fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Smári McCarthy og Logi Már um laun þingmanna: „Asnalegt og í rauninni ósanngjarnt“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 21. september 2018 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í helgarblaði DV var gerð úttekt á þingfararkaupi og öðrum greiðslum til þingmanna fyrstu sjö mánuði ársins 2018. Mikil umræða hefur verið um laun þingmanna og annarra embættismanna að undanförnu enda hafa þeir fengið ríflegri hækkanir en flestir aðrir launþegar og hefur það valdið töluverðri ólgu á vinnumarkaði. DV ræddi við Smára McCarthy þingmann Pírata sem fær húsnæðis og dvalarkostnað greiddan sem landsbyggðarþingmaður þrátt fyrir að hann búi í vesturbæ Reykjavíkur. Einnig Loga Má Einarsson sem fær 550 þúsund króna álag fyrir að vera formaður stjórnarandstöðuflokks.

 

Reglurnar endurspegla ekki raunveruleikann

Þingmenn úr landsbyggðarkjördæmunum þremur fá greiddar fastan húsnæðis- og dvalarkostnað en þingmenn á höfuðborgarsvæðinu fá hann ekki. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, hefur áður sagt við DV að landsbyggðarþingmenn geti ekki afþakkað þessar sporslur, þeir yrðu að taka við þeim. Lögheimilið skipti engu máli í því sambandi og hvort þingmennirnir héldu heimili í kjördæminu.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, er einn af þeim sem fá slíkar greiðslur en hann er þingmaður Suðurkjördæmis. Smári býr við Hringbrautina í Reykjavík og heldur ekki annað heimili í kjördæmi sínu. Fær hann um 134 þúsund krónur á mánuði vegna þessa. Í samtali við DV segir hann:

„Mér hefur fundist þetta frekar asnalegt og í rauninni ósanngjarnt. Það er ekkert dýrara fyrir mig að búa í bænum heldur en Reykjavíkurþingmenn. Það eru tilfelli þar sem þingmenn halda úti tveimur heimilum og í þeim tilfellum kannski í lagi að styðja þá. Sumir búa fyrir norðan en eru með litla íbúð í Reykjavík á meðan þingið stendur yfir. En ég bý ekki við slíkar aðstæður og það tekur mig engan tíma að keyra út í kjördæmi.“

Er þetta ekki bruðl með almannafé?

„Ég veit ekki hvort að bruðl sé rétta orðið. En reglurnar eru aðeins of stífar og settar fram á forsendum sem eiga ekki við. Ég skil að það séu gerðar reglur í kringum þetta til að koma til móts við mismunandi þarfir en þær þurfa að endurspegla raunveruleikann.“

Hefur þú reynt að hafna þessum greiðslum?

„Ég spurði út í þetta á sínum tíma, með það í huga hvort ég gæti hafnað þessu. En ég hef ekki sagt við skrifstofu Alþingis að ég vilji losna við þetta. Aðallega út af svarinu sem ég fékk.“

Frægt er orðið að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ákvað að gefa 300 þúsund krónur af sínum launum til góðgerðarmála frá nóvembermánuði árið 2016 þegar kjararáð tilkynnti um ríflega launahækkun til embættismanna. „Ég bað ekki um þessa launahækkun,“ sagði Guðni í yfirlýsingu og hlaut mikið lof fyrir.

Smári segist gefa til góðgerðarmála.

„Ég hef ekki farið hátt með það. Ég styrki mánaðarlega ákveðið sett af góðgerðarsamtökum og einnig frjálsa fjölmiðla, innlenda og erlenda.“

Notar þú allan þennan pening í það?

„Nei, það er misjafnt. Sumt er fast en annað endrum og eins.“

Há laun og sporslur þingmanna hafa valdið ólgu í samfélaginu

Gefur mikið til góðgerðarmála

Eitt af því sem hefur verið gagnrýnt í tengslum við laun þingmanna er sérstakt álag formanna flokka sem ekki sitja í ríkisstjórn. Er það hálft þingfararkaup sem gerir 550 þúsund krónur á mánuði árið 2018. Greiðslurnar hafa hækkað mikið á undanförnum árum vegna ákvarðana kjararáðs um þingfararkaupið.

Reglurnar voru settar í desember árið 2003, í ríkisstjórnartíð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, og var ætlað að jafna aðstöðumun ráðherra og stjórnarandstöðuformanna. Þetta var harðlega gagnrýnt þegar reglurnar voru settar og er umtalað enn í dag. Sem dæmi má nefna að Katrín Jakobsdóttir hefur fengið 21,6 milljónir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson 18,6 milljónir og Steingrímur J. Sigfússon tæpar 15 milljónir í slíkum greiðslum.

Fjórir formenn hafa fengið þessar greiðslur árið 2018. Þeir eru Logi Einarsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Inga Sæland og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Píratar kasta teningi á hverju ári um hver þeirra verður skráður formaður hjá þinginu. Það er gert til að fá aðstoðarmann og ritara fyrir þingflokkinn en skráður formaður er skilyrði fyrir því. Píratar þiggja hins vegar ekki formannsálagið því ólíkt húsnæðisgreiðslunum er hægt að afþakka það. Logi Einarsson segir um þessar greiðslur:

„Það er vel í lagt og mín vegna mætti breyta þessu. Flokkarnir gætu þá komið sér saman um það. Þetta var gert á sínum tíma, löngu áður en ég byrjaði á þingi, til að jafna aðstöðumun en ég myndi ekki gera neinar athugasemdir ef það yrði farið yfir öll launamálin og tel raunar að það sé nauðsynlegt til að ná sáttum í samfélaginu.“

Logi segist ekki hafa myndað sér skoðun á því hvort það sé eðlilegt að Alþingi og þá ríkissjóður greiði formannslaun stjórnmálaflokka.

„Ég gef mikið til góðgerðarmála eins og ég held að mörg okkar sem eru aflögufær geri. En ég held þeirri skrá fyrir mig. Ég held að það verði að ræða þetta mál í víðu samhengi án þess að hver og einn þingmaður sé að taka ákvörðun um slíkt. Við þurfum að ná saman um hver laun kjörinna fulltrúa eiga að vera.“

Er þetta ekki farið að valda hita á vinnumarkaði?

„Jú, og ég skil það vel. Samfylkingin studdi tillögu Pírata í vor um að lækka laun þingmanna. Til þess einmitt að geta brugðist við þeirri óánægju sem eðlilega er uppi í samfélaginu. Við erum tilbúin til að skoða þá hluti sem að okkur snúa.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Eyjan
Í gær

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn
Eyjan
Fyrir 2 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma
Eyjan
Fyrir 3 dögum

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun