fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Segir breska ferðamenn sniðganga Ísland vegna Kristjáns Loftssonar – Fækkunin lítilleg síðan í apríl

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 21. ágúst 2018 14:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framkvæmdarstjóri bresku ferðaskrifstofunnar Discover the world, Clive Stacey, segir marga Breta sniðganga Ísland sem ákomustað, þar sem hér séu stundaðar hvalveiðar:

„Fyrirtæki mitt hefur að undanförnu verið með sýningu á árlegri sýningu fuglaskoðara í Bretlandi. Við höfum tekið eftir því að umtalsverður hópur fólks hefur komið við á básnum okkar og haft á orði að þótt það myndi virkilega vilja heimsækja Ísland heim muni það ekki gera það fyrr en hvalveiðum verði hætt. Gestir sýningarinnar eru verðmætir ferðamenn. Þeir verja jafnan mun meiri tíma og fjármunum í ferðalög en hinn dæmigerði ferðamaður. Þeir vilja almennt heimsækja afskekktari svæði á Íslandi. Það eru einmitt ferðamennirnir sem við þurfum til að dreifa straumi ferðamanna betur um Ísland,“

segir Stacey við Morgunblaðið.

Bretar næstfjölmennasta ferðamannaþjóðin

Ferðaskrifstofan Discover the world hefur skipulagt ferðir hingað til lands síðastliðin 35 ár og í fyrra komu um 14000 manns hingað til lands á þeirra vegum.

Þess má geta að Bretar voru næstfjölmennastir ferðamanna sem fóru um Keflavíkurflugvöll samkvæmt skýrslu ferðamálastofu fyrir árið 2017, þegar skipt er eftir þjóðerni. Alls komu 322 þúsund Bretar hingað til lands árið 2017, af 1,8 milljónum ferðamanna alls.

Þá er vert að taka fram að síðan Kristján Loftsson tilkynnti um miðjan apríl að hann hygðist hefja veiðar á langreyði að nýju eftir tveggja ára hlé, hafa færri Bretar komið hingað til lands, samanborið við tölur frá því í fyrra í skýrslu Ferðamálastofu.

Frá maí til júlí 2018 voru 37,850 brottfarir skráðar hjá ferðamönnum með breskt ríkisfang. Á sama tímabili í fyrra voru brottfarirnar 41,792. Mismunurinn er 3942 farþegar.

Rétt er að taka fram að fækkun hefur orðið á ferðamannastraumnum til Íslands á heildina litið, samanborið við fyrri ár, en ekki aðeins hjá Bretum. Því er hæpið að draga þá ályktun að hvalveiðar einar séu orsök þess að fækkun hefur orðið á komu Breta hingað til lands á þessu tímabili.

Stacey vill engu að síður að Ísland endurskoði hvalveiðistefnu sína, þar sem hann segir ímynd landsins hafa beðið hnekki:

„Nýlegar fréttir af veiðum á blendingi steypireyðar og langreyðar hafa vakið slíka athygli á hvalveiðum á Íslandi að við höfum ekki séð dæmi um slíkt áður. Það hryggir mig að annars hrein ímynd landsins skuli hafa beðið hnekki vegna þessa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt