fbpx
Miðvikudagur 20.mars 2019
Eyjan

Ávarp forsætisráðherra: „Dýpri stjórnmálaumræða á undir högg að sækja“

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 17. júní 2018 13:47

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flytur ávarp á Austurvelli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fluttu ávarp á Austurvelli í dag, þjóðhátíðardaginn 17. júní. Henni var tíðrætt um tækni og samskiptamiðla og hvaða áhrif tæknin hefði á stjórnmálaumræðuna:

„Tæknin hefur nú þegar tekið svo stórstígum framförum að hún er farin að hafa áhrif á líf okkar, samfélagsgerð og okkur sjálf. Ekki aðeins mun hún geta haft áhrif á tungumálið, heldur hugsun okkar alla.

Samskiptamiðlar og leitarvélar sem forritaðar eru með tilteknum hætti hafa þegar haft áhrif á stjórnmálaumræðu sem fer fyrst og fremst fram með yfirlýsingum sem ekki mega spanna meira en 280 stafabil. Sú staðreynd hefur gert það að verkum að dýpri stjórnmálaumræða á undir högg að sækja. Hver verða áhrifin af því? Nýtum tæknibreytingar til góðs og tryggjum að þær ýti ekki enn frekar undir sundrandi umræðu í pólitísku umhverfi sem nú þegar einkennist af því að samvinna og málamiðlanir sem lengi hafa verið undirstaða lýðræðissamfélagsins eru orðnar löstur en ekki kostur. Fjölþjóðlegt samstarf á að sama skapi undir högg að sækja, boðaðir eru múrar milli landa og æ fleiri virðast telja einstrengingshátt til sérstakra dyggða.

En tæknibyltingin hefur ekki aðeins áhrif á stjórnmálin; hún mun hafa áhrif á samfélagið allt og ekki síst atvinnulíf og vinnumarkað. Við höfum öll færi til þess hér á Íslandi að vera gerendur í tæknibyltingunni frekar en þiggjendur. Sagan sýnir okkur að stórhug hefur aldrei skort hér á landi og það er ábyrgð okkar að sækja fram gagnvart komandi breytingum til þess að tryggja áframhaldandi velsæld og jöfnuð. Það er þó kannski ekki flóknasta verkefnið heldur verður það að tryggja að mennskan glatist ekki í þessari hraðskreiðu byltingu; það verður að takast á við þau siðferðilegu álitamál sem blasa við og þær spurningar sem munu vakna um hvað það merkir að vera maður. Í því verkefni verðum við að vera meðvituð um að skapandi og gagnrýnin hugsun mannsins, hæfileikinn til að hugsa sjálfstætt, verður líklega mikilvægasta tækið til að varðveita einmitt mennskuna.“

 

Katrín las einnig upp úr 100 ára gamalli dagbókarfærslu Elku Björnsdóttur, verkakonu í Reykjavík, í ávarpi sínu í dag. Elka var 37 ára árið 1918, vann við að ræsta skrifstofur í Reykjavík og átti þátt í stofnun verkakvennafélagsins Framsóknar og Alþýðuflokks Íslands:

„Þessar hundrað ára gömlu dagbókarfærslur vekja okkur til umhugsunar um kjör og aðstæður þeirra sem þá voru uppi. Sömuleiðis um samfélagsgerðina þar sem konur yfir fertugu höfðu fengið kosningarétt aðeins þremur árum fyrr og ákvarðanir voru teknar með allt öðrum hætti en núna. Samfélagið er sannarlega breytt frá því fyrir einni öld. Raddir samfélagsins eru fleiri og fjölbreyttari en á Íslandi ársins 1918 og það er gott enda er þörfin brýn fyrir hæfileika á ólíkum sviðum, hugmyndir, dugnað og metnað,”

sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Forsætisráðherra minntist á íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu og hvernig einurð, metnaður og þrotlaus vinna liggi að baki árangurs þeirra. Þá talaði hún um hvernig áherslan á liðsheild skipti miklu máli og séu dýrmæt skilaboð til okkar allra í samfélaginu.

Að lokum minntist forsætisráðherra á mikilvægi þess að greiða götuna áfram til betra samfélags á Íslandi:

„Hátíðardagar eins og 17. júní og 1. desember minna okkur á að við stöndum á herðum þeirra kynslóða sem á undan okkur fóru. Við þurfum að vera sívakandi við að leggja okkar af mörkum til að greiða götuna áfram til betra samfélags á Íslandi. Þetta er nefnilega gott land og gott samfélag. Gleymum því aldrei að hér búum við þvert á ýmsar hrakspár öldum saman vegna þess að hér er gott að vera og vegna þess að þrátt fyrir allt þykir okkur vænt hverju um annað. Það er líklega það dýrmætasta af öllu.”

Ræðu forsætisráðherra má finna hér í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Bjarni segir viðbrögðin vera „óþarfa upphlaup“ úr öllu samhengi: „Lítill hausverkur við hliðina á hinu“

Bjarni segir viðbrögðin vera „óþarfa upphlaup“ úr öllu samhengi: „Lítill hausverkur við hliðina á hinu“
Eyjan
Í gær

Vigdís óttast geislun frá mastri á Úlfarsfelli – „Hræðsluáróður, rangfærslur og dylgjur“

Vigdís óttast geislun frá mastri á Úlfarsfelli – „Hræðsluáróður, rangfærslur og dylgjur“