fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Einstaklega slappt ár í bíómyndum – varið ykkur að binda ekki fyrir augun

Egill Helgason
Þriðjudaginn 8. janúar 2019 20:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erum við að lifa tíma meðalmennsku í kvikmyndagerð? Í fyrradag voru Golden Globe verðlaunin afhent í Hollywood og verðlaunamyndirnar og þær sem voru tilnefndar koma skringilega fyrir sjónir. Þetta virkar eins og eitt veikasta ár í kvikmyndagerð í langan tíma. Sumir segja að sköpunarkrafturinn sé kominn í sjónvarpið.

Sigurvegarinn í flokknum besta dramamynd var Bohemian Rhapsody, myndin sem fjallar um söngvarann Freddy Mercury. Hún fékk afar vonda dóma hjá gagnrýnendum og er í raun hálfgerður bastarður, því eftir langvinnar deilur og vesen, uppsögn leikstjóra og fleira, tókst loks að hnoða saman mynd úr efniviðnum.

Fleiri myndir voru þarna sem geta vart talist nema miðlungs – Black Panther, enn eitt tilbrigði við ofurhetjuna, þó kannski ekki alveg jafn þreytt og flestar ofurhetjumyndir eru núorðið. Tími þeirra virðist þó seint ætla að líða undir lok – ein skýringin er sú hversu vinsælar þær eru meðal ungra kvikmyndahúsagesta í Asíu. Black Panther var tekin fyrir í þætti af South Park nú í vetur.

 

https://www.youtube.com/watch?v=v8MR4SugxEU

 

BlackKkKlansman er Spike Lee á frekar vondum degi – sá merki leikstjóri hefur oft gert svo miklu betur með háð sitt og þjóðfélagsrýni. A Star is Born fékk færri verðlaun en búist var við – þetta er enn ein endurgerð af gamalli kvikmynd. Í raun er ekki ólíklegt að henni vegni betur á Óskarshatíðinni í vetur – einhvern veginn virðist hún hönnuð fyrir smekk Óskarsakademíunnar.

En það er varla von á góðu þegar tilnefningarnar verða tilkynntar 22. janúar. Þarna verður í fyrsta sinn  tilnefnt í nýjum flokki vinsælla mynda. Spurning hvaða myndir lenda þar og hverjar lenda í hinum hefðbundna flokki alvörumynda. Á ári þegar úrvalið er vandræðalega slappt getur þetta orðið frekar ankanalegt.

Vinsælasta kvikmynd heimsins um jólin var raunar  í sjónvarpi. Það er Bird Box, framtíðarhrollvekja sem var sýnd á Netflix. Laðaði ótal áhorfendur að efnisveitunni. Myndin sjálf er óttalega fyrirsjáanleg og á köflum vandræðalega illa leikin. Miðlungsmynd að öllu leyti,  en þrátt fyrir  það hefur hún skapað æði sem er orðið umtalað í fjölmiðlum. Í Bird Box eru leikarararnir með bundið fyrir augun hluta myndarinnar – og nú er fólk farið apa þetta eftir með þeim hætti að Netflix sjálft hefur sent út viðvörun.

 

 

En þess má geta að það er líka Netflix sem á eina af athyglisverðustu myndum ársins, Roma eftir Alfonso Cuaron. Hún fékk verðlaun sem besta erlenda myndin á Golden Globe og þar hreppti Cuaron líka leikstjóraverðlaun. Engin enskumælandi myndanna kemst í hálfkvisti við hana að listrænu gildi. En Roma er á spænsku, gerist í Mexíkó, var sýnd jafnhliða á Netflix og í bíó. Hún segir á einstæðan hátt sögu ungrar konu af indíánaættum sem er þjónustustúlka hjá millistéttarfjölskydu í Mexíkóborg í kringum 1970.

Alvöru listræn mynd – Bíó Paradís sýnir hana um þessar mundir. Það er rétt að sjá hana frekar í bíó en við hinar endalausu slímusetur framan við viðtækið í stofunni þar sem hætt er við að allt renni saman í einn graut.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt