fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Sanna segir einkavæðingatillögu Sjálfstæðisflokksins vera „rugl“: „Hugsaði bara ó nei, þetta gengur alls ekki“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 6. febrúar 2019 16:30

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segir tillögu Sjálfstæðisflokksins um að bæta rekstur sjö bílastæðishúsa borgarinnar vera „rugl“.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að „fela umhverfis- og skipulagssviði, í samráði við Bílastæðasjóð, að skoða bestu leiðir varðandi rekstur þeirra sjö bílastæðahúsa sem Reykjavíkurborg rekur í miðborginni,“ var samþykkt í borgarstjórn í gær.

Sanna er ekki sátt við að reksturinn færist á hendur einkaaðila:

„Við nánari eftirgrennslan snéri tillagan að því að fela einkaaðilum rekstur bílastæðahúsanna. Hugsaði bara ó nei, þetta gengur alls ekki. Svo var meirihlutinn og Sjálfstæðisflokkurinn greinilega búin að koma sér saman um breytingartillögu sem þau samþykktu og þó hún tali ekki með eins skýrum hætti um að koma þessum rekstri til einkaaðila, þá finnst mér hugmyndir um að slíkt geti átt sér stað, alls ekki koma til greina.“

Sanna segist hafa „að sjálfsögðu“ greitt atkvæði gegn tillögunni og á Facebook gerir hún myllumerkið  #Hvaðaruglerþetta?

Til hagsbóta fyrir borgarbúa

Sjálfstæðismenn segja hinsvegar að ávinningurinn af útvistun, sem er annað orð yfir einkavæðingu, blasi við:

„Einkaaðilar hafa gjarnan meira svigrúm og sveigjanleika til að auka þjónustu við notendur bílastæðahúsanna, t.d. hvað varðar lengd opnunartíma. Því væri það til hagsbóta fyrir alla borgarbúa og borgarsjóð að fela einkaaðilum rekstur húsanna. Jafnframt er fyrirséð að borgin mun hafa af þessu auknar tekjur,“

segir Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og flutningsmaður tillögunnar, í tilkynningu frá flokknum í gær, hvar hún lagði áherslu á að kannaðir yrðu möguleikar á rekstrarútboði.

„Tillagan gerir ráð fyrir að fela umhverfis- og skipulagssviði, í samráði við Bílastæðasjóð, að skoða bestu leiðir varðandi rekstur þeirra sjö bílastæðahúsa sem sjóðurinn rekur í miðborg Reykjavíkur, þar með talið rekstrarútboð, með það fyrir augum að bæta nýtingu, efla þjónustu og auka hagkvæmni. Í tillögunni segir jafnframt að einnig skuli rýna fyrirkomulag rekstrarins út frá markmiðum borgarinnar varðandi stýringu bílastæða, bætta nýtingu borgarrýmis, bílastæðastefnu og stefnu aðalskipulags. Þá er gert ráð fyrir að sviðið skili tillögum til skipulags- og samgönguráðs fyrir 1. ágúst 2019,“

segir í tilkynningu Sjálfstæðisflokksins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt