fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands um bankana fyrir hrun: Sumir vanhæfir, ógæfumenn, misheiðarlegir og misgráðugir

Egill Helgason
Miðvikudaginn 2. janúar 2019 22:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á Facebook-síðu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar spratt nokkuð fjörleg umræða vegna sýknudóms yfir stjórnendum úr Landsbanka sem voru sýknaðir í Héraðsdómi milli jóla og nýárs eins og lesa má í þessari frétt á Mbl.is.  Hannes skrifaði:

Ég þekki fyrrverandi stjórnendur Landsbankans að góðu einu og samgleðst þeim um þessa niðurstöðu.

Þetta vakti talsverð viðbrögð, en í því sambandi eru athyglisverðust orð Þorkels Sigurlaugssonar. Hann starfaði um árabil hjá Eimskip en varð eftir hrun stjórnarmaður í Framtakssjóði Íslands sem sá um að endurreisa fyrirtæki og síðan stjórnarformaður sjóðsins.

Þorkell segist ekki hafa sömu reynslu af stjórnendum Landsbankans og Hannes:

Ég starfaði í einu af þessum fyrirtækjum, Eimskip, sem urðu fórnarlamb yfirtöku Landsbankans þar sem stjórnarmönnum og stjórnendum var skipt út nánast á einni nóttu. Þegar Sigurjón kom og sagði „nú ræð ég“! Forstjóri var settur fljótlega inn, algjörlega vanhæfur maður með vanhæfri stjórn sem tókst með lántökum að sigla skipinu í strand.

Það fer bönkum aldrei vel að fara að yfirtaka fyrirtæki þar sem eigendur og lánveitendur og stjórnendur banka verða allt í einu einræðisherrar. Sama gerðist með önnur fyrirtæki þar sem misjafnlega hæfir stjórnendur komust til valdi með aðstoð bankakerfisins í skjóli afskipta- og eftirlitsleysis Fjármálaeftirlitsins. Hvaða vit var t.d. í því að í september 2003 gátu stærstu bankar landsins, Íslandsbanki og Landsbanki, skipt á milli sín stærstu fyrirtækjum landsins og á sama tíma fór Kaupþing sína leið með annars konar aðferðafræði að setja þjóðina og fyrirtæki landsins nánast í þrot?

Það gleymist nefnilega að bankarnir voru ekki bara að auka skuldir þjóðarinnar heldur „eyðilögðu þeir“ mörg ágæt fyrirtæki og færðu til eignarhald til vildavina. Ég var daglega vitni að þessu og fór sjálfur út úr þessari vitleysu sumar 2004 þegar ég sá hvað var að gerast. Þess vegna sagði ég, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, að ég hefði ekki sömu reynslu og þú. Það var alveg óþarfi að fara að blanda inn í þennan status minn þeim vanmætti og að mörgu leyti harmleik í kringum þessi málaferli. Ég var ekkert að fjalla um þau. Ég held reyndar að sérsakur saksóknari hafi verið algjörlega vanbúin til að takast á við þau verkefni sem uppi voru. Þau voru flókin og án fordæmis og það skýrir m.a. hvað þau tóku langan tíma og hvað margir „sluppu“ að mínu mati vel frá málum.

Hvernig ráðist var inn í fyrirtæki landsmanna var ekki bara dómgreindarleysi heldur vel skipulögð aðför í þeim tilgangi að ná fram fjárhagslegum ávinningi fyrir bankann og starfmenn hans og brjóta upp atvinnulífið, brjóta upp gamla kapítalið eins og það var kallað. Fá fyrirtækin til að skuldsetja sig og fjárfesta í öðrum félögum, helst erlendis. Allt gert af meira kappi en forsjá. Þetta var bara mín reynsla af þessu stjórnendum og því hef ég ekki sömu reynslu og þú. Þú varst eðlilega líka að koma úr allt annarri átt, úr öðru umhverfi, þar sem vinnubrögð og starfsemi þessarra manna var í anda frelsis og frjálshyggju, en það gleymdist að menn voru sumir vanhæfir, voru ógæfumenn, misheiðarlegir og misgráðugir. Frelsi án leikreglna og eftirlits kann aldrei góðri lukku að stýra.“

Þorkell rekur síðan hvernig stjórnunin á Landsbankanum kom honum fyrir sjónir:

„Sigurjón Árnason var sá sem framkvæmdi flesta hluti í Landsbankanum. Hann var klárastur þeirra allra enda vel menntaður. Hann er eldklár og duglegastur allra. Hann kom inn á fundi og keyrði hluti áfram eins og ég vísa þarna til. Hann var með fullt umboð frá bankastjórum LÍ og einhver staðar var sagt að hann hefði fengið að ráða of miklu. Björgólfur hélt sig meira til hlés, en vann auðvitað á bak við tjöldin og stýrði að einhverju leyti aðgerðum. Magnús koma svo seinna inn í félögin í umboði Björgólfs eftir að Sigurjón var búin að gera tilteknar breytingar. Setti bæði Eimskip og Icelandic á hliðina. Arkitektinn í þessu var Sigurjón. Hann vann sólarhringum saman í þessu. Halldór J. Kristjánsson gerði mest lítið, en var notaður til að koma mjúkri góðri ásýnd á bankanna.“

Þorkell ræðir þvínæst  um það  hvernig bankarnir umbyltu fyrirtækjaumhverfinu á Íslandi og höfðu um það samráð, að því hann segir. Vitnar máli sínu til stuðnings í grein sem birtist í Morgunblaðinu í september 2003. Svo talar hann um að hversu illa staðið var að einkavæðingu bankanna – og að alltof seint hafi verið að grípa til aðgerða þegar kreppan skall á 2008:

„Fyrirtækin voru illa undir efnahagshrunið búin þar sem búið var að skuldsetja þau eins og bankana. Sumum þeirra kom ég svo að fyrir tilviljum árið 2010-2018 sem stjórnarmaður og síðan formaður í Framtakssjóði Íslands við að endurreisa þau sem tókst mjög vel, svo sem Icelandair, Vodafone, Advania, Promens, Húsasmiðjuna, N1 og Icelandic, sem reyndar þurfti að búta niður og selja til mismunandi aðila, margra þeirra íslenskra. Arðsemi sjóðsins var þetta verkefni var 22% raunávöxtun á ári sem skilað 47 milljörðum til lífeyrissjóðanna sem smá sárabót fyrir það sem tapaðist í efnahagshruninu.

Ég nefni þetta hér vegna þess að bæði við einkavæðingu bankanna, t.d. framferði Ólafs Ólafssonar og Búnaðarbanka/Kaupþingssamrunans, og svo aftur skömmu síðar, 2003 og 2004, fengu bankarnir frjálsar hendur til að gera hvað sem þeir vildu. Það sem meira er að bankarnir unnu saman í þessum umbreytingum. Algjörlega ótrúlegt eftir á að hyggja. Hvar voru samkeppnisyfirvöld og fjármálaeftirlitið á þessum tíma, sem í dag agnúast út í smæstu atriði? 

Auðvitað voru Björgúlfur og Magnús (að ógleymdum Björgúlfi Thor) ábyrgir fyrir þessu. En stjórnvöld voru ekki stikkfrí. Þetta var allt gert með þegjandi samþykki þeirra og er eitt af því sem mönnum finnst ekki hafa verið gert upp innan Sjálfstæðisflokksins frá þessum tíma. Í mínum huga má rekja upphaf bankahrunsins til einkavæðingar bankanna, þ.e. hvernig að því var staðið (ekki dreift eignarhald og ekki metið hvort viðkomandi aðilar væru hæfir og réðu við verkefni fjárhagslega). Það var heldur ekki heppilegt að hafa framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins sem varaformann stjórnar Landsbankans. Eitthvað sem flokkurinn átti aldrei að samþykkja og Kjartan ekki sjálfur. Myndi vonandi ekki gerast í dag.

Á þessu öllu þurfum við að læra og þessi mál hafa aldrei verið gerð fyllilega upp í sögu Sjálfstæðisflokksins og sögu bankahrunsins eins og Styrmir Gunnarsson hefur stundum nefnt. Ef menn gera þetta ekki upp þá getur svona gerst aftur. Menn hafa verið að horfa allt of mikið til þeirra atburða sem gerðust 2007 og 2008 og kenna heimskreppunni um. Þá var orðið allt of seint að grípa til aðgerða.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt