fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Allt plast af höfuðborgarsvæðinu brennt: „Plastmengun er ekki hérna á Vesturlöndum“

Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Laugardaginn 19. janúar 2019 15:00

Plastmengun í höfum heimsins er alvarlegt vandamál

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslendingar hafa verið duglegir að endurvinna plast frá heimilum sínum og hafa aukið skil á því með hverju árinu sem líður. Umræðan um plast og plastúrgang hefur einnig aukist gífurlega og hafa mörg fyrirtæki landsins brugðist við kröfu sífellt stækkandi hóps í samfélaginu um að minnka plastnotkun. Matvöruverslanir Bónuss hafa meðal annars stigið stórt skref í þessum málum og hætt sölu á öllum plastpokum. Í stað þeirra er boðið upp á lífniðurbrjótanlega poka, sem brotna auðveldlega niður í umhverfinu. Margar borgir í heiminum hafa bannað einnota plast og hafa umhverfissamtök um allan heim hvatt ríkisstjórnir landa til að banna einnig einnota plast.

Ástæðan fyrir þessum aðgerðum er að plast veldur gífurlegum vandamálum í umhverfinu og hafa rannsóknir sýnt að magn örplasts er alltaf að aukast í fæðukeðjunni. Fjöldi fugla- og fiskitegunda er talinn vera í gífurlegri hættu þar sem stöðugt fleiri dæmi sýna að dýrin eru að borða plast í stað fæðu og deyja vegna þess. Magn af plasti í höfum heimsins hefur aldrei verið jafn mikið. Að sögn vísindamanna enda allt að 13 milljón tonn af plasti í höfum heimsins árlega og hækkar sú tala með hverju ári sem líður. Enn hefur ekki fundist lausn á því vandamáli, en vísindamenn vinna hörðum höndum að því að finna leið til að ná plasti úr sjónum.

Höfuðstöðvar Sorpu

Bann í Kína hefur miklar afleiðingar

Þann 18. júlí 2017 sendu kínversk stjórnvöld frá sér yfirlýsingu þess efnis að þau myndu banna innflutning á 24 tegundum af plasti til endurvinnslu ásamt því að setja mjög ströng skilyrði fyrir móttöku á öðru plasti til endurvinnslu. Hefur ákvörðun Kínverja haft gífurleg áhrif um allan heim og hafa safnast upp plastbirgðir víða um heiminn. Mörg lönd fóru strax að vinna í því að finna aðra möguleika varðandi plastið svo það gæti verið endurnýtt í stað þess að lenda í brennslu til orkuvinnslu.

Ísland er ekki undanskilið frá því að bera ábyrgð á því mikla magni af plasti sem er í sjónum, en til dæmis eru öll fiskinet skipaflotans framleidd úr plasti, ásamt því að íslenskir neytendur nota gífurlega mikið magn af plasti daglega. Ísland er þó frábrugðið mörgum ríkjum vegna þess hve auðlindir hafsins skipta efnahag landsins gríðarlega miklu máli. Því er afar brýnt að sjórinn í kringum Ísland haldist hreinn og fiskur sem veiðist innihaldi ekki örplast.

Umhverfisstofnun greindi frá niðurstöðum nýrrar rannsóknar í vikunni. Niðurstöðurnar voru á þá leið að plast hefði fundist í 70% fýla við strendur landsins. Að auki fundust plastagnir í allt að 55% kræklinga í fjörum í kringum landið. Rannsóknin sýnir að plastmengun er vandamál í hafinu í kringum Ísland.

Ekkert plast endurunnið

Sorpa meðhöndlar langmest af plastúrgangi landsins. Árið 2014 flokkuðu íbúar höfuðborgarsvæðisins ríflega 2.400 tonn af plastúrgangi. Hins vegar er talið að það sama ár hafi 3.617 tonn af plasti verið urðuð. Bæði á heimasíðu Sorpu og heimasíðu Reykjavíkurborgar er talað um hvað verði um plastúrgang sem íbúar höfuðborgarsvæðisins samviskulega flokka, þrífa og fara með í grenndargáma. Á heimasíðu Sorpu er sagt að efnið sé pressað og baggað í móttöku- og flokkunarstöð Sorpu til að draga úr rúmmáli og síðan flutt til Svíþjóðar til frekari flokkunar og endurvinnslu/orkuvinnslu. Á heimasíðu Reykjavíkurborgar kemur fram að plastið sé sent til Svíþjóðar þar sem það er annaðhvort endurunnið eða brennt til orkuvinnslu. Hægt er að efnisendurvinna stóran hluta plasts og brennsla til orkunýtingar er ákjósanlegri valkostur en urðun í þeim tilfellum þar sem endurvinnsla er ekki fýsileg af einhverjum ástæðum. Í báðum tilfellum er talað um að plastið sé endurunnið.

Í ljós hefur komið að þetta eru rangar upplýsingar, sem bæði borgin og Sorpa hafa á heimasíðum sínum. Í rauninni er það svo að allt plast er brennt til orkuvinnslu og ekki neitt af því er endurunnið. Þetta hefur verið ferlið hjá Sorpu síðan í sumar. Þetta staðfestir Ragna Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri umhverfis- og fræðsludeildar Sorpu. Í samtali við DV segir Ragna að það sé ekkert leyndarmál að plastið sé brennt og ekkert sé endurunnið. Það hafi komið áður fram í fjölmiðlum. Þegar hún var spurð út í af hverju það væri ekki búið að breyta upplýsingum á heimasíðu Sorpu hvað þetta áhrærir sagði hún að það hafi greinilega misfarist.

„Ég held að önnur málefni séu brýnni“

Í samtali við DV segir Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, að stjórn Sorpu hafi verið upplýst um stöðuna þann 1. júní síðastliðinn. Í fundargerð kemur fram að vonast sé til að búið verði að leysa þetta vandamál í byrjun árs 2019. Það hefur þó ekki gerst enn. Engar athugasemdir komu frá kjörnum fulltrúum sveitarfélaga sem nýta sér þjónustu Sorpu varðandi þetta og samkvæmt fundargerðum Reykjavíkurborgar er ekkert að finna um að borgarstjórn hafi verið kynnt þessi breyting á úrvinnslu á plasti frá borgarbúum.

Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu

Í fundargerðum Reykjavíkurborgar sést að fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa verið duglegir að koma með hugmyndir til að minnka plastmengun í borginni, en flestar hugmyndir þeirra hafa verið slegnar af borðinu. Sem dæmi má nefna hugmynd Sjálfstæðismanna um að setja upp betri síur í fráveitukerfi borgarinnar til að grípa örplastagnir og minnka þar af leiðandi plastmengun í sjó. Sú hugmynd var felld af fulltrúum meirihlutans sem sat í borgarstjórn á síðasta kjörtímabili.

Þegar Björn var spurður hvort það væri forgangsatriði hjá Sorpu að leysa það vandamál sem hefur komið upp vegna endurvinnslu á plasti segir hann að svo sé ekki. „Ég held að önnur málefni séu brýnni. Plast er ekki nema pínulítið magn af úrganginum. Plastmengun er ekki hérna á Vesturlöndum, hún er í Asíu og Afríku,“ sagði Björn.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Birgir í klemmu

Orðið á götunni: Birgir í klemmu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“