fbpx
Föstudagur 26.apríl 2019
Eyjan

Óþægilega myndin af Katrínu með Trump, Erdogan og Orbán

Egill Helgason
Fimmtudaginn 12. júlí 2018 22:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Almannatengslafulltrúarnir sem fundu upp á uppstillingunni af þjóðarleiðtogunum á Nató-fundinum fyrr í vikunni ættu að missa vinnuna tafarlaust. Þetta er skelfilega vond hugmynd. Leiðtogarnir standa eins og styttur á vaxmyndasafni ellegar taflmenn á borði í leiðinlegri skák – maður skynjar togstreituna, tortryggnina og óvildina milli sumra þeirra. Aðrir líta út eins og þeir séu bara hissa – vilji helst vera annars staðar.

Katrín Jakobsdóttir er í þeim hópi. Íslenskur forsætisráðherra hefur ekki mikla vigt á Nató-fundi. Það verður ekki mikið hlustað á hann þótt hann kvaki um frið og afvopnun. Katrín er í þeirri einkennilegu stöðu þarna að vera helsti leiðtogi vinstri aflanna á Íslandi, formaður flokks sem vill beinlínis ganga úr Nató. En úrsögn úr bandalaginu hefur þó aldrei verið stefnan í reynd – eins og vera vinstri flokka í ríkisstjórnum allt frá tíma kalda stríðsins sýnir.

Katrín er þarna á mynd með sjálfum Donald Trump, en líka Recep Erdogan og Victor Orbán. Hún er auðvitað ekki ein um að líða illa. Öllum þessum körlum er til dæmis sérlega mikið í nöp við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Trump er sífellt að ögra henni, og það er svo skrítið að það gerir Vladimír Pútín líka.

Hugsanlega á Trump og Pútín eftir að semja feikilega vel á fundinum í Helsinki í næstu viku. Trump virðist kunna sérlega vel við sig í félagsskap harðstjóra – kannski vegna þess að hann þráir að verða einn slíkur sjálfur.

En Trump mætti á fundinn og fór að hamast út í Þjóðverja fyrir að kaupa gas af Rússlandi. Trump hélt því fram að vegna þessa væri Þýskaland gísl Rússa. Það er svo skrítið að í huga viðskiptajöfursins Trumps fela viðskipti í sér að annar aðilinn tapi og hinn vinni – á ensku heitir þetta zero sum game. Þetta er í raun andstætt þeirri markaðshyggju sem hagkerfi Vesturlanda byggja á.

Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum, skrifar á Facebook:

Allt tal um að Evrópa sé mjög eða of háð rússnesku gasi skautar fram hjá því að með þessum viðskiptum er Rússland um leið mjög háð gastekjum frá Evrópu. Gagnkvæmir viðskiptahagsmunir eru ein besta leiðin til að tryggja frið.

Hitt er svo að Trump ætti kannski að líta í eigin barm, eins og Vilhjálmur Þorsteinsson nefnir á sama umræðuþræði:

Donald Trump skammar Þjóðverja fyrir að vera undir hæl Rússa vegna kaupa á gasi. Hægðarleikur væri þá að skamma hann sjálfan fyrir að vera undir hæl Kínverja, sem eiga bandarísk ríkisskuldabréf að andvirði US$1.200 milljarða og eru þar með stærsti lánardrottinn Bandaríkjanna og hirða þaðan talsverðar fjárhæðir árlega í vexti.

Í Bandaríkjunum stefnir í US$1.000 milljarða  fjárlagahalla árið 2020. Hann er að aukast vegna skattalækkana Trumps og vegna endalausra útgjalda til hermála.

Trump heimtaði að Evrópuríki myndu auka framlög til hermála, lét öllum illum látum og var farinn að tala um fjögur prósent af þjóðarframleiðslu. Slíkt hlutfall þekkist ekki nema í Bandaríkjunum sem stefna þangað, Rússlandi og svo í Saudi-Arabíu – ríkjum þar sem hernaðarhyggjan ríður ekki við einteyming.

Trump er sjálfum sér líkur. Hann fer af Nató-fundinum og lýsir því yfir að hann hafi unnið frægan sigur. Hann getur ekki upplifað það öðruvísi. Hinar Nató-þjóðirnar gefa honum einhvern ádrátt en í raun er þeim efst í huga að bíða af sér þessa óþægilegu nærveru – og losna af þessari óþægilegu mynd.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Björn um tækifærismennsku Þorsteins og Frosta: „Nær væri að nota orðið „tvöfeldni“

Björn um tækifærismennsku Þorsteins og Frosta: „Nær væri að nota orðið „tvöfeldni“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Síðasta bókin um Bernie Gunther – á upplausnartíma Weimarlýðveldisins

Síðasta bókin um Bernie Gunther – á upplausnartíma Weimarlýðveldisins