fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Dökk mynd dregin upp af bráðamóttöku Landspítalans

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 8. janúar 2019 18:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landlæknisembættið hefur birt skýrslu sína um hlutaúttekt á stöðunni á bráðamóttöku Landspítalans eftir að alvarleg staða skapaðist þann 6. desember. Í tilkynningu embættisins segir að helstu niðurstöðurnar séu þær að bráðamóttöku Landspítalans takist vel að sinna bráðahlutverki sínu. Ekki sé töf á því að þeir sem veikastir eru fái þjónustu og meðaldvalartími þeirra sem útskrifast heim hafi ekki lengst, er 4-5 klst. sem sé innan viðmiða.

Vandinn liggi í þjónustu við sjúklinga sem bíða eftir innlögn en meðaldvalartími sjúklinga sem bíða innlagnar á deildir spítalans hefur lengst og er nú 23,3 klst. en æskilegt viðmið er 6 klst. Ástæður þessa eru einkum tvær og endurspeglast í skorti á virkum legurýmum; annars vegar sú að einstaklingar sem lokið hafa meðferð á spítalanum geta ekki útskrifast þar sem úrræði skortir utan hans og er þar einkum um að ræða hjúkrunarrými fyrir aldraða. Þannig bíða nú 53 einstaklingar á bráðadeildum og endurhæfingu. Hins vegar hefur þurft að loka legurýmum á bráðalegudeildum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og eru nú 35 rúm lokuð vegna þess.

Ýmsu ábótavant

Nefnt er að sjúklingar dvelji lengi á deildum, allt að einu ári, þar sem önnur úrræði hafi brugðist. Þá er sagt að stjórnendur séu uggandi yfir langvarandi vinnuálagi starfsfólks, sem leitt hafi til uppsagna og að stöðugt áreiti, aukavaktir hjá öllum stéttum, bráðleiki og mikið álag sé „komið yfir mörk skynsemi.“

Í skýrslunni undir liðnum öryggi, er dregin upp dökk mynd af stöðu mála.

„Sá fjöldi sjúklinga sem dvelur á BMT í bið eftir innlögn (sjá mynd 3) leiðir til þess að hver hjúkrunarfræðingur sinnir of mörgum sjúklingum eins og áður sagði. Við slíkar aðstæður getur hætta á atvikum aukist. Eftirliti getur orðið ábótavant, hætta á þrýstingssárum og byltum getur aukist, hætta á óframkvæmdri hjúkrun (e. missed nursing care) getur aukist, erfiðara er að tryggja öryggi í lyfjaumsýslu, lyfjafyrirmælum og lyfjagjöfum, grunnþörfum kann að vera miður sinnt og erfiðara að halda uppi sýkingavörnum svo vel sé. Þá er deildin verr í stakk búin til að taka á móti hópslysi við slíkar aðstæður.

Þess má geta að Hjartagáttin var varadeild (e. backup unit) ef til hópslyss kæmi og eftir lokun hennar þarf að endurskoða viðbragðsáætlun LSH vegna þessa. Það hefur ekki verið gert. Gluggalaust rými getur valdið því að sjúklingar tapi áttum og fái dægurvillu. Tækjabúnaður deildarinnar, svo sem hjartasíritar, dugar á stundum ekki fyrir þann mikla fjölda sjúklinga sem oft dvelur á deildinni. Þann dag sem vettvangsheimsókn landlæknisfór fram lágu 14 sjúklingar á göngunum. Þegar svo margir eru saman í þannig rými er erfitt að taka sögu hjá sjúklingunum og fagfólk veigrar sér við að spyrja ákveðinna spurninga og/eða skoða sjúklinga fyrir framan annað fólk sem getur aukið hættu á yfirsjónum. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að við skoðun sjúklinga á gangi missir heilbrigðisstarfsfólk í 30% tilfella af mikilvægum upplýsingum um viðkomandi sjúkling. Augljóst er að friðhelgi einkalífs er ekki tryggð við aðstæður sem þessar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt