fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Heimskuleg milliríkjadeila?

Egill Helgason
Þriðjudaginn 22. janúar 2019 11:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mörgum virðist það eflaust einhver heimskulegasta milliríkjadeila sem um getur hvort ríki á Balkanskaga fái að heita Makedónía. Reyndar er  ráðgert að það heiti Norður-Makedónía, en hin síðari ár hefur það verið kallað upp á ensku FYROM – fyrrverandi júgóslavneska makedónska lýðveldið.

En í Grikklandi er þetta mikið hitamál. Það voru mikil mótmæli vegna þessa í Aþenu nú um helgina og er búist við að þau geti haldið áfram. Mótmælin sjálf hafa líka vakið deilur, það er rifist um hversu margir mættu – sumir segja að langferðabílar sem fluttu fólk í mótmælin norðan úr landi hafi verið hálf tómir – og svo þótti lögregla beita ótæpilega bæði kylfum og táragasi.

Í hugum Grikkja er Makedónía hérað norðanlands – þaðan var upprunninn þeirra fræknasti sonur, Alexander mikli. Þarna eru semsagt þjóðernistilfinningar í húfi og þá er skynsemin ekki alltaf með í för. Nútíma Grikkir eru mjög blandaðir ýmsum þjóðum og þjóðabrotum sem hafa farið um sunnanverðan Balkanskaga í aldanna rás, þeir eru ekki endilega beinir afkomendur hinna glæstu Forn-Grikkja, en það breytir því ekki að skoðanakannanir sýna að meirihluti Grikkja er mótfallinn þessari nafngift.

Fyrir íbúa ríkisins sem fær þá að heita Norður-Makedónía er þetta mikilvægt, því deilan við Grikki hefur valdið því að þeir hafa haft takmarkaðan aðgang að alþjóðasamstarfi og hvorki getað gengið í Nató eða Evrópusambandið.

En undir kraumar uppgjör í grískum stjórnmálum. Það er Syriza, flokkur Tsipras forsætisráðherra, sem stendur að þessu samkomulagi. Það verða kosningar í Grikklandi í haust og með þessu vonast Tsipras til að geta fylkt um sig miðjuöflunum og myndað stjórn með þeim. Þetta gæti verið það sem hann vantar upp á til að ná endurkjöri.

Hægri flokkurinn, Nea Demokratia, ekki ólíkur Sjálfstæðisflokknum íslenska, hefur forskot í skoðanakönnunum en hann er klofinn gagnvart málinu. Það er freisting fyrir flokkinn að notfæra sér deilurnar um Makedóníu og tilfinningarnar sem þær vekja – en hins vegar er allsendis óvíst að flokkurinn myndi breyta öðruvísi en Tsipras ef hann kæmist til valda.

Atkvæðamest í mótmælunum hafa hins vegar verið öfl sem eru lengst til hægri. Hægriöfgaflokkurinn Gyllt dögun er með nokkuð stöðugt fylgi á bilinu 7-8 prósent í skoðanakönnunum þrátt fyrir að margir leiðtogar flokksins hafi verið handteknir fyrir ýmis óhæfuverk. Þeir eru í raun hreinræktaðir fasistar – en það er reyndar svo skrítið að í Grikklandi er líka til gamall kommúnistaflokkur, KKE, hann er marx-leníniskur, sem er með nokkuð jafnt fylgi á bilinu 6-7 prósent.

Eins og tíðkast í mótmælum núorðið var innan um hópur fólks sem reyndi að beita grófu ofbeldi. Sumir báru grímur og huldu andlit sín. Lögregla gerði upptæk bæði vopn og sprengiefni. Fyrir Nea Demokratia er vandræðalegt að láta bendla sig við slíkt. Atkvæðagreiðsla um Makedóníumálið verður væntanlega í gríska þinginu nú á fimmtudag. Það gæti orðið nokkuð tæpt hver úrslitin verða.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“