fbpx
Mánudagur 21.janúar 2019
Eyjan

Nei, Ísland hefur aldrei verið stéttlaust

Egill Helgason
Föstudaginn 4. janúar 2019 13:07

Það er náttúrlega fráleitt að halda því fram að á Íslandi sé stéttlaust samfélag. Svo hefur aldrei verið. Gamla bændasamfélagið var gríðarlega stéttskipti. En eins og annars staðar á Vesturlöndum var jöfnuðurinn hérna mestur á árunum eftir seinni heimsstyrjöld, á því eru ýmsar skýringar, en ríkisbúskapur var mjög sterkur hérlendis á þeim árum og samvinnuhreyfingin gríðarlega öflug. Einstaklingar söfnuðu almennt ekki miklum auði á Íslandi eftirstríðsáranna og það þótti heldur ekki fínt að berast á. Ísland var frekar lokað land og margt í lokað inni höftum.

Stærstu breytingarnar sem verða eru upptaka framseljanlegra fiskveiðikvóta, nokkurs konar fjármálavæðing sjávaraflans. Við þetta verður til yfirstétt sem ræður yfir miklu meiri eignum en áður hafði þekkst og getur fénýtt þær á ýmsa lund. Enn í dag eru kvótaeigendur valdamesti hópurinn í íslensku samfélagi – þeir hafa oftast síðasta orðið.

Hinn þátturinn er svo þegar Ísland fer að tengjast alþjóðlegu viðskiptaumhverfi, aðallega í gegnum EES-samninginn en líka með auknu upplýsingaflæði. Hér kemur upp stétt viðskipta- og kaupsýslumanna sem ber sig saman við það hvernig kaupin gerast á eyrinni erlendis. Telja sig í raun eiga heimtingu á að starfa í svipuðu umhverfi og njóta svipaðra kjara. Þetta náði hámarki í bankabólunni á fyrsta áratug aldarinnar – þá var feykt í burt viðskiptaháttum gamla Kolkrabbans og Smokkfisksins sem byggðust vissulega á því að reyna að viðhalda einokun en líka ákveðinni íhaldssemi.

Það er nátturlega spurning hverju örríkið Ísland stendur undir. Ein skýringin á íslenska okrinu er að menn sætta sig ekki við hvað markaðurinn er smár, bæta sér upp hvað viðskiptavinirnir eru í raun fáir með því að hafa verð nógu andskoti hátt.  En þrátt fyrir að tekjuskiptingin hafi í megindráttum orðið ójafnari síðustu áratugi, þá er hún býsna jöfn miðað við það sem tíðkast víða í nágrannalöndum. Ísland stendur almennt ekki undir ofurlaunum. Eignaskiptingin er hins vegar miklu ójafnari, það helgast bæði af því að auður hefur safnast á færri hendur og því að eignamyndun almennings er mjög hæg í íslenska lánakerfinu. Þarna er gríðarstórt verkefni að ná fram meiri jöfnuði – en Íslendingar hafa sýnt sig að vera svo fastir í kerfunum sem þeir koma sér upp að maður er ekki bjartsýnn á að það takist.

Er hægt að hafa of mikinn jöfnuð? Það segir hagfræðingur Viðskiptaráðs í viðtali við Bylgjuna á morgun. Það ætti varla að vera neinum ofvaxið að tryggja öllum íbúum Íslands mannsæmandi laun og kjör. Í raun vantar ekki svo mikið upp á – við sjáum að kjörin eru nógu góð til að erlent fólk flykkist hingað í atvinnuleit. Hugmyndin er væntanlega sú að ef jöfnuðurinn er of mikill verði að litlu að keppa fyrir hina framtaks- og athafnasömu. Fyrir fáum árum varð nánast þjóðarsátt, eftir gríðarlega áróðursherferð, um að borga læknum hærri laun – því annars myndu þeir allir flytja til útlanda þar sem er betur borgað. Þversögnin er svo sú að það var rífleg launahækkun læknanna sem gaf tóninn fyrir launaskrið árin á eftir.

Það náttúrlega ljóst að í örríki eins og Íslandi mun alltaf skorta tækifæri. Við höfum seint efni á því að borga laun eins og í Bandaríkjunum eða Bretlandi og verslunar- og kauphallargróðinn sem hér er að vænta er býsna takmarkaður. Bankabólan var nokkuð sérstæð en í raun vonlaus tilraun til að breyta þessu. En þetta þýðir væntanlega að nokkur hluti af klárasta og framtakssamasta fókinu flytur burt og finnur sér vettvang þar sem að getur fært út kvíarnar, efnast og auðgast eins og tæplega er hægt á Íslandi.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

MIKILL MEIRIHLUTI ÍSLENDINGA VILL SEINKA KLUKKUNNI

MIKILL MEIRIHLUTI ÍSLENDINGA VILL SEINKA KLUKKUNNI
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Vatnsmýrin að fá póstnúmerið 102: „Innantómt orðagjálfur á tyllidögum“

Vatnsmýrin að fá póstnúmerið 102: „Innantómt orðagjálfur á tyllidögum“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Davíð Oddsson sagður afkomandi „dularfulla kynblendingsins“ Hans Jónatans

Davíð Oddsson sagður afkomandi „dularfulla kynblendingsins“ Hans Jónatans
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Lögreglan: Mikil fjölgun innbrota á heimili

Lögreglan: Mikil fjölgun innbrota á heimili