fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Sýður á Vilhjálmi vegna skattatillagna ríkisstjórnarinnar: „Ávinningur launafólks verður 218 krónur!“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 21. febrúar 2019 19:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna skattkerfisbreytinga er ráðgert að breytingarnar taki gildi í þrepum á árunum 2020-2022. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og varaforseti ASÍ, bendir á að allt tal um létta eigi skattbyrði láglaunafólks um tæpar 7000 krónur á mánuði standist enga skoðun:

„Ekki batnar ruglið í kringum þessa skattatillögur ríkisstjórnarinnar en þetta er að breytast í leikhús fáránleikans.En nú liggur fyrir að það á að frysta persónuafsláttinn í þrjú ár. Munið að þessar skattatillögur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir að létta skattbyrgði á alla um 6.750 krónur sem verður komið til framkvæmda eftir tæp fjögur ár. Það þýðir að skattalækkun er 2.250 krónur sem kemur í þremur áföngum inn fyrst 1. janúar 2020.

Skoðum þetta rugl örlítið. Í dag er persónuafslátturinn 56.447 krónur á mánuði og gefum okkur að verðbólgan verði 3,6% eins og henni er spáð á næsta ári en munum að persónuafslátturinn er verðtryggður. Svona myndi persónuafslátturinn þróast árin 2020, 2021 og 2022 ef verðbólgan verður 3,6% öll árin.

  • Árið 2020 ætti persónuafslátturinn að hækka úr 56.447 í 58.479 kr. eða 2.032. skattalækkunin á að vera 2.250 krónur þannig að ávinningur launafólks verður 218 krónur!

  • Árið 2021 ætti persónuafslátturinn að hækka úr 58.479 í 60.584 kr. eða 2105 kr.. skattalækkunin á að vera 2.250 krónur þannig að ávinningur launafólks verður 145 krónur

  • Árið 2022 ætti persónuafslátturinn að hækka úr 60.584 í 62.765 kr. eða 2.181. skattalækkunin á að vera 2.250 krónur þannig að ávinningur launafólks verður 69 krónur“

Vilhjálmur segir þessar tillögur vera algert rugl:

„Hugsið ykkur að skattatillögur ríkisstjórnarinnar munu skila á þessum þremur árum sem frysting persónuafsláttar mun eiga sér stað skattalækkun sem nemur heilum 432 krónum á mánuði í lok tímabilsins.

Þetta er eitt almesta rugl sem ég á ævi minni hef séð en ég ítreka að ég miða við í þessum forsendum að verðbólga verði 3,6% á ári og persónuafslátturinn verði frystur í 56.477 krónum næstu þrjú árin! Að lokum myndi ég vilja að fjölmiðlar krefðu stjórnvöld hvernig þessar tillögur geti kostað 14 milljarða á þriggja ára tímabili.“

Talnamengun í framsetningu

Marinó G. Njálsson, sem hefur látið sig þjóðmál varða á liðnum árum, skrifar einnig um skattabreytingarnar. Hann segir framsetninguna einkennast af „talnamengun“ og gagnrýnir að þær lækkanir sem boðaðar séu, gangi þvert yfir línuna þar sem um krónutölulækkun sé að ræða:

„Fyrir utan brandarann sem felst í þessum tillögum að skattkerfisbreytingum, þá er mikil talnamengun í framsetningu upplýsinga. Skoðum fyrst lækkanirnar. Hafa skal í huga, að ALLIR fá sömu krónutölulækkun, sem eru með tekjur yfir hinu nýja lægsta þrepi. Það þýðir að engu máli skiptir hvort tekjurnar eru 325.000 kr. á mánuði eða 4.500.000 kr. á mánuði. Upplýsingar í frétt ráðuneytis fjármála og efnahags um annað eru einfaldlega rangar. Tillögurnar eru því EKKI að líta til jafnaðar, eins þar er sagt, frekar að þær auki ójöfnuð hjá þeim sem eru með undir 325.000 kr. á mánuði. Það eru þeir sem eru með lægri tekjur en 325.000 kr. á mánuði, sem fá minni lækkun (nema eitthvað komi ekki fram í frétt ráðuneytisins).

Í þrepaskiptu skattkerfi, þá eru tekjur á sama tekjubili skattlagðar eins. Þannig að hafi einstaklingur 1.500.000 kr. í laun, þá bera (miðað við tillögurnar) fyrstu 325.000 kr. 32,94% í skatt eða kr. 46.296 miðað við að viðkomandi leggi 4% í lífeyrissjóð. Næstu 640.716 kr. bera 36,94% skatta eða 236.680 kr. og síðan þær 474.284 kr. bera 46,24% skatt eða 219.309 kr. Loks leggur viðkomandi 60.000 kr. skattfrjálst í lífeyrissjóð. Leggi viðkomandi hins vegar 6% skattfrjálst í lífeyrissjóð, þá breytast mörkin og skattgreiðslur lækka.

Í talnaleikfimi ráðuneytisins, þá er verið að nota alls konar tölur til að búa til „sanngirni“. Eitt dæmi um það er birt á glæru 5 í kynningu ráðherra (sjá kynninguna hér: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx…). Þar er boðið upp á prósentur í mat og þær notaðar til að halda því fram að 150.000 kr. valdi minni lækkun skatta hjá þeim sem eru með 10,0 m.kr. í árslaun en þeim sem eru með 5,0 m.kr. árslaun, þegar staðreyndin er að báðir hópar fá sömu upphæð í lækkun. Það sem meira er og er alveg stórmerkilegt, að 150.000 kr. lækkun skatta er sögð auka skattbyrði fólks með yfir 12,0 m.kr. í árslaun! Hvernig er hægt að fá svona út? Fólk með 1 m.kr. á mánuði fær nákvæmlega sömu skattalækkun og einstaklingur með 325.000 kr. á mánuði, þ.e. 4% af fyrstu 325.000 kr. eða 12.480 kr. á mánuði. Þar sem sá með 1 m.kr. á mánuði er líklegri til að geta lagt 6% í lífeyrissjóð, þá gæti verið að viðkomandi fái í reynd meiri skattaafslátt, en látum það liggja á milli hluta.

En svo er það rúsínan í pylsuendanum. Til að geta nýtt að fullu kerfisbreytingarnar, þá þarf fólk að hafa 325.000 kr. í tekjur eða meira. Eftir því sem tekjurnar eru lægri, þá verður ávinningurinn minni. Hafi einstaklingur 250.000 kr. er ávinningurinn um 9.630 kr. á mánuði, 7.710 kr. hjá þeim sem er með 200.000 kr., 5.612 kr. hafi viðkomandi 175.000 kr. og 0 kr. séu tekjur undir núverandi skattleysismörkum. Berum það svo saman við það sem ALLIR með laun yfir 325.000 kr. fá.

Það er alveg einskær og ótrúlega ósvífin hræsni að segja að tillögurnar komi þeim tekjulægstu best, þegar þær gagnast þeim síst!

https://www.stjornarradid.is/…/Skattbyrdi-minnkud-a-lagtek…/

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt