fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

VG 20 ára í dag

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 6. febrúar 2019 14:55

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag eru 20 ár liðin frá stofnfundi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Rúgbrauðsgerðinni í Reykjavík. Afmælisveisla hreyfingarinnar fer fram á Grand Hótel í Reykjavík um helgina ásamt flokksráðsfundi og málþingi sem ber heitið: „Staða vinstrisins og hnattrænar áskoranir: Viðbrögð við loftslagsbreytingum og félaglegum ójöfnuði á afturhaldstímum”

Þar verður stjörnugestur á ferð, sjálfur Ed Miliband, fyrrverandi leiðtogi breska Verkamannaflokksins.

Fyrsti formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, nú forseti Alþingis og núverandi formaður, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, verða einnig með erindi.

Mynd 1. Sigga Kristins, Birna Þórðar, Ragnar Aðalsteinsson, Einar Ólafsson. Mynd 2. Drífa Snædal, Silja Snædal (smábarn), Guðmundur Magnússon, Ögmundur Jónasson og Kolbrún Halldórssdóttir.
Mynd 3. Árni Steinar Jóhannsson, Ögmundur, Kolbrún og Þuríður Backmann. Mynd 4. Ögmundur og Þuríður.

Í gömlum fréttum frá stofnfundi VG árið 1999 má sjá að um 400 manns voru mættir á staðinn, en hátt í 500 manns höfðu gerst stofnfélagar. Morgunblaðið sagðist hafa heimildir fyrir því að Steingrímur hygðist bjóða sig fram til formanns og Svanhildur Kaaber í embætti varaformanns.

Steingrímur vildi ekki staðfesta þetta við Morgunblaðið, en Ögmundur Jónasson gaf hinsvegar ekki kost á sér:

„Ég gerði grein fyrir því fyrir nokkru síðan að ég myndi ekki sækjast eftir að gegna formennsku í flokknum en ég mun af alhug styðja þá niðurstöðu sem verður í stjórnarkjörinu og reyna að vinna þessu nýja stjórnmálaafli gagn af alefli.“

Gegn mengandi stóriðju

Í drögum að málefnaskrá hins þá nýstofnaða flokks, sagði að hann legðist gegn stóriðju og stórvirkjunum í þágu mengandi iðnaðar, sem er fróðlegt í ljósi aðkomu Steingríms J. Sigfússonar við þýska iðnfyrirtækið PCC sem er eigandi kísilversins á Bakka við Húsavík. Kísilvinnsla skilar töluverðri mengun út í andrúmsloftið og telst seint til hreins iðnaðar, þó svo hún sé minni en við álframleiðslu.

Þá sagði einnig í drögunum að flokkurinn hyggist beita sér fyrir grundvallarbreytingum á almannatryggingalöggjöfinni, og að flokkurinn vilji breyta þeim hugsunarhætti að þeir sem þiggi greiðslur samkvæmt lögunum séu ölmusufólk og því verði greiðslurnar nefndar laun, en ekki bætur.

Sótt í smiðju kommúnista

DV fjallaði einnig um stofnfundinn á sínum tíma og sjá má hér að neðan. Þar segir að hugmyndir hafi verið sóttar til sænska Vinstriflokksins, en flokkurinn hætti að nota kommúnistanafnið í heiti flokksins árið 1990, við fall járntjaldsins.

Grænt og rautt að hætti Evrópuþjóða

Fjórir kunnir alþingismenn standa í brúnni í nýjum stjórnmálaflokki, Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, sem formlega var stofnaður í gærkvöld í Rúgbrauðsgerðinni, þeim viðkunna veislusal að Borgartúni 6. Þetta eru þau Kristín Halldórsdóttir, sem kemur frá Kvennalista; Ögmundur Jónasson, sem situr sem óháður á þingi en fór fram með lista Alþýðubandalagsins; og síðan eru tveir gamlir alþýðubandalagsmenn: Hjörleifur Guttormsson og Steingrímur J. Sigfússon. Sér til halds og trausts fengu þeir línuna frá sænska vinstriflokknum, öldnum flokki en róttækum.

Fundur var settur klukkan 17.45 en að loknu setningarávarpi var Arnar Jónsson með upplestur. Ungliði, Drífa Snædal, ávarpaði samkomuna, þá var leikin tónlist, og loks kom ávarp sænska Evrópuþingmannsins Jonasar Sjöstedt, sem er fulltrúi Vánstrepartiet, 82 ára gamals flokks,sem fékk 12% atkvæðanna í Svíþjóð í fyrra og 43 þingsæti í Riksdagen. Eftir matarhlé var síðan skipað í starfsnefndir, rætt um lög flokksins, lögð fram drög að stefnuskrá, stjórnmálayfirlýsingu og kosningaáherslum. í dag heldur vinnan áfram og hinn sænski gestur flokksins mun flytja erindi og svara fyrirspurnum. Flokkur hans er róttækur, og flokksleiðtoginn, hin fimmtuga Gudrun Schyman, er ærið litrík persóna og oft í fréttum sænskra fjölmiðla fyrir ýmis uppátæki.

Að lokinni umræðunni, kl. 14.30 í dag, er ætlunin að ganga til stjórnarkjörs og kjósa 9 manna stjórn. Steingrímur J. Sigfússon sagði í gær að nokkur hundruð manns hefðu nú þegar komið til liðs við hina nýju hreyfingu. Þar á meðal væri margt fólk sem ekki hefur áður skipt sér af pólitík, en gefur nú kost á sér vegna þeirrar áherslu sem lögð er á umhverfismál hjá hinum nýja flokki. Umhverfismál eru önnur meginstoð hins nýja flokks – brennheit vinstri stefna í pólitík hin. Ekki er búið að ganga frá framboðum Vinstrihreyfingarinnar, en alls staðar eru framboð undirbúin.

Línur að skýrast í pólitík

Pólitískt umhverfi á íslandi er að breytast. Sjálfstæðisflokkurinn aðhyllist hægri stefnu, Framsóknarflokkur telst vera á miðju en hallast mjög að samstarfsflokknum í hægri hugsun. Lýðræðisflokkar Sverris Hermannssonar og Bárðar Halldórssonar eru líka hægri flokkar í hugsun. Og nú kemur róttækur vinstri flokkur sem sækir hugmyndir til hins aldna sænska vinstriflokks, sem hefur verið flokkaður sem kommúnistaflokkur. Samfylkingin er auðvitað stóri krataflokkurinn sem hlaut að fæðast á Íslandi eins og í öðrum Evrópulöndum. Kjósendur í vor þurfa að taka til í hugarfylgsnum sínum, við þeim mun blasa spánýtt pólitískt umhverfi.

Leiðin heim

Því hefur verið haldið fram að Vinstrihreyfingin – grænt framboð eigi eftir að sækja í heimahagana á ný.

„Það er spurning hver væri þá að fara hvert. Mér finnst það merkilegt að menn skuli umsvifalaust komnir með vangaveltur um slíkt. Eigum við ekki að leyfa þessum vetri að líða – og kosningunum. Þá getum við í framhaldinu velt því fyrir okkur hvaða skilaboð kjósendur séu að senda með atkvæði sínu. Þarna er nýtt landslag í íslenskri pólitík að myndast. Við skulum hlusta á raddir kjósendanna og taka síðan mark á því sem þeir segja. Ég hef trú á skynsemi kjósenda, þeir reyna að ráðstafa atkvæðinu meðvitað,“

sagði Steingrímur J. Sigfússon. Nýja framboðið mun stilla upp í öllum átta kjördæmunum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Enn sérstakt áhættuálag á Ísland hjá erlendum fjárfestum – krónan þjóðhagslegt vandamál?

Guðjón Auðunsson: Enn sérstakt áhættuálag á Ísland hjá erlendum fjárfestum – krónan þjóðhagslegt vandamál?
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Rétthugsun?

Óttar Guðmundsson skrifar: Rétthugsun?