fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Þegar Hornið var fullkomin bylting

Egill Helgason
Fimmtudaginn 17. janúar 2019 18:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er í raun erfitt að ímynda sér fásinnið sem var í Reykjavík fyrir fáum áratugum. Það voru nánast engir staðir sem hægt var að setjast inn á opnir á kvöldin. Fólkið fór út og skemmti sér um helgar í stórum vínveitingahúsum sem voru eins og skemmur.

Það þótti gríðarleg lífstílsbylting þegar þetta fór að breytast. Þegar sú saga er rifjuð upp er veitingahúsið Hornið ofarlega á blaði. Það var opnað fyrir fjörutíu árum í Hafnarstræti – í húsi þar sem áður var veiðarfæraverslun Ellingsen. Um það er fjallað í frétt í Morgunblaðinu í dag eins og sjá má hér að ofan.

Þarna var loks kominn staður þar sem venjulegt fólk gat sest inn á að kvöldlagi, pantað sér mat sem var ekki alltof dýr og fengið sér vínglas með. Núorðið þykir þetta sjálfsagt en þá sætti það stórtíðindum. Íslendingar upplifðu svona í erlendum borgum, komu heim og sögðu sögur af ljúfa lífinu þar, en hér heima var allt með öðrum og dauflegri brag. Menn héldu að þetta ætti bara að vera svoleiðis.

Veitingahúsin sem störfuðu voru flest rekin í tengslum við hótel. Ef maður vildi borða á fínu veitingahúsi varð maður helst að sofa í húsinu líka. Þessir staðir voru rándýrir og allt mjög formlegt innandyra. Matseldin var þung og gamaldags. Ungt fólk hætti sér varla þangað inn. Svo voru ódýrari staðir sem voru frekar eins og mötuneyti eða kaffiteríur, líkt og Múlakaffi og Terían á KEA-hótelinu á Akureyri. Þar fékkst ekki vín, fólk kláraði matinn fljótt og fór.

Svo voru til fáein kaffihús. Ég man að á þessum tíma var Mokka opið til hálf tólf á kvöldin. Gestir þar stálust stundum til að lauma lögg af áfengi út í kaffibolla eða pilsnerglas. Hressingarskálinn var opinn fram á kvöld minnir mig líka, þar fengust stórar rjómatertur, en umburðarlyndið gagnvart gestum var lítið. Stundum var þeim vísað út fyrir það eitt að vera búnir að klára veitingarnar og sitja of lengi yfir þeim.

Þegar Hornið opnaði var talað um „léttvínsbyltingu“. Um svipað leyti var opnaður veitingastaðurinn Laugaás. Stúdentakjallarinn við Hringbraut mátti selja léttvín án þess að fylgdi með matur á diski. Fram að því hafði neyslu á áfengi fremur verið beint til sterkari vína. Áratug síðar var bjórinn svo leyfður.

Hornið var líka einn af fyrstu stöðunum á Íslandi til að bjóða upp á pitsur. Pitsurnar voru líka góðar, stóðust samanburð við það sem maður hafði fengið í útlöndum. Matseðillinn var líka allt öðruvísi en tíðkaðist á veitingahúsunum hérna – miklu meira „erlendis“.

Illugi Jökulsson vinur minn skrifaði eftirfarandi orð um Hornið á Facebook í dag:

Gaman að þessu. Unga fólkið nútildags gerir sér sjálfsagt ekki grein fyrir því hvað Hornið var fullkomin bylting í miðbænum fyrir 40 árum. Frá því búðir lokuðu klukkan 6 var miðbærinn nánast alveg steindauður þar til fólk fór að safnast inná örfáa drykkjustaði síðla kvölds. Það byrjaði að breytast með tilkomu Hornsins. Maturinn á Horninu var frábær, andrúmsloftið yndislegt og þótt staðurinn hafi ekkert breyst hefur hann aldrei staðnað. Kærlega til lukku Jakob Magnússon og fjölskylda, og mér finnst að Dagur B. Eggertsson og félagar mættu íhuga að stofna til heiðursborgara Kvosarinnar. Þá ætti Jakob skilið þá viðurkenningu með sínu fólki.

Blaðamaður Morgunblaðsins, H. Halls undirritaði hann greinina, skrifaði sumarið 1979 að þjóðlífsbylting væri að eiga sér stað í Reykjavík.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn