fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019
Eyjan

Mótmælafundir til stuðnings Tommy Robinson í Reykjavík og London

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 9. júní 2018 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mótmælafundir til stuðnings hinum umdeilda breska aktívista, Tommy Robinson, verða haldnir samtímis í Reykjavík og London í dag, kl. 15 að enskum tíma og kl. 16 að íslenskum. Tommy Robinson var handtekinn í síðasta mánuði og dæmdur í 13 mánaða fangelsi fyrir óvirðingu við réttinn er hann stóð fyrir myndatökum og beinni útsendingu á Facebook-síðu sinni fyrir utan dómshús í Leeds þar sem fram fóru réttarhöld yfir hópi meintra íslamskra barnaníðinga og nauðgara. Um lokað þinghald var að ræða og voru í gildi hömlur á fréttaflutningi frá réttarhöldunum. Meðal annars lét Tommy Robinson mynda sakborninga og gaf sig á tal við þá. Lögunum er ætlað að koma í veg fyrir að áhrif séu höfð á dómsniðurstöðu sem og að réttarhöld geti verið gerð ógild vegna slíkrar framgöngu.

Í fyrra var Tommy dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir sambærilegt brot. Hann myndaði þá meinta kynferðisbrotamenn er þeir komu að dómshúsi auk þess að ausa yfir þá svívirðingum. Að þessu sinni veittist Tommy ekki að sakborningunum en spurði tvo þeirra nokkuð hlutlausra spurninga. Hann lét hins vegar mynda fyrir utan dómhúsið í meira en klukkustund, þar á meðal er sakborningar komu til réttarhaldanna, og sýndi beint á Facebook-síðu sinni. Fyrir það var hann dæmdur fyrir óvirðingu við réttinn auk þess sem honum var gert að afplána áður skilorðsbundna refsingu sína vegna fyrra málsins.

Tommy Robinson er víðfrægur og umdeildur fyrir baráttu sína gegn íslam á Bretlandi undanfarin ár. Hefur hann hann meðal annars beint athyglinni að kynferðisbrotum á borð við þau er voru til meðferðar í umræddu dómsmáli í Leeds. Svokölluð „grooming gangs“ eru hópar manna sem hafa með skipulögðum hætti tælt unglingsstúlkur og stúlkubörn niður í 11 ára aldur, misnotað kynferðislega, misþyrmt og gert út í vændi. Stór hluti sakborninga í slíkum málum eru múslímar, flestir frá Pakistan. Samtökin Quilliam Foundation, sem eru stofnuð af múslimum, birtu skýrslu um þessa glæpi í lok síðasta árs þar sem niðurstaðan er sú að meirihluti sakfelldra manna í kynferðisbrotamálum af þessu tagi á Bretlandi séu íslamstrúar. Stofnandi Quilliam, Maajid Nawaz, hefur lýst því yfir að þessir glæpir sé að hluta framdir á rasískum grunni, þ.e.a.s. vegna fyrirlitningar á fólki sem ekki er múslímar.

 

Krefjast þess að Tommy verði látinn laus

Á meðan margir benda á að Tommy hafi brotið lög og hafi mátt vita hvaða afleiðingar framferði hans fyrir utan dómshúsið gæti haft eru margir stuðningsmenn hans sannfærðir um að handtaka hans og dómurinn yfir honum séu til vitnis um aðför að málfrelsi og séu liður í ofsóknum stjórnvalda gegn honum.

Þarna er þó meira undir en umræddur fangelsisdómur. Í mótmælunum og umfjöllun um mál Tommys undanfarið kristallast áralangur ágreiningur um íslam á Englandi, þar sem annars vegar eru áhyggjur af meintu sívaxandi níði og fordómum í garð múslíma, en hins vegar ásakanir um þöggunartilburði þar sem fólk sé fordæmt fyrir eðlilega gagnrýni á öfgahyggju og böl á borð við umrædda kynferðisglæpi, kynfæraumskurð, hryðjuverk og meinta andúð íslamista á réttindum kvenna og hinsegin fólks, sem og öðrum vestrænum gildum.

Undanfarnar vikur hafa verið haldnar mótmælagöngur til stuðnings Tommy í Leeds og Manchester. Á annað þúsund manns marséruðu um miðbæ Manchester til stuðnings honum. Búist er við að mótmælafundurinn í London í dag verði fjölmennari.

Mótmæli fyrir utan breska sendiráðið í Reykjavík

Stuðningshópur Tommy Robinson á Íslandi hefur efnt til mótmælastöðu fyrir utan breska sendiráðið, Laufásvegi 31, kl. 16 í dag. Tilkynning frá hópnum, sem send hefur verið til fjölmiðla, er svohljóðandi:

 

Samstöðufundur – Verjum Málfrelsið.

Enski aðgerðasinninn og blaðamaðurinn Tommy Robinsons var handtekinn fyrir utan dómshús í Leeds 25. maí sl. fyrir að ,,ógna almannafriði“ og dæmdur aðeins nokkrum klukkustundum síðar í 13 mánaða fangelsi fyrir að ,,lítilsvirða réttinn“.  9.júní er alþjóðlegur stuðningsdagur Tommy Robinsons og eru samstöðufundir haldnir víða um heim.

Samstöðufundur til stuðnings frelsunar Tommy Robinsons verður haldinn fyrir framan Breska Sendiráðið laugardaginn 9. júní kl. 16.00. Við komum saman fyrir framan sendiráðið, ávörp verða flutt og mótmælaskjal afhent. Hallur Hallsson og Chris Telfer flytja ávörp, fundarstjóri verður Gunnlaugur Ingvarsson og María Magnúsdóttir leiðir kyrrðarstund.

Mætum öll og mótmælum þeirri grafalvarlegu þróun sem á sér stað á Evrópu og nú einnig á Íslandi, þ. e. skerðingu tjáningarfrelsisins. Mótmælum handtöku Tommy Robinsons og krefjumst lausnar hans nú þegar, hans sjálfs vegna, Evrópu og okkar allra vegna! Tommy er pólitískur fangi sem situr inni vegna skoðana sinna, þannig er komið fyrir tjáningarfrelsinu í Evrópu í dag!

Hér í spilaranum að neðan má sjá útsendinguna sem Tommy situr nú í fangelsi fyrir:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“