fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Hver man eftir Klúbbnum?

Egill Helgason
Miðvikudaginn 17. ágúst 2016 21:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér er ágæt mynd fyrir þá sem sakna gömlu Reykjavíkur – horfa aftur til hennar með fortíðarþrá.

Þetta er Klúbburinn sem var einn vinsælasti skemmtistaður bæjarins á áttunda áratugnum. Hann var á mörgum hæðum, með sölum sem hægt var að rangla um – en fyrir utan stóð fólk oft í langri biðröð að komast inn. Í biðröðinni var gjarnan stemming, stundum mikið fyllerí og átök, biðraðamenning þeirra ára var mjög sérstök.

Fram til 1980 voru skemmtistaðir lokaðir klukkan 1 eftir miðnætti á föstudögum en 2 eftir miðnættið á laugardögum. Sá böggull fylgdi þó skammrifi að maður varð að vera kominn inn í húsið talsvert fyrr – því hætt var að hleypa inn löngu fyrir lokun. Barir lokuðu hálftíma áður en allir áttu að vera komnir út. Vínþyrstir gestir  urðu semsé að kaupa mikið í síðustu pöntun og hella á sig fyrir lokun. Þá tók við hangs fyrir utan skemmtistaðinn í leit að partíum, þau fóru fram í heimahúsum.

Klúbburinn var annars opnaður fyrst 1960 og þótti nokkuð glæsilegur. Nokkrum árum síðar var skrifað í dagblaðið Vísi:

Húsakynni klúbbsins eru öll hin smekklegustu og innanhússkreyting svo að af ber. Veitingasalir eru á tveim hæðum. Á neðri hæð er vínstúka með austurlenzku sniði, setustofa í veiðimannakofastíl og mat- og samkomusalur með ítölskum blæ. Ítalska salnum er mjög auðvelt að skipta niður fyrir smærri hópa, enda hafa forráða menn hússins hugsað sér að leigja hann til alls konar samkvæma og fundarhalda. Í þessum sal er áformað að hafa vínstúku, en hún er ekki tilbúin ennþá. Á efri hæð er stór salur sem skipt er í smærri hluta með ýmsum hætti. Í einu horni salarins er krókur fyrir vínstúku; er þar stór og fallegur arinn, er setur mjög sérkennilegan blæ á þessa hæð hússins. Meðfram gluggum, með fögru útsýni til sjávar og fjalla, eru matborð á upphækkuðum palli, en á gólfi salarins er dansað. Þar er áformað að setja upp aðra vínstúku. Í einu horni þessa salar er mjög smekkleg stofa, sem sumir myndu e.t.v. kalla blómasalinn. Hann er afkróaður með bambusstöngum og fagurlega skreyttur blómum…

Þegar ég komst til vits og ára var aðallega farið í Klúbbinn á fimmtudagskvöldum, þá var opið þar til 11.30, en svo var um fæsta skemmtistaði sem voru aðeins opnir á helgum. Þá spiluðu ennþá hljómsveitir í Klúbbnum og hans er líklega helst minnst fyrir tónlistina sem þar var flutt. Til dæmis voru hljómsveitir með Pétur Kristjánsson í fararbroddi mjög vinsælar í húsinu, Pelican, Póker og Paradís.

Klúbburinn brann svo 1992. Húsið var rifið og annað hús byggt á lóðinni. Þar er nú Cabin hótel.

Það er víst að þessi mynd vekur upp minningar – og jafnvel stemmingu – hjá einhverjum sem skoða hana.

Jón Axel Ólafsson, útgefandi og útvarpsmaður, sem setti textann inn á myndina skrifar:

Maður finnur Bianco-bragðið ennþá…. En þetta lét maður sig hafa… Og komst í gegnum þetta með engan síma… Og enga Facebook.

 

13938358_10153714505331921_1324054315158903252_n

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum
Fallinn strompur

Mest lesið

Ekki missa af