fbpx
Laugardagur 16.febrúar 2019
Eyjan

Pálmatrén eru undarlega sett – en borg án lista er ömurlegur staður

Egill Helgason
Fimmtudaginn 31. janúar 2019 10:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umræðan um pálmatrén í glerhjúpnum fer í ýmsar áttir og svosem ekki allar jafn óvæntar. Það hefði ekki þurft neinn spámann til að sjá að þetta þætti allt hið vandræðalegasta mál – yrði fjarskalega illa tekið. Eiginlega hlýtur maður að spyrja um veruleikatengingu þeirra sem datt í hug að velja þetta verk til uppsetningar, læsi þeirra á samtímann. Borgarstjórnin hefur verið í nægum vandræðum fyrir, en þarna eru komin dönsku puntstráin líkt og í tíunda veldi.

Jú, líklegast er að verkið sjúskist fljótt, það verði erfitt að halda glerhjúpnum hreinum og fallegum í saltroki og ryki, og lífslíkur pálmatrjánna eru alveg mátulegar eins og bæði garðyrkjufræðingar og veðurfræðingar benda á. Gróðurhús eru heldur ekki alveg ný af nálinni á Íslandi.

En svo er það verkið sjálft. Það er vissulega eftir þekkta listakonu, norska sem starfar í Þýskalandi. Karin Sander heitir hún og iðkar að setja alls kyns hluti inn í glerhjúpa. En í rauninni er þetta það sem er kallað kits. Það dansar á mörkum þess að vera fjarskalega ósmekklegt, á jaðri hallærislegheita, eins og eitthvað sem maður gæti séð í verslunarmiðstöð.

Og viti menn – það eru pálmatré í Smáralind.

Í þessu er kannski fólgin ákveðin tvíræðni, en hún skilar sér tæplega í samhengi þessa nýbyggðs hverfis í Reykjavík þótt það kunni að líta ágætlega út á teikningu arkitekta. Það er „illa rætt og undarlega sett“ eins og segir í þekktu kvæði. Jón B. K. Ransu sem hefur skrifað mikið um myndlist setur þetta til dæmis fram á Facebook:

„Sennilega hápólitískt verk sem fjallar um innflytjendamál og hlúa þurfi að þeim málum og leggja í það fullt að fé. Örugglega ekki þægilegt að vera pálmatré á norðurhjara veraldar.  Aðallega finnst mér þetta samt lítt spennandi djók.“

Vegna þess hversu undarlega er að þessu staðið finnur maður allt í einu gjósa upp andúð á listaverkum á almannafæri. Líkt og það sé skelfilegt bruðl sem við Íslendingar höfum alls ekki efni á. Samskiptamiðlar eru náttúrlega gróðrarstía fyrir slíka forpokun.

Staðreyndin er auðvitað sú að hér eins og í öðrum þokkalega siðmenntuðum löndum hafa verið sett upp listaverk í almannarýminu í gegnum tíðina. Það nær alla leið aftur í fornöld. Menn hafa almennt ekki talið það eftir sér. Einu sinni voru það styttukarlar, eins og Hannes og kóngarnir og Jónas,  svo höggmyndir eftir Einar, Ásmund og Sigurjón og síðar Rúrí og Magnús Tómasson. Hin stórkostlega þúfa eftir Ólöfu Nordal sem er úti á Granda og setur mikinn svip á umhverfið.

Það er reyndar annað sem er umhugsunarvert. Á árum áður, þegar þjóðin var blankari en hún er nú, var miklu meira lagt upp úr því að skreyta hús með listaverkum. Á Landsspítalanum og Austurbæjarskólanum eru lágmyndir – þessi hús voru byggð á tíma kreppunnar. Reykjavíkurapótek með stigaganginum fagra þar sem eru styttur eftir Guðmund frá Miðdal. Mósaíkmynd Gerðar Helgadóttur á Tollstöðinni. Verk Sigurjóns Ólafssonar á Búrfellsstöð.

Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur skrifar litla hugvekju um þetta á Facebook. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga hvað sem manni finnst um pálmatré Karin Sander.

„Ekki það að ég sé eitthvað sérstaklega ánægð með þessi pálmatré en borg án lista væri ömurlegur staður. Það er lika til eitthvað sem heitir umhverfisálfræði og það er alveg skýrt þar að fallegt umhverfi eykur vellíðan fólks. Ef við höfum ekki efni á að fegra umhverfi okkar með list hefur það enginn.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 22 klukkutímum

Hörður kallar eftir leiðréttingu: „Hér hefur orðið meiriháttar dómgreindarbrestur“

Hörður kallar eftir leiðréttingu: „Hér hefur orðið meiriháttar dómgreindarbrestur“
Eyjan
Í gær

Sönn hetja úr blaðamannastétt – og svo annar sem var argasti lygari

Sönn hetja úr blaðamannastétt – og svo annar sem var argasti lygari
Eyjan
Í gær

Erna Ýr óánægð með að Blaðamannafélagið hafi ekki fjallað um mál hennar og Snæbjarnar

Erna Ýr óánægð með að Blaðamannafélagið hafi ekki fjallað um mál hennar og Snæbjarnar
Eyjan
Í gær

Vísar lögbroti Reykjavíkurborgar til dómsmálaráðuneytisins: „Vil vita hvort þessar kosningar hafi verið lögmætar“

Vísar lögbroti Reykjavíkurborgar til dómsmálaráðuneytisins: „Vil vita hvort þessar kosningar hafi verið lögmætar“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þetta kostar hringferð Sjálfstæðisflokksins skattgreiðendur á Íslandi – Ferðast um á VIP rútu

Þetta kostar hringferð Sjálfstæðisflokksins skattgreiðendur á Íslandi – Ferðast um á VIP rútu
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Arnarlax heldur starfsleyfinu

Arnarlax heldur starfsleyfinu
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Segir hagnaðardrifin leigufélög nauðsynleg og spyr hvort „ofsinn“ á netinu leiði til hærri leigu

Segir hagnaðardrifin leigufélög nauðsynleg og spyr hvort „ofsinn“ á netinu leiði til hærri leigu
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Íslenskum stjórnvöldum sagt að virða niðurstöðu EFTA dómstólsins – Hafa tvo mánuði til að bregðast við

Íslenskum stjórnvöldum sagt að virða niðurstöðu EFTA dómstólsins – Hafa tvo mánuði til að bregðast við