fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2019
Eyjan

Þorsteinn sigraði fíkniefnadjöfulinn og vill nota reynsluna til að bæta borgina

Ari Brynjólfsson
Sunnudaginn 20. maí 2018 12:00

Þorsteinn V. Einarsson. Mynd: DV/Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorsteinn V. Einarsson, deildarstjóri í frístundamiðstöð sem skipar 3. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík, vill nota eigin reynslu af alkóhólisma og fíkniefnum til að bæta umgjörð og úrræði fyrir ungt fólk í Reykjavík. Þorsteinn, sem starfað hefur með börnum og unglingum í Reykjavík í 12 ár, vakti mikla athygli í mars síðastliðnum fyrir átakið #karlmennskan, þar sem hann hvatti aðra karla til að hafna eitraðri karlmennsku. Miðað við nýjustu kannanir er Þorsteinn í báráttusæti VG og stefnir allt í að hann verði borgarfulltrúi. Þorsteinn settist niður með blaðamanni Eyjunnar/DV og ræddi um stöðuna í kosningabaráttunni og hvernig hann sér fyrir sér að koma í veg fyrir að önnur ungmenni geri sömu mistök og hann gerði sem unglingur.

„Þetta eru ógeðslega mörg framboð, það er frábært að svo margir vilja láta að sér kveða, en þetta vekur upp spurninguna hvers vegna fólk er ekki að finna sig í rótgrónum stjórnmálahreyfingum,“ segir Þorsteinn. „Við í Vinstri grænum viljum vera flokkur þar sem rúmast fólk með ólíkar skoðanir, tveir af okkar þingmönnum voru t.d. á móti myndunar ríkisstjórnarinnar. Og það er allt í lagi. Flokkar þurfa að geta rúmað ólíkar skoðanir, það er að mínu viti mjög mikilvægt því annars liðast þeir í sundur.”

Margir upplifa það, sérstaklega hérna í Reykjavík, að það séu komnar tvær blokkir, annars vegar Dagur B. Eggertsson og hins vegar Eyþór Arnalds. Hvaða áherslur ætlar VG að ná fram í borginni?

„Við ætlum ekki í samstarf við þá sem vilja ekki vinna í samræmi við þá framtíðaráætlun sem við erum að vinna að í núverandi meirihluta: Sjálfbær hverfi með alla þjónustu í nærumhverfinu, þéttingu byggðar og borgarlínu. Þetta helst allt í hendur. Við í VG viljum svo að það fólk sem þarf að ferðast á einkabíl frekar en að nota almenningssamgöngur geti notað rafbíl. Fólk vill nefnilega vera umhverfisvænt. Við þurfum að taka af skarið og verða leiðandi þegar kemur að hleðslustöðvum, þá á ég ekki bara við um fyrir utan stofnanir og fyrirtæki heldur einnig heimili og í íbúðargötum.“

Það má segja að sótt sé að stefnumálum VG úr öllum áttum, Sósíalistar segjast vera harðari vinstrimenn en þið og Viðreisn meiri femínistar, er þetta rígur eða erum við að tala um samstarfsfleti?

„ Það eru margir snertifletir við báða flokka. Líf [Magneudóttir, oddviti] hefur tekið af skarið þegar kemur að kjaramálum og þá sérstaklega hvað varðar láglaunastörfin þar sem eru fjölmennar kvennastéttir sem starfa hjá borginni. Við þurfum svo sannarlega að koma böndum á launahækkanir stjórnenda og hækka frekar laun þeirra sem raunverulega þurfa á hækkunum að halda. Nýjustu dæmin um taktlausar launahækkanir eru frá bæjarstjóranum í Kópavogi og forstjóra Hörpu. Algjörlega galið.”

“Við erum á góðri leið með að eyða kynbundnum launamun hjá borginni. En verðmætamat starfa þarf samt líka að leiðrétta og það er hægt með pólitískum áherslum og breyttu gildismati. “ segir Þorsteinn. Hann segir að það sé nauðsynlegt að koma að vinstri áherslum, þá sérstaklega í fyrrnefndum kjaramálum og húsnæðismálum. „Við ætlum að endurreisa verkamannabústaðakerfið, og taka höndum saman með verkalýðshreyfingunni til að útvega ódýrt húsnæði fyrir alla og verða meiri gerendur í uppbyggingu ódýrra leiguíbúða“

Fáránlegt tabú

Þorsteinn er búinn að vera edrú í rúm 10 ár, síðan hann var aðeins 22 ára gamall. Hann hefur ekki stigið fram opinberlega með sögu sína fyrr en nú.

„Íslenskt samfélag er byggt upp á alkahólisma, fólk er annað hvort alkahólistar eða aðstandendur alkahólista. Það virðist vera hinn sorglega fyndni veruleiki okkar. Og þetta er fáránlegt tabú. Ég hef starfað að forvörnum með ungu fólki í 12 ár í félagsmiðstöðvum. Ég byrjaði sjálfur of ungur að drekka, þá var það eðlilegt að byrja að drekka sem unglingur en það hefur sem betur fer breyst mikið á síðustu árum. En við þurfum að vera á tánum,“ segir Þorsteinn.

„Ég hélt lengi framan af að þetta væri ekkert vandamál. Ég var íþróttamaður, spilaði í meistaraflokki í fótbolta, stóð mig í menntaskóla og svo í háskóla. Út á við leit alltaf út fyrir að ég væri með flest alveg á hreinu, ég væri bara pínu skrautlegur þegar ég fengi mér í glas. Raunveruleikinn var að ég drakk mikið, fór flestar helgar út að skemmta mér og notaði fíkniefni í laumi. Ég hélt allan tímann að ég væri við stjórnvölinn, það var ekki fyrr en ég var búinn að vera edrú í nokkur ár að ég fattaði að ég hafði aldrei verið með stjórn á neinu. Mér tókst bara að halda lífinu saman og slapp við að vera búinn að missa allt áður en ég varð edrú. Það er oft eins og fólk haldi að maður þurfi að rústa heilu fjölskyldunum og verða sextugur áður en það megi snúa við blaðinu.“

Þorsteinn fann engan dramatískan botn, heldur vaknaði hann einn morguninn á hinu fræga ári 2007 og fann að hann gæti ekki verið þessa manneskja lengur. Það þyrfti eitthvað að breytast.

Hvenær byrjaðir þú að nota fíkniefni?

„Það var í algjöru hugsunarleysi þegar ég var 17 ára. Ég var á djamminu með góðum vinum mínum og fæ að prufa eitthvað sem ég vissi ekkert hvað var. Þá gerist eitthvað í hausnum á mér og í hvert skipti sem ég fékk mér í glas eftir þetta öskraði efnið á mig. Ég ætlaði mér aldrei að gera þetta aftur, í hvert einasta skipti.“

Hverja einustu helgi?

„Nei, ég get ekki sagt það. Ég hef ekki tölu á hversu oft, en ég notaði hvert tækifæri. Það gat verið keppnisferð á þriðjudegi eða bjórkvöld í menntaskólanum á fimmtudegi. Svo kom bara þessi dagur, ég vaknaði eftir enn eitt djammið, það var ekkert hræðilegt djamm, en ég hugsaði með mér: “ég get ekki lifað svona lífi lengur”. Ég hef náð að halda mér edrú allan þennan tíma og svona temmilega andlega heilbrigðum. Þetta var ekki alltaf auðvelt, ég var 22 ára að læra hvernig á að skemmta sér upp á nýtt. Þetta mótaði mig mjög mikið sem manneskju og hefur orðið til þess að ég er með forvarnir á heilanum í dag.“

Hvernig viltu nota reynslu þína til að hafa áhrif í borginni?

„Við vitum hvað það er sem þarf til að koma í veg fyrir að krakkar fari í fíkniefnaneyslu. Við tölum um verndandi þætti sem eru meðal annars áhrif fjölskyldunnar, það eru íþróttirnar, skipulagt frístundastarf  eins og félagsmiðstöðvarnar. Síðan er það líka almenn vellíðan ungs fólks. Það er þar sem að við þurfum að stíga inn. Það þarf fleiri úrræði í geðheilbrigðismálum og ekki bara það, heldur að breyta viðhorfum samfélagsins til geðheilbrigðismála. Það er tabú að tala um alkahólisma þrátt fyrir að samfélagið sé gegnumsýrt, við þurfum líka að geta talað um geðheilbrigðismál. Við þurfum að komast á þann stað að fólk þurfi ekki lengur að þykjast vera heima með kvef þegar það er einfaldlega kvíðið eða þunglynt og þeir sem þjáist skammist sín ekki fyrir að leita sér hjálpar. Úrræðin þurfa þá líka að vera til staðar.“

Þorsteinn viðurkennir að verkefnið sé erfitt, sérstaklega í ljósi þess að hann sjálfur var í íþróttum. „Við getum gert þetta svo miklu markvissara. Við sem vinnum með ungu fólki sjáum oft í gegnum þá sem eiga við erfiðleika að stríða en fela þá fyrir öðrum og við getum gripið inn nógu snemma. Þess vegna þarf meðal annars að efla félagsmiðstöðvarnar fyrir 10 til 12 ára aldurinn og gefa fagfólkinu í skólunum og velferðaþjónustunni rými til að vinna saman til að grípa inn í án þess að þurfa að fara í gegnum kerfið. Við eigum líka að horfa til þess að efla geðheilbrigðisþjónustuna á heilsugæslustöðvunum og í kringum grunnskólana. En það er samtal sem við munum eiga við heilbrigðisráðherrann okkar“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

OR var með ólöglega álagningu

OR var með ólöglega álagningu
Eyjan
Í gær

Mynd dagsins: Cyti hall is closed – Sérð þú allar villurnar ? Þær eru fleiri en þú heldur…

Mynd dagsins: Cyti hall is closed – Sérð þú allar villurnar ? Þær eru fleiri en þú heldur…
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir almenning taka sökina fyrir mengun stóriðju: „Hér starfa erlend fyrirtæki sem brenna yfir 1000 tonnum af kolum á dag“

Segir almenning taka sökina fyrir mengun stóriðju: „Hér starfa erlend fyrirtæki sem brenna yfir 1000 tonnum af kolum á dag“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Össur um orkupakkann: Sigmundur, Miðflokksmenn og Frosti ruddu brautina

Össur um orkupakkann: Sigmundur, Miðflokksmenn og Frosti ruddu brautina