fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Bjarni Ben sakar Vilhjálm um eftirsannleik: „Þetta er ekki mín skoðun. Þetta er staðreynd“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 3. janúar 2019 15:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði í Kryddsíldinni á Stöð 2 á gamlársdag að hann treysti sér ekki til að sjá fyrir fjölskyldu sinni á lágmarkslaunum. Hinsvegar, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, væri aðeins 1 prósent af fólki á vinnumarkaði sem væri með 300 þúsund krónur eða minna á mánuði.

Þessu mótmælti Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness er hann sagði að yfir helmingur verkafólks væru með laun undir 300 þúsundum í dagvinnu, í september 2018. Vísaði Vilhjálmur einnig í tölur frá Hagstofu Íslands og sagði fullyrðingu fjármálaráðherra því ranga:

„Í gögnum frá Hagstofu Íslands kemur fram að yfir 50% verkafólks voru með laun undir 300.000 í dagvinnu í september 2018 . En rétt er að geta þess að fjármálaráðherra hélt því fram í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag að 1% á íslenskum vinnumarkaði vinni á lágmarkslaunun. Það er alrangt hjá fjármálaráðherra. Um helmingur fullvinnandi verkafólks á landsvísu er á lágmarkslaunum. Þetta eru því miður blákaldar staðreyndir og við hljótum sem samfélag að vera sammála því að lagfæra þurfi ráðstöfunartekjur verkafólks þannig að laun þeirra dugi fyrir lágmarks framfærsluviðmiðum sem Velferðaráðneytið hefur gefið út,“

sagði Vilhjálmur.

Ekki skoðun heldur staðreynd

Nú hefur Bjarni svarað Vilhjálmi í færslu á Facebook, en pistillinn ber heitið Menn eftirsannleika. Þar segir Bjarni að hann hafi verið að vísa til staðreynda, ekki sinna eigin skoðana:

„Í þættinum var ég spurður að því hvort ég gæti dregið fram lífið á lægstu launum. Vísað var til þess að margir á vinnumarkaði hefðu ekki úr öðru að spila en lægstu launum og það væri mjög erfitt að ná endum saman við þær aðstæður.Spurningunni svaraði ég neitandi. Ég treysti mér ekki til að reka heimilið fyrir eingöngu lægstu taxta.

Í framhaldinu velti ég upp þeirri spurningu hve margir væru að draga fram lífið á lægsta taxta eingöngu. Ég spurði:,,Hvað er hátt hlutfall fullvinnandi á Íslandi sem starfar á lægsta taxta, á 300.000 krónum?“ Þessari spurningu svaraði ég með því að benda á að: ,,Samkvæmt tölum Hagstofunnar er það 1% af vinnumarkaðinum sem starfar á 300.000 króna lágmarkstaxtanum.“

Með þessu vísaði ég til þess að tölur Hagstofunnar sem birtust 13. september 2018 um laun á árinu 2017 hefðu sýnt að innan við 1% fullvinnandi Íslendinga væri með 300.000 kr. eða minna í heildarlaun á mánuði. Þetta er ekki mín skoðun. Þetta er staðreynd. Um hana má lesa hér.“

Villandi rangfærslur Vilhjálms

Bjarni segir að málflutningur Vilhjálms sé villandi og heldur langa tölu um skilgreininguna á eftirsannleik:

„Engu að síður sé ég að einstaka talsmenn launþega stíga fram og þykjast ætla að hrekja þennan málflutning. Það er ýmist gert með því að segja það villandi að tala um þessar staðreyndir og hefja svo umræðu um eitthvað allt annað, grunnlaun, raunlaun eða, líkt og Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi hefur nú gert, að hafa rangt eftir mér og fella svo dóm um þá vitleysu. Það er rangt sem Vilhjálmur segir að ég hafi haldið því fram að 1% verkafólks tæki laun eftir lægstu launatöxtum.

Árið 2016 var orðið ,,post-truth” valið orð ársins af Oxford orðabókinni. Samkvæmt skilgreiningu orðabókarinnar er ,,post-truth” (á íslensku stundum þýtt eftirsannleikur) það ástand þegar hlutlægar staðreyndir skipta minna máli í mótun almenningsálitsins en það sem höfðar til tilfinninga og persónulegra skoðana.“

Móti almenningsálitið með lygum

Bjarni ýjar að því að Vilhjálmur virði sannleikann að vettugi þegar kemur að mótun á almenningsálitinu:

Óumdeilt er að samfélagsmiðlar hafa haft töluverð áhrif á þá breytingu sem vísað er til og stöðugt fréttaflóð allan sólarhringinn gerir það freistandi að ná athygli með því sem hreyfir við fólki. Þeir sem vilja tileinka sér þá aðferðarfræði sem þarf vita að sannleikurinn er sjaldnast sá mælikvarði sem mestu skiptir við mótun almenningsálitsins. Það hvort staðhæfingar eru sannar eða ekki skiptir í sjálfu sér engu ef aðrar aðferðir duga til að fá fólk á sitt band – við þær aðstæður víkur sannleikurinn og annað fer að skipta meira máli.

Í upphafi nýs árs er hægt að láta sig dreyma um að einn helsti grundvöllur heilbrigðra skoðanaskipta í landinu fái áfram að standa óhaggaður – að við látum vera að deila um staðreyndir – það er nóg annað til að takast á um.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus