fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Eyjan

Ólína Þorvarðardóttir fyrrum þingmaður: „Ný bók er kveðjuóður til Djúpsins“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 30. maí 2017 19:53

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólína Þorvarðardóttir á heimili sínu í Reykjavík.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir er vissulega hæfileikarík kona og hún situr ekki auðum höndum, eins og fram kemur í viðtali hennar við Vesturland sem birt var hér á vef Eyjunnar á sunnudag. Hér segir hún nánar frá nýútkominni bók sinni: 

Á borðinu fyrir framan okkur þar sem við sitjum á heimili Ólínu og fjölskyldu hennar í Reykjavík er einmitt nýjasta afurð hennar. Það er bók sem kom út í síðustu viku. Afar glæsilegt og vandað rit sem ber titilinn „Við Djúpið blátt – Ísafjarðardjúp.“ Þetta er árbók Ferðafélags Íslands 2017. Aðeins hálfu ári eftir að Ólína hættir á þingi sendir hún frá sér þetta rit sem hún hefur haft í smíðum undanfarin misseri.

 

Vill glæða áhuga

Ég hóf að skrifa þessa bók eftir að ég hætti á þingi 2013. Það ár var mér falið það verkefni að skrifa bók um Ísafjarðardjúp sem Árbók Ferðafélagsins. Ég lauk þessu verki nánast 2015 áður en ég settist aftur á þing. Svo þegar ég hætti á þingi í haust var sjálfur útgáfuferillinn farinn af stað með bókina, þ. e. a. s. umbrot, prófarkavinna og þess háttar, og ég sneri mér að henni aftur. Þannig séð hittist þetta mjög vel á og nú er bókin komin út.

Hún segist vona að þessi bók glæði áhugann á Vestfjörðum og Ísafjarðardjúpi sem hún þekki orðið vel.

Ég hef búið á Ísafirði síðustu 16 árin. Áður átti ég heima þar í átta ár en ég fluttist upphaflega til Ísafjarðar 1973 þar sem faðir minn tók við stöðu sýslumanns og bæjarfógeta. Ég hef mikið gengið um Vestfirði enda elska ég útvist, var hestamanneskja í ein 40 ár og sem stelpa var ég alltaf í sveit á sumrin. Ég hef alltaf verið mikið úti við, það er mér eiginlega lífsnauðsynlegt. Á síðustu árum hef ég snúið mér að gönguferðum og fjallamennsku.

 

Fer yfir vítt svið

Í bókinni er meðal annars lýst fjölmörgum gönguleiðum milli fjarða og yfir heiðar.

Ólína áir í gönguferð með Sigurði Péturssyni eiginmanni sínum.

Ef fólk fór landveg milli staða við Djúp þá hélt það yfir heiðarnar. Megin samgönguleiðirnar um aldir voru hins vegar með bátum og skipum á sjó. Fólk áttar sig ekki alveg á því í dag hvernig samgöngur bæði í Djúpi og víðar á Íslandi breyttust þegar þær færðust á land með bílaöld og lagningu vega. Áður byggðust gjarnan upp lítil verðbúðaþorp á útnesjum því menn sóttu sjóinn og fóru á milli á árabátum. Þegar vélbátarnir komu og svo bílarnir lögðust litlu verðbúðaþorpin yfirleitt af og byggðin færðist þangað sem verslun og þjónustu var að finna. Þá tóku við staðir eins og Ísafjörður þar sem voru leiðir að og frá bæði af sjó og á landi. Ísafjörður var um þar síðustu aldamót þriðji stærsti þéttbýlisstaður landsins, miðstöð verslunar- og atvinnulífs með Ásgeirsverslun sem var eitt stærsta verslunarveldi landsins í broddi fylkingar.

Ólína segir það hafa verið sárt að fylgjast með því seinni ár hvernig staða byggða við Djúpið hefur breyst.

Kvótakerfið hafði sín áhrif á þróunina, sérstaklega síðustu þrjá áratugina. Djúpið sjálft er eyðileg á að líta í dag, það er nánast enginn hefðbundinn búskapur lengur. Ísafjörður er nú fyrst aðeins að ná vopnum sínum aftur, helst fyrir tilstilli ferðaþjónustunnar. En eftir að kvótakerfinu var komið á þá hafa fiskvinnsla og –útgerð vart verið svipur hjá sjón hvorki á Ísafirði né á stöðunum í kring.

Þegar Ólínu var falið það verkefni að skrifa árbók FÍ um Djúpið þá lagðist hún í rannsóknavinnu.

Nýja bókin.

Þegar ég skrifaði doktorsritgerðina mína var ég að fjalla um ýmislegt sem tengdist Ísafjarardjúpi og sögu þess svo sem Spánverjavígin 1615 og galdramálin sem voru hatrömm á Vestfjörðum og tengdust ekki síst Djúpinu. Sem þjóðfræðingur hafði ég líka kynnt mér ýmislegt varðandi átrúnað á náttúrusteina, lækningamátt grasa og fleira. Við ritun árbókrinnar ákvað ég að taka allt þetta með. Þarna er sem sagt sagan, en líka þjóðfræðin til viðbótar við lýsingar á staðháttum, náttúrufari og ferðaleiðum. Yfir öllu verkinu eru svo ritstjórn og ekki síst ritstjórinn, Gísli Már Gíslason sem ber ábyrgð á útliti hennar, myndvinnslu, kortum og frágangi. Það eru ýmis árvökul augu sem vaka yfir bók eins og þessari meðan hún er í vinnslu, enda er bókin fallegur gripur, ekki síst vegna ljósmyndanna sem prýða hana.

 

Bók á tímamótum

Samhliða útkomu þessarar bókar þá standa Ólína og fjölskylda hennar á tímamótum. Þau eru að hverfa frá Ísafirði.

Við leitarstörf á vegum björgunarsveitanna með hundinum Skutli sem Ólína og fjölskylda eiga.

Já, nú erum við að flytja suður til Reykjavíkur. Við höfum selt húsið okkar á Ísafirði og flytjum á brott í ágúst. Þar með er Ísafjarðarævintýrið búið,“ segir Ólína. Hún segist sjálf fædd og uppalin sem barn í Reykjavík. „Ég er Reykvíkingur og hér á ég heima. Mér þykir vænt um Ísafjörð en öllu er afmörkuð stund og nú er sá kafli á enda. Ég bjó þarna á meðan mér fannst ég eiga þar erndi,  ekki síst sem þingmaður í Norðvesturkjördæmi. Mér hefur alltaf verið mjög umhugað um málstað Vestfirðinga og á meðan ég gegndi þingmennsku fyrir svæðið vildi ég búa fyrir vestan og deila kjörum með þeim þarna búa. Nú held ég að mínu hlutverki þarna sé lokið. Mér finnst því ágætt að geta lagt þessa bók um Djúpið á borðið í kveðjuskyni um leið og ég geng út og loka á eftir mér. Þetta er kannski svona kveðjuóður til svæðisins.

Birtist í landshlutafréttablaðinu Vesturlandi: 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega