fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Styrmir spyr hvenær „vinstri sinnaða menntaelítan“ hafi misst tengslin við verkalýðshreyfinguna

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 16. janúar 2019 15:11

Styrmir Gunnarsson og Katrín Jakobsdóttir. Samsett mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, ritar um þá þróun sem hefur átt sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar hér á landi, en hann segir hina upprunalegu verkalýðsflokka yfirtekna af þeim þjóðfélagshópi sem nefndur hefur verið vinstri sinnuð menntaelíta. Hann segir sömu þróun hafa átt sér stað í Evrópu:

„Það sama hefur gerzt í mörgum öðrum Evrópulöndum og þess vegna hefur sú óvænta þróun orðið í sömu löndum að kjósendur, sem teljast tilheyra svonefndum „verkalýðsstéttum“ hafa gengið til liðs við nýja flokka á hægri kanti stjórnmálanna og eru sennilega í hópi fylgismanna Trumps vestan hafs. Hvers vegna hefur þetta gerzt? Sennilega vegna þess að upplifun þessa kjósendahóps er sú að vinstri sinnaða menntaelítan hafi gleymt þeim. Svar hennar hefur verið að stimpla þá flokka sem „pópúlíska“ öfgaflokka til hægri. Aðrir líta svo á að „pópúlismi“ sé merkimiði, sem hin nýja pólitíska yfirstétt Vesturlanda hafi sett á stefnumál, sem henni séu ekki að skapi (Francis Fukuyama).“

Styrmir segir að þó svo vinstri menntaelítan hafi yfirtekið bæði VG og Samfylkingu, eigi það ekki við Sjálfstæðisflokkinn, sem fyrir hálfri öld var annar stærsti verkalýðsflokkur landsins, mælt í fjölda fulltrúa á þingum ASÍ. Hann spyr í framhaldinu hvort hugsanlegt sé að þessi þróun í kjósendafylgi hafi opnað tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hvort það sé ekki verðugt umræðuefni fyrir „verkalýðsarm Sjálfstæðisflokksins,“ sem enn sé til.

Vinstri grænir og verkalýðshreyfingin

„Hvenær missti VG tengslin við verkalýðshreyfinguna?“ spyr Styrmir og telur skýringuna að finna í aðildarumsókninni að Evrópusambandinu og hjá Jóhönnu Sigurðardóttur:

„Þeir sem vel þekkja til telja að þáttaskil hafi orðið, þegar VG féllst á kröfu Samfylkingar um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þá hafi áhrifamenn úr verkalýðshreyfingunni horfið án þess að hafa hátt um. Sumar aðgerðir vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hafi einnig átt hlut að máli, þ.e. aðgerðir sem komu þungt niður áláglaunafólki. Að vísu eru skiptar skoðanir um tildrög slíkra aðgerða. Sumir telja að sú ríkisstjórn hafi verið þvinguð til þeirra af Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Aðrir að forysta VG hafi notað þá skýringu sjálfri sér til varnar en að í raun hafi þær aðgerðir verið heimatilbúnar. Þá er rétt að geta þess, að til eru þeir sem telja að enn séu til staðar einhver tengsl á milli VG og einhverra hópa í röðum opinberra starfsmanna.“

Styrmir segir að allt þetta séu vísbendingar sem komi þeim að gagni er áhuga hefðu á þeim kjósendahópum sem um ræðir og ítrekar um tilurð „verkalýðsarms Sjálfstæðisflokksins“ sem hann segir að enn sé virkur í starfi.

Allt eru þetta vísbendingar, sem kunna að koma þeim að gagni, sem mundu hafa áhuga á að sækjast eftir þeim kjósendahópum, sem hér er um að ræða.

„Um skeið mátti velta því fyrir sér, hvort Miðflokkurinn hefði möguleika á að fylla þetta skarð og verða það sem kallað er „pópúlískur“ flokkur á hægri kantinum og keppinautur við Sjálfstæðisflokkinn um þessa kjósendahópa en í ljósi þess að sá flokkur er nú mjög laskaður eru minnkandi líkur á því. Hitt fer ekki á milli mála að í ljósi þessarar framvindu hefur VG ekki sama þjóðfélagslega vægi og t.d. Alþýðubandalagið hafði á sínum tíma,“

segir Styrmir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt