fbpx
Miðvikudagur 16.janúar 2019
Eyjan

Deilt um Kryddsíld: Hver er að segja satt? Hrannar og Jóhannes eða Skarphéðinn?

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 8. janúar 2019 20:00

Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóra hjá RÚV og tveimur fyrrverandi aðstoðarmönnum forsætisráðherra, sem og fjölmiðlamönnum ber ekki saman um hvort að RÚV hafi borist beiðni um að færa upptöku áramótaávarps forsætisráðherra til að skarast ekki við Kryddsíldina. Tveir aðstoðarmenn staðfesta við Eyjuna að slíkt hafi verið gert.

Skarphéðinn Guðmundsson sendi bréf til Fréttablaðsins til að svara leiðara Ólafar Skaftadóttur, ritstjóra, um upptöku áramótaávarps forsætisráðherra. Ólöf fullyrti að RÚV hefði ítrekað hafnað því að færa upptöku ávarpsins til svo ekki kæmi til skörunar við beina útsendingu Kryddsíldarinnar, en forsætisráðherra er iðulega afar seinn í Kryddsíldina sökum áramótaávarpsins. Sama gerði Heimir Már Pétursson og Kristín Þorsteinsdóttir. Í svari sínu segir Skarphéðinn: „Í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag og í leiðara Fréttablaðsins í dag var því ranglega haldið fram að ítrekað hefði verið óskað eftir því við RÚV að þessu fyrirkomulagi yrði breytt og ávarp forsætisráðherra væri tekið upp á öðrum tíma.  Þetta er ekki rétt. Engar beiðnir eða fyrirspurnir, hvorki formlegar né óformlegar, hafa borist RÚV um breytingar á þessu fyrirkomulagi, a.m.k. ekki síðustu ár.“

„Orðsendingin frá dagskrárstjóranum hér að neðan dæmir sig sjálf og er ekki sannleikanum samkvæmt. Það er hryggilegt að forsvarsmönnum sjálfs Ríkisútvarpsins finnist svona framkoma boðleg. Leiðari blaðsins stendur,“ sagði Ólöf í svari við bréfi Skarphéðins.

Í samtali við blaðamann stendur Skarphéðinn fast við að engin beiðni um að færa til upptökuna hafi borist síðan hann hóf störf sem dagskrárstjóri árið 2012. Eyjan hefur fengið staðfest að leitast var eftir því að færa upptökuna bæði í forsætisráðherratíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Jóhönnu Sigurðardóttur. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra á árunum 2013-2016 og Jóhanna Sigurðardóttir frá 2009-2013. Skarphéðinn tók, líkt og áður segir, við stöðu dagskrárstjóra árið 2012.

„Ég óskaði eftir breytingu á þessum upptökutíma í tvígang við RÚV fyrir hönd forsætisráðherra. Í bæði skiptin lá ljóst fyrir að ástæðan væri skörun við útsendingu Kryddsíldar, sagði Jóhannes Þór Skúlason í samtali við Eyjuna, en hann var aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs þegar hann gegndi embætti forsætisráðherra. „Ég ræddi þetta tvenn áramót við upptökustjórann og fleiri hjá RÚV,“ sagði Jóhannes og minnir að árin hafi verið 2014 og 2015. „Annað árið gerði ég nokkuð einarða tilraun til að fá þessa upptöku færða fram um dag, til 30. desember, en fékk þau svör að það gengi ekki upp vegna skipulags á stúdíótímum.“

Hrannar Björn Arnarsson var aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún var forsætisráðherra og hann staðfestir að RÚV hafi verið beðið um að færa upptökuna. „Við gerðum tilraun til að breyta þessu að minnsta kosti einu sinni eða tvisvar,“ sagði Hrannar, en beiðninni var hafnað með vísan til skipulagsvanda.

Skarphéðinn sagði í samtali við blaðamann að slíkar beiðnir hefðu undir öllum kringumstæðum átt að berast honum sem dagskrárstjóra. „Ég fullyrti að það hefði aldrei verið farið þess á leit við mig sem dagskrárstjóra eða neinn í kringum mig. Það getur vel verið að það hafi gerst einhvern tímann hér á árum áður, en það er ekkert sem við getum gert í. Það eina sem ég sagði er að það var ekki leitað til okkur fyrir þessa Kryddsíld og það hefur ekki verið gert síðustu árin á meðan ég hef verið dagskrárstjóri.“

Þegar fullyrðing Jóhannesar um að í tvígang hafi slíkri beiðni verið beint til útsendingarstjóra RÚV var borin undir Skarphéðinn kannaðist hann ekki við að slíkt hefði átt sér stað: „Ég dreg það mjög í efa að þetta erindi eða þessi beiðni hefði borist útsendingastjóra án þess að það hann hefði borið það undir mig því útsendingastjórar taka ekki þessar ákvarðanir.“

„Það var ekkert formlegt erindi sem barst til mín. Við erum alveg búin að rekja þetta og meira að segja ráðfæra okkur við ráðuneytið í þeim efnum og það hefur aldrei neitt formlegt erindi borist. Við færum ekki að fullyrða neitt svoleiðis án þess að kanna það,“ sagði Skarphéðinn jafnframt, en rétt er að benda á að í bréfi hans til Fréttablaðsins sagði hann að hvorki formleg né óformleg beiðni slíks efnis hefði nokkru sinni borist.

Í bréfi Skarphéðins til Fréttablaðsins segir: „Sjálfsagt mál hefði verið að verða við þeirri beiðni að því gefnu að slíkar breytingar féllu að dagskrá ráðherra og að mögulegt væri eftir sem áður að ljúka vinnslu ávarpsins í tæka tíð fyrir birtingu ávarpsins að kvöldi gamlársdags. Það hefur verið stefna RÚV að eiga í góðu og uppbyggilegu samstarfi við aðra fjölmiðla eftir því sem við á hverju sinni og kostur gefst til. Eftir því hefur verið unnið og verður það áfram gert.“.

Samkvæmt aðstoðarmönnunum fyrrverandi, Jóhannesi og Hrannari, er fullyrðing Skarphéðins um að ekki hafi verið óskað eftir að breyta fyrirkomulaginu röng, ítrekað hafi verið leitað til RÚV um að færa upptöku áramótaávarpsins. Skarphéðinn var tekinn við sem dagskrárstjóri þegar Jóhanna var enn í embætti og Sigmundur ekki tekinn við. Skarphéðinn hafnar að beiðni hafi borist á sama tíma og það stangast á við fullyrðingar tveggja aðstoðarmanna og tveggja fjölmiðlamanna sem öll standa föst á því að ítrekað hafi verið óskað eftir breytingum á fyrirkomulaginu en ekki orðið við því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Vilja hraða undirbúningi að lagningu sæstrengs

Vilja hraða undirbúningi að lagningu sæstrengs
Eyjan
Fyrir 11 klukkutímum

Segir lífeyrissjóðakerfið of dýrt – Skoðar lækkun iðgjalda gegn hærri launum

Segir lífeyrissjóðakerfið of dýrt – Skoðar lækkun iðgjalda gegn hærri launum
Eyjan
Í gær

Dagur hellti sér yfir Vigdísi – Sjáðu myndbandið

Dagur hellti sér yfir Vigdísi – Sjáðu myndbandið
Eyjan
Í gær

Samdráttur í kortaveltu: „Landsmenn stilltu jólagleðinni í hóf“

Samdráttur í kortaveltu: „Landsmenn stilltu jólagleðinni í hóf“
Fyrir 2 dögum

Er braggamálið frávik ?

Er braggamálið frávik ?
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hvar er best að búa á Íslandi? – Reykjavík í 21. sæti

Hvar er best að búa á Íslandi? – Reykjavík í 21. sæti