fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Már sá hrunið fyrir: „Íslenskir bankamenn eru miklu betri í dag“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 24. september 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undanfarin misseri hefur ýmsum verið tíðrætt um hvort það stefni í annað efnahagshrun á Íslandi. Bág staða stóru flugfélaganna tveggja, sem sögð eru of stór til að falla, hafa ýtt undir slíkar vangaveltur, sem og bankabónusar, hækkun húsnæðisverðs og hár yfirdráttur heimila.  Hið nýja góðæri, í boði aukins ferðamannastraums og stöðu krónunnar, hefur svipað til þeirra teikna sem voru á lofti árið 2007, svokölluðu logni á undan storminum.

Sá hrunið fyrir – Staðan önnur nú

Már Wolfgang Mixa er dósent í fjármálum við Háskólann í Reykjavík. Hann skrifar reglulega pistla um efnahagsmál á mbl.is og var einn fárra sem sáu snemma í hvað stefndi, árið 2005.

Eyjan spurði því Má hvort það stefndi í annað hrun á Íslandi:

„Eins og stendur eru tveir styrkleikar, sem geta breyst skjótt í veikleika, sem koma aðallega upp í huga mínum. Íslenska krónan er fyrri styrkleikinn. Miðað við þróun á launavísitölu síðustu ár þá er íslenska krónan á svipuðum slóðum og hún var árið 2007 og jafnvel enn sterkari. Það þýðir að innfluttar vörur eru ódýrari en ella. Snúist þessi þróun við og íslenska krónan gefur eftir þá hækkar verð innfluttra vara og verðbólga fer af stað.

Síðari þátturinn er húsnæðisverð. Það hefur hækkað næstum því jafn mikið og launavísitalan frá árinu 2007, þó ekki jafn mikið. Eins og við flest vitum þá er fjöldi ferðamanna og airbnb í tengslum við þann atvinnugeira stór hluti af skýringunni. Ef það hægist á ferðamannastraumnum og eftirspurn eftir húsnæði dvínar vegna þess þá geta hæglega myndast dóminó áhrif. Á sama tíma og eftirspurn dvínar sem leiðir til lækkandi fasteignaverðs þá veikist íslenska krónan. Verðtryggðar skuldir almennings gætu því hækkað samtímis lækkandi virði undirliggjandi eigna. Þeir sem eru með óvertryggð lán sjá vaxtakjör versna (Seðlabankinn hækkar væntanlega stýrivexti þegar að verðbólga fer á kreik) þannig að þeir þurfa þá að greiða hærri vaxtakostnað á versta tíma. Því má við bæta að ég hef lengi vel skrifað um nauðsyn þess að tengja húsnæðislán við vísitölu íbúðaverðs en ekki neysluvísitölu, fyrir daufum eyrum. Væri slíkt samþykkt af Alþingi þá væri skellurinn miklu minni fyrir þorra almennings með verðtryggð lán ef lán þeirra lækka samhliða lækkun á fasteignaverði.“

Hverju þarf að breyta til að koma í veg fyrir annað hrun ?

„Eitt einfalt atriði væri að aðgreina fjárfestingarbankastarfsemi frá almennri bankastarfsemi. Íslenskir bankamenn eru miklu betri í dag en þeir voru árin fyrir hrun. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að íslenskt samfélag er í raun að veita bönkum tryggingu fyrir áhættusömum fjárfestingum, því Ísland getur einfaldlega ekki látið banka fara á hausinn, allt tal um annað er í mínum huga goðsögn. Ég skil ekki af hverju ekkert af þeim frumvörpum sem lögð hafa verið fram í þessu sambandi hafi fengið byr í seglin.

Annað atriði, sem ég nefndi að ofan og er sáraeinfalt, er að tengja verðtryggð lán vegna húsnæðiskaupa við vísitölu húsnæðis en ekki neysluvísitöluna. Í kringum 30-40% af neysluvísitölunni tengist verði erlendra vara. Þegar að íslenskt efnahagslíf er í blóma þá er íslenska krónan sterk og innfluttar vörur lækka jafnvel í verði, þrátt fyrir mikinn uppgang. Þetta snýst í öndverðu sína þegar að efnahagslegur skellur á sér stað. Höfuðstóll húsnæðislána hækkar því á versta tíma. Eðlilegra væri að höfuðstóll lána hækki þegar að efnahagslífið er í góðum gír, sem dregur jafnvel úr eftirspurn á húsnæði, en lækki þegar að á móti blæs.“

Ef til annars hruns kæmi, hvers eðlis yrði það samanborið við hrunið 2008 ?

„Hrunið 2008 var sögulegt. Skiptir litlu hvernig litið sé á málið, sjaldan í fjármálasögunni hefur hrun verið jafn gífurlegt og á Íslandi 2008. Það er nánast kraftaverk hversu vel Ísland slapp úr þeim hremmingum, en ekki má þó gleyma því að ákveðinn hópur fólks fór verr út úr hruninu en flestir aðrir. Það þyrfti líklegast náttúruhamfarir til að annað hrun ætti sér stað á Íslandi í líkingu við 2008.“

Hvaða afleiðingar hefði slíkt hrun fyrir hinn almenna íslending ?

„Reynslan frá árinu 2008 var að húsnæðisskuldir hækkuðu á versta tíma. Atvinnuleysi jókst og verðbólga einnig. Lækki höfuðstóll húsnæðislána nú þá væru afleiðingarnar miklu viðráðanlegri. Staða efnahagslífsins er frábær í dag, sérstaklega ef litið er til ástandsins árið 2008.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus