fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

100 ár frá morðinu á Rosu Luxemburg

Egill Helgason
Þriðjudaginn 15. janúar 2019 11:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag, 15. janúar, eru liðin hundrað ár frá því að kommúnistaforingjarnir Rosa Luxemburg og Karl Liebknecht voru myrt í Berlín. Þetta var stóratburður í sögu kommúnistahreyfingarnar – við dauða sinn urðu þau að einhverjum helstu píslarvottum kommúnista í heiminum. Nöfnum þeirra hefur verið haldið á lofti síðan – einkum nafni Rosu Luxemburg. Í gömlu austurblokkinni, sérstaklega Austur-Þýskalandi, voru þau nánast í guðatölu.

Morðin á þeim voru endirinn á þýsku byltingunni sem braust út  í blálokin á fyrri heimsstyrjöldinni. Í þeirri miklu ólgu sem þá ríkti leit um tíma út fyrir að kommúnistar næðu völdum í Þýskalandi. Það gerðu þeir um tíma í Ungverjalandi. En það voru Sósíaldemókratar undir forystu Friedrichs Ebert sem komust til valda, þótt þeir kæmu upprunalega úr sömu hreyfingu og kommúnistar var fullur fjandskapur þarna á milli. Sósíaldemókrötum var síðar kennt um margháttuð svik og að þeim var sótt bæði frá vinstri og hægri – svikin við þýska alþýðu en líka við sjálft Þýskaland – það var hin svokallaða „rýtingsstungugoðsögn“ sem Hitler notfærði sér.

Liebkneckt var skotinn í skemmtigarðinum Tiergarten en Rosu Luxemburg var rænt – líki hennar var svo hent í Landwehr skurðinn í Berlín. Það fannst ekki fyrr en í byrjun sumars 1919. Það voru meðlimir í Freikorps, vopnuðum sveitum uppgjafarhermanna sem myrtu þau – þeir voru líka notaðir til að bæla niður byltinguna með hörku. Sósíaldemókratar gátu notfært sér Frikorps-sveitirnar, en á sinn hátt reyndist það dýrkeypt, því segja má að upp úr þeim hafi sprottið hreyfing nasista.

Þegar byltingartilraunirnar í Þýskalandi höfðu verið kæfðar var ljóst að kommúnisminn myndi ekki breiðast út um heiminn eins og bolsévíkar í Rússlandi töldu að myndi gerast. Í raun hrundi ein meginstoð kenninga þeirra. Eftir það þurftu þeir að standa á eigin fótum – kommúnismi komst á í landi sem samkvæmt hinum marxísku fræðum var alls ekki tilbúið undir það. Samkvæmt teoríunni átti bylting í hinu iðnvædda Þýskalandi að verða lykillinn að framrás kommúnismans, Þýskaland skyldi verða forysturíkið enda var þar að finna sjálfan brunn hugmyndanna. Og þar var jú raunverulega verkalýðsstétt, ólíkt því sem var í hinu frumstæða landbúnaðarsamfélagi í Rússlandi. Rússlandi var í raun ekki hægt að bylta nema með skefjalausu ofbeldi og einræði.

Rosa Luxemburg var pólsk að uppruna en starfaði innan þýsku sósíalistahreyfingarinnar, fyrst innan flokks Sósíaldemókrata, en í upphafi heimsstyrjaldarinnar stofnuðu þau Karl Liebknecht Spartakusarhreyfinguna – kennda við uppreisnarþrælinn í Rómarveldi. Sósíaldemókratar höfðu þá gengist inn á stríðsreksturinn sem Luxemburg og Liebknecht álitu vera lið í heimsvaldastefnu auðvaldsins og verkafólki algjörlega óviðkomandi. Það var á þessum árum að vinstri hreyfingin klofnar í lýðræðisjafnaðarmenn annars vegar og kommúnista hins vegar.

Rosa Luxemburg var af gyðingaættum. Hún var smávaxin og stríddi við fötlun, gekk hölt. En hún skaraði fram úr í karlasamfélagi vegna mælsku sinnar og ritstarfa. Hún var 47 ára þegar hún dó. Það er spurning hverju hún hefði komið í verk ef hún hefði lifað, eins og áður segir snerist hún gegn sósíaldemókrötum en hún var líka mjög gagnrýnin á Lenín og rússnesku bolsévíkana og skeytingarleysi þeirra um lýðræðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt