt gagnrýnir hæfisnefnd um stöðu seðlabankastjóra – „Þetta er í hæsta máta óeðlilegt“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole segir það alvarleg mistök að hafa látið WOW air falla – Spyr hvort oddvitar ríkisstjórnarinnar séu eftirsóttir í stjórnir fyrirtækja

Ole segir það alvarleg mistök að hafa látið WOW air falla – Spyr hvort oddvitar ríkisstjórnarinnar séu eftirsóttir í stjórnir fyrirtækja
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sigurður Ingi samþykkir breytingar á úthlutunum til sveitarfélaga

Sigurður Ingi samþykkir breytingar á úthlutunum til sveitarfélaga