fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Gömul kosningaloforð Bjarna Ben til eldri borgara dregin fram í dagsljósið – Hafa þau verið efnd ?

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 23. júlí 2018 17:30

Bjarni Benediktsson Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Loforðabréfi Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra,  í aðdraganda Alþingiskosninga 2013 hefur nú skotið upp kollinum á samfélagsmiðlum. Í bréfinu, sem sent var á eldri borgara fyrir kosningarnar 2013,  eru talin upp mál sem Sjálfstæðisflokkurinn segist ætla að setja í öndvegi, fái hann kosninga til.

Fjölmargir hafa birt og deilt bréfinu, þar á meðal Björn Birgisson í Grindavík sem veltir fyrir sér hvað orðið hafi um efndirnar á loforðunum, en þær eru sagðar litlar, ef einhverjar.

 

Efndirnar litlar sem engar

Sigurður Jónsson, varaformaður Landssambands eldri borgara, segir efndirnar hafa verið litlar hjá Bjarna.

  • Meðal loforða Bjarna var að afturkalla kjaraskerðingu ellilífeyrisþega sem átti sér stað árið 2009.

Sigurður segir það ekki hafa gerst nema að litlu leiti:

„Það sem við erum óhress með er að enn er verið að skerða kjör hjóna, það er ekki litið á þau sem einstaklinga. Hjón fá til dæmis 60.000 krónum minna á mánuði heldur en að einstaklingur sem býr einn. Svo þegar er borgað út hjá Tryggingastofnun er ekki stuðst við launavísitölu heldur verðlagsþróun og þannig er alltaf notuð óhagstæðari mælieining til þess að reikna út okkar hækkun.“

  • Þá lofaði Bjarni að afnema eignarskattinn, sem sagður var árás á eldra fólk sem búi í skuldlausu eða -litlu húsnæði. Hann hefur ekki verið afnuminn.
  • Þá er einnig  lofað í bréfinu að lækka eigi fjármagnstekjuskatt, sem komi harðast niður á eldri borgurum landsins:

„Hann hefur ekki verið lækkaður, er enn í 20 prósentum“

segir Sigurður.

  • Að lokum er lofað því að afnema tekjutengingar ellilífeyris, þar sé sannarlega um réttlætismál að ræða. Um það segir Sigurður:

„Við viljum meina að það eigi að afnema allar tekjutengingar og við borgum bara skatt af okkar tekjum eins og annað fólk. Það er fáránlegt að fólk borgi milli 70-80% skatt af tekjum sem er umfram 100.000 krónur, því skerðingarnar eru svo miklar. Efndirnar eru bara allt of litlar. Það er líka svo erfitt fyrir okkar hóp að horfa upp á allar  þessar leiðréttingar, og afturvirku hækkanir annarra stétta, meðan stór hluti af okkar hóp er með tekjur undir framfærsluviðmiðunum. Það fást 335 þúsund krónur á mánuði fyrir einstakling, en útborgað er upphæðin 250.000 krónur. Alls eru um 40.000 eldri borgarar á Íslandi og þriðjungur þeirra er undir þessum mörkum.“

Þess má geta að Bjarni Benediktsson var fjármálaráðherra frá 2013-17 og forsætisráðherra megnið af árinu 2017. Hann er nú fjármálaráðherra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum
Fallinn strompur

Mest lesið

Ekki missa af