fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Þarf Katrín Jakobsdóttir að taka í höndina á Trump? – Tilgangsleysi þess að eyða meira fé í vopn

Egill Helgason
Miðvikudaginn 11. júlí 2018 13:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ætli Katrín Jakobsdóttir þurfi að taka í hönd á Donald Trump á Nató-fundinum í Brussel. Þessa hönd sem var talað um að væri óeðlilega lítil í kosningabaráttunni vestra – á þeim tíma þegar hún sökk einna dýpst. Það er varla hægt að finna meiri andstæður en hina brosmildu og fíngerðu Katrínu og tuddann og kvenhatarann Trump.

Katrín fer á Natófundinn, formaður vinstri flokks sem hefur kennt sig við sósíalisma – henni er eiginlega vorkunn. Hún segist ætla að tala fyrir afvopnun og friði, en auðvitað hlustar enginn á íslenska ráðamenn á svona fundum.

Við erum samt með og höfum verið frá upphafi, erum ein af stofnþjóðum Nató. Og Katrín tekur réttan pól í hæðina, það er um að gera að tala eins mikið og maður getur um frið og afvopnum, líka þótt sama og enginn sé að hlusta.

Donald Trump mætir á fundinn með þau skilaboð að Evrópuríki verði að auka framlög til hermála. Tvö prósent af þjóðarframleiðslu sé lágmarkið. Bandaríkin eru gegnsýrð af hermennsku og þar er við lýði gríðarlegt samkrull stjórnmála, stórfyrirtækja og hers – það sem Eisenhower forseti varaði eitt sinn við og kallaði military industrial complex. Sjálfur var Eisenhower hershöfðingi og vissi hvað hann var að tala um.

 

 

Blæti Bandaríkjamanna fyrir vopnum og hermennsku er eiginlega sjúklegt. Það er líka svo, að þrátt fyrir móðursýki vegna hryðjuverka, er í raun afar fátt sem ógnar Bandaríkjunum. Það eru þau sem fara um heiminn og leita að átökum – koma sér í fæting. Evrópuríki eru almennt mjög treg til að taka þátt í þessu, álfan er nefnilega á býsna hættulegum stað með hið stóra Rússland í austri – þar sem ríkir líka dýrkun á vopnum og hermennsku. Með suðupottinn í Miðausturlöndum við bæjardyrnar suðaustanmegin – þar springur allt í loft upp reglulega með tilheyrandi flóttamannastraumi. Og svo Afríku í suðri með sína miklu fátækt og fólksfjöldvandamál.

Allt þetta útheimtir samninga, diplómatíu, þref, frekar en meiri útgjöld í vopn. Fallbyssur, skriðdrekar og kjarnorkusprengjur duga lítt gegn þeim ógnum sem steðja að Evrópu – nema hún vilji þá tortíma sjálfri sér líka. Önnur ógn er á netinu, margs konar netárásir og nethernaður – það er mikilvægara að bregðast við því en að fjölga kjarnaaoddum. Samningar við Íran voru gerðir fyrir tilstuðlan Evrópuríkja – Trump reif þá í tætlur. Sá gjörningur er ógn við öryggi Evrópu.

Bandaríkin eyða ógurlegum fjárhæðum í hermál. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að innviðir bandarísks samfélags fara mjög hnignandi. Það kemur manni mjög á óvart í Bandaríkjunum hversu margt er illa niðurnítt. Peningunum sem gætu farið í að laga rafmagnslínur, vegi, lestarteina, flugvelli, brýr, borgarumhverfi þar sem býr fátækt fólk – þeim er eytt í annað. Það er frægt að Kanadamenn borguðu fyrir brú yfir Detroitánna sem er Bandaríkjamegin við landamæri ríkjanna – Bandaríkjamenn sjálfir tímdu því ekki.

Þessi hnignun er nátúrlega ógn við öryggi bandarískra borgara og með lækkandi sköttum verður ekki ráðin bót á þessu. En hin skefjalausu útgjöld í her og vopn halda áfram. Trump vill að Evrópa geri eins. Bandaríkjastjórn lætur líka fara í taugarnar á sér hversu Evrópuþjóðir eru tregar til að láta draga sig út í allskyns hernaðarævintýri. En afstaða Evrópu breytist ekki. Fyrir því er engin þörf, enginn pólitískur vilji, peningarnir eru sem betur fer notaðir í annað – hluti sem nýtast borgurunum betur.

Trump er með það á heilanum að Evrópuríkin séu að misnota Bandaríkin og reyndar heimsbyggðin öll. En það er val Bandaríkjanna að vera með herstöðvar út um allar koppagrundir, í öllum heimsálfum, upp um sund og voga og fjöll. Við lifum á öld Bandaríkjanna. Áhrif þeirra eru alls staðar, ekki bara vopnin, heldur líka dollarinn, Wall Street og allt fjármálabraskið, kóka kóla og varningurinn, Apple og Microsoft, og nú síðast Netflix og Facebook. Bandaríkin þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af því að verið sé að fara illa með þau.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Neita að skrifa undir skýrsluna: „Sorglegt að hlusta á villandi og rangan málflutning í ræðustóli Alþingis“

Neita að skrifa undir skýrsluna: „Sorglegt að hlusta á villandi og rangan málflutning í ræðustóli Alþingis“
Eyjan
Í gær

Hannes „styrkjasnillingur“ svarar „gamansögu“ Helga: Stendur uppi sem samningaglópur

Hannes „styrkjasnillingur“ svarar „gamansögu“ Helga: Stendur uppi sem samningaglópur
Eyjan
Í gær

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“
Eyjan
Í gær

Ragnar Þór tekur við af Guðbrandi sem formaður

Ragnar Þór tekur við af Guðbrandi sem formaður
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Seðlabankastjóri veit ekki hvort útreikningarnir í Samherjamálinu séu réttir eða rangir

Seðlabankastjóri veit ekki hvort útreikningarnir í Samherjamálinu séu réttir eða rangir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Örn baunar á verkalýðshreyfinguna og Alþingismenn: „Synd að segja að hinar sveru gráður hafi aukið greind þeirra“

Örn baunar á verkalýðshreyfinguna og Alþingismenn: „Synd að segja að hinar sveru gráður hafi aukið greind þeirra“