fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Þingmaður VG sagður fara með fleipur í ræðustól

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 21. febrúar 2019 11:30

Ólafur Þór Gunnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG, fullyrti í ræðustól Alþingis í gær að ríkisstjórnin hefði hækkað frítekjumark vegna atvinnutekna elli- og örorkulífeyrisþega úr 25 þúsund krónum í 100 þúsund krónur.

„Þetta er rangt,“ segir Öryrkjabandalag Íslands í tilkynningu og nefnir að frítekjumarkið hafi verið óbreytt frá árinu 2009:

„Ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem setið hefur í rúmt ár, hefur ekki hækkað frítekjumark örorkulífeyrisþega. Frítekjumark örorkulífeyrisþega hefur staðið í stað í áratug. Um þetta er meðal annars fjallað í umsögn ÖBÍ um frumvarp sem kom fram á Alþingi fyrir ári, um afnám skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna.

„Frítekjumarkið hefur verið óbreytt frá árinu 2009. Á meðan frítekjumarkið stendur í stað og laun á vinnumarkaði hækka, þá skila launahækkanir sér ekki til örorkulífeyrisþega.“

Í umsögninni kemur jafnframt fram að frítekjumarkið er nú um 110 þúsund krónur á mánuði. Hefði það hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009 ætti það að nema rúmum 200 þúsund krónum á mánuði.“

Grimmari skerðingar

Þá bendir ÖBÍ á að stór hópur örorkulífeyrisþega þurfi enn að glíma við „grimmar“ skerðingar sem haldi fólki í fátæktargildru:

„Þetta er krónu-á-móti-krónu skerðingin, sem gerir fólki með skerta starfsgetu nánast ókleift að bæta sinn hag, til dæmis með hlutastarfi. Við hverja einustu krónu sem fólk vinnur sér inn eða hefur í lífeyristekjur, er örorkulífeyrir skertur að fullu á móti. Þingmanninum og ríkisstjórn hans yrði sómi að því að hækka frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyrisþega upp í 200 þúsund og afnema krónu-á-móti-krónu skerðinguna strax. Þá hefði þingmaðurinn og ríkisstjórnin eitthvað til að stæra sig af.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt