fbpx
Miðvikudagur 20.mars 2019
Eyjan

Ris og fall „þjóðarstolts brasilískra kapítalista“

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 15. júlí 2018 19:00

Eike Batista

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

30 ára fangelsi fyrir spillingu. Það var dómurinn sem var nýlega kveðinn upp í Brasilíu yfir Eike Batista sem var talinn djarfasti og farsælasti frumkvöðull sinnar kynslóðar. En nú er hann einhverskonar táknmynd nýrra tíma í landi sem reynir að koma efnahagsmálunum á réttan kjöl um leið og tekið er á landlægri spillingu. Batista var eitt sinn talinn vonarljós og margir bundu miklar vonir við hann en fótunum var kippt undan viðskiptaveldi hans á örskotsstundu og hann verður ekki þátttakandi þar næstu áratugina.

Brasilía glímir við efnahagslega erfiðleika en fyrir nokkrum árum var landið rísandi efnahagsveldi þar sem allt var í blóma og landið nálgaðist þróaðri lönd óðfluga á efnahagssviðinu. En síðan hrundi allt saman. Pólitísk kreppa, spilling, samdráttur, pólitísk hneykslismál og mikill niðurskurður; allt gerðist þetta á nokkrum mánuðum.

Í umfjöllun BBC um Batista kemur fram að hann hafi verið kaupsýslumaður sem auðgaðist á námuvinnslu með því að leggja hart að sér, hann bjó yfir persónutöfrum og þekkti rétta fólkið í viðskiptaheiminum. Hann stundaði háskólanám í Þýskalandi og vann fyrir sér þar sem tryggingasölumaður. Dag einn las hann um gullæði í miðhluta Brasilíu og ákvað þá að hætta í skóla og flytja aftur heim.

Hann fékk lánaða peninga hjá skartgripasölum í Rio de Janeiro og Sao Paulo og keypti gullnámu. Þar með var grunnurinn lagður að viðskiptaveldi hans enda leið ekki á löngu þar til hann hafði eignast sína fyrstu milljón dollara. Viðskiptaveldi hans óx og hann tók upp samstarf við stór námafyrirtæki á borð við Rio Tinto.

Luma de Oliveira og Eike Batista.

Hann var einnig í sviðsljósinu á öðrum sviðum því hann kvæntist ástsælustu fyrirsætu landsins, Luma de Oliveira, sem einnig var þekkt fyrir keppni og sigra í hraðbátasiglingum. Þegar uppgangurinn var sem mestur í brasilísku efnahagslífi í byrjun aldarinnar náðu vinsældir Batista hámarki. Árið 2012 var hann talinn sjöundi ríkasti maður heims samkvæmt lista Forbes en eignir hans voru þá metnar á 35 milljarða dollara. Hann var fyrirmynd margra ungra frumkvöðla.

Lengi að ná toppnum – Hröð niðurleið

Það tók Batista 30 ár að ná toppnum sem kaupsýslumaður í Brasilíu en fall hans gekk mun hraðar fyrir sig. Árið 2013 áttu fyrirtæki hans í fjárhagslegum erfiðleikum. Batista hafði með persónutöfrum sínum fengið marga fjárfesta til að leggja fjármuni í flókin og dýr innviðaverkefni, námuvinnslu og verkefni tengd olíuiðnaðinum. En olíulindirnar sem hann hafði keypt skiluðu ekki nægri olíu. Innviðaverkefnum var slegið á frest og áætlaður hagnaður varð að tapi. Hann seldi fyrirtæki sín, snekkjuna og megnið af fasteignum sínum í Rio de Janeiro og hét því að bjarga fyrirtækjum sínum frá gjaldþroti.

En eftir því sem sérfræðingar segja þá voru fyrirtæki hans byggð upp á einhverju allt öðru og ískyggilegra en mikilli vinnu og hugrekki. Í átaki gegn spillingu 2017, sem leiddi í ljós spillingu innan allra helstu stjórnmálaflokka landsins, kom í ljós að Batista hafði notað sambönd sín við embættismenn í Rio de Janeiro til að verða sér úti um opinber verkefni.

Handtökuskipun var gefin út á hendur honum þegar hann var staddur í New York. Vangaveltur voru uppi um að hann myndi láta sig hverfa en hann bókaði strax flug heim og gaf sig fram.

Hann var handtekinn um leið og hann kom til Brasilíu og færður í fangelsi með „venjulegum“ glæpamönnum. Hann deildi klefa með fleiri og aðeins eitt klósett var í klefanum. Þar sem hann hafði ekki lokið háskólanámi átti hann ekki rétt á einkaklefa.

Reyndi fyrir sér á Youtube

Batista varð þess vafasama heiðurs aðnjótandi að vera annar í röð þeirra sem hafa komist á lista Forbes yfir milljarðamæringa til að vera handtekinn. Hinn var fíkniefnabaróninn Pablo Escobar.

Batista var látinn laus eftir nokkra mánuði og gert að sæta stofufangelsi á meðan mál hans var til meðferðar hjá dómstólum. Nýlega var hann síðan dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir að hafa greitt Sergio Cabral, fyrrum ríkisstjóra Rio de Janeiro, 16,5 milljónir dollara í mútur. Cabral var dæmdur í 93 ára fangelsi fyrir að hafa þegið mútur.

Ekki eru mörg ár síðan Dilma Rousseff, þáverandi forseti Brasilíu, hrósaði Batista í hástert og sagði hann vera „þjóðarstolt“ brasilískra kapitalista. „Þjóðarstoltið“ nýtti tímann í stofufangelsinu til að reyna fyrir sér á YouTube með ráðgjöf um fjárfestingar og ýmislegt annað. En dómurinn yfir honum bindur líklega enda á þessa nýju iðju hans enda fær hann líklega ekki að vera með netaðgang í fangelsinu, hvað þá að standa í framleiðslu myndbanda fyrir YouTube.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Bjarni segir viðbrögðin vera „óþarfa upphlaup“ úr öllu samhengi: „Lítill hausverkur við hliðina á hinu“

Bjarni segir viðbrögðin vera „óþarfa upphlaup“ úr öllu samhengi: „Lítill hausverkur við hliðina á hinu“
Eyjan
Í gær

Vigdís óttast geislun frá mastri á Úlfarsfelli – „Hræðsluáróður, rangfærslur og dylgjur“

Vigdís óttast geislun frá mastri á Úlfarsfelli – „Hræðsluáróður, rangfærslur og dylgjur“