fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

„Skiptir ekki máli hvort jarðeigendurnir eru Íslendingar eða útlendingar, eitt verður yfir alla að ganga“

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 28. júlí 2018 12:24

Sigríður Á. Andersen,

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, tjáir sig um jarðakaup útlendinga í Morgunblaðinu í dag. Hún segir fulla ástæðu til að bregðast við áhyggjum fólks, en óljóst sé þó hvað menn óttist:

„Ég heyri að menn lýsa áhyggjum af þessum fjárfestingum útlendinga án þess þó að skýrt hafi komið fram hvað það er nákvæmlega sem menn óttast. Jafnvel hefur komið fram samhliða þessum áhyggjum að menn hafi bara jákvæða reynslu af fjárfestingunum. Ég skynja það því þannig að þessar áhyggjur séu að nokkru leyti tilfinningalegs eðlis og ótti við að hagsmunir almennings verði mögulega fyrir borð bornir til framtíðar litið. Það er full ástæða til að bregðast við þessum áhyggjum. Ég rifja hins vegar upp að áhyggjur sem þessar hafa líka komið upp í umræðum um kaup rammíslenskra aðila á jörðum í gegnum árin.“

Óljóst eignarhald

Um 7.700 jarðir eru skráðar hér á landi, þar af eru um 6.600 lögbýli. Alls 384 jarðir eru að hluta eða í heild sinni í eigu aðila með lögheimili erlendis og 62 jarðir eru í fullri eigu aðila með erlent lögheimili.

Sigríður segir lögin heimila slíkt, þó hægt væri að lögfesta gagnsætt eignarhald, líkt og gert sé varðandi eignarhald á flugfélögum. Hún segir þó að erfitt væri að framkvæma eftirlit með slíku eignarhaldi með góðu móti:

„Ég veit að margir, þar á meðal erlendir aðilar, hafa keypt jarðir í gegnum félög eða með því að kaupa hluti í félögum sem eiga jarðir. Lögin heimila það. Það væri mögulegt að kveða á um það í lögum að það yrði að liggja fyrir hvaða einstaklingar eiga félögin, telji menn að það skipti máli í sjálfu sér. Fyrir því eru fordæmi eins og varðandi eignarhald á flugfélögum, en það er mjög sérstakt fordæmi. Hafi menn áhuga á að takmarka eignarhald á jörðum með einhverjum hætti verður að gera það með lögum og fylgja því svo eftir. Það má draga í efa að það sé framkvæmanlegt að fylgjast með því með góðu móti.“

Hún segir einnig að eitt þurfi yfir alla að ganga:

„Það vill líka oft gleymast í þessu samhengi að það felst í fullveldisrétti Íslands að löggjafinn getur alltaf sett eignarhaldi skorður til að ná einhverjum samfélagslegum markmiðum. Menn þurfa svo að komast að niðurstöðu um hvert hið samfélagslega markmið er. Við Íslendingar förum alltaf með skipulagsvaldið. Það má ekki gleyma því. Í þessu sambandi skiptir ekki máli hvort jarðeigendurnir eru Íslendingar eða útlendingar, eitt verður yfir alla að ganga. Hins vegar er það fagnaðarefni í sjálfu sér að útlendingar hafi áhuga á að fjárfesta hér á landi, þar með talið í jarðnæði ef tilgangurinn fellur að hagsmunum okkar Íslendinga.“

 

Frumvarp um fastmótaðri reglur

Sigríður hyggst leggja fram frumvarp á kjörtímabilinu sem kveður á um fastmótaðri reglur en nú gilda um jarðakaup erlendra aðila, byggt á niðurstöðum nefndar um heildarendurskoðun laga nr. 19/1966 um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.

„Hvað útlendingana varðar þá veitir dómsmálaráðuneytið undanþágur frá bannákvæðum laga eftir viðmiðunarreglum sem í dag taka mið af niðurstöðu þessarar nefndar. Ég mun leggja til við þingið að þessar reglur verði færðar inn í lögin og kerfi umsókna og undanþága þannig lagt niður að mestu. Ég tel að best fari á því að kveðið sé á í lögum um eignarheimildir útlendinga. Þannig er gagnsæi best tryggt og jafnræði.“

Sigríður segir að langsótt sé að setja inn skilyrði um búsetuskyldu, líkt og á Norðurlöndunum:

„Mér þykir afar langsótt og óraunhæft að takmarka aðilaskipti að jörðum á Íslandi með búsetuskyldu. Það væri ansi harkalegt gagnvart núverandi jarðeigendum sem vilja bregða búi.“

 

Útilokað að fylgjast með viðskiptum um hluti í félögum

Eftirlitsskyldan á að skilyrðum laganna fyrir eignarhaldi bújarða sé fylgt, hvílir á herðum sýslumannsembættanna og ráðherra. Hún er þó erfið í framkvæmd samkvæmt ráðherra:

„Lagaskilyrði eru könnuð við þinglýsingu og eftir atvikum við umsókn um undanþágu. Það er útilokað að fylgjast í framhaldinu með viðskiptum með hluti í félögum. Ráðherra hefur hins vegar heimild til þess að þinglýsa kvöð á eign ef upplýst er um að eignarhald hennar sé ekki samræmi við lög nr. 19/1966.“

Aðspurð hvort íslensk stjórnvöld hafi burði til þess að kanna hvort nýir eigendur að hlutafélagi sem á jörð, mögulega erlendir, uppfylli skilyrðin, sagði Sigríður engin skilyrði um eigendur hlutafélaga í því sambandi:

„Eina skilyrðið er að eigandi jarðarinnar sé íslenskur aðili eða EES-aðili. Ef hlutafélagið er íslenskt eða til heimilis á EES-svæðinu þá uppfyllir það skilyrði laganna. Því flóknari sem skilyrðin eru, svo sem kvöð um búsetu, ræktun eða sérstök tengsl við landið og svo framvegis, því erfiðara er að kanna hvort þau eru uppfyllt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega