fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Björn Bjarnason gagnrýnir Staksteina og grípur til varna fyrir Rögnu Árnadóttur: „Hún á betra skilið en afbökun Bjarna“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 21. ágúst 2018 20:30

Mynd Hanna DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, er gagnrýninn á skrif Staksteina Morgunblaðsins í dag. Það teljast tíðindi ein og sér, en þrætueplið er að Björn telur þriðja orkupakka ESB meinlausan, meðan Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, sem skrifað hefur um innleiðingu orkupakkans, telur hann stjórnarskrárbrot.

Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og fyrrum utanþingsráðherra dómsmála, skrifaði einnig grein um málið, en hún og Björn eru sömu skoðunar.

Staksteinar taka hinsvegar undir skoðun rafmagnsverkfræðingins Bjarna og gagnrýna grein Rögnu, sem er Birni Bjarnasyni ekki að skapi:

„Ómaklega er vegið að Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, í Staksteinum í dag. Spjótunum hefði frekar átt að beina að mér vegna þess að Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur frétti af grein Rögnu á vefsíðu Úlfljóts eftir að ég vitnaði til hennar hér. Eftir að hafa lesið grein Bjarna er ég sömu skoðunar og áður, að grein Rögnu sé vel ígrunduð og rökstudd. Þá hef ég einnig vakið athygli á því hér að Kristín Haraldsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, er sömu skoðunar og Ragna.“

 

Staksteinar með Z

Staksteinahöfundur notar enn z í ritmáli sínu en tveir fyrrum ritstjórar Morgunblaðsins eru þekktir fyrir notkun hennar, þeir Styrmir Gunnarsson og Ólafur Stephensen.

Höfundur hæðist að Rögnu Árnadóttur frá ráðherratíð hennar og segir innleiðingu þriðja orkupakka ESB vera stjórnarskrárbrot:

„Icesave, taka tvö

Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur bendir réttilega á stórgallaða málsvörn Rögnu Árnadóttur um lögleiðingu gerðar um orkumarkað. Ragna var ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og gerði aldrei, svo vitað sé, minnstu athugasemd við verstu framgöngu hennar, og var þó af mörgu að taka. Í viðurkenningu fyrir það fékk Ragna stöðu aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar án auglýsingar. Bjarni bendir á það augljósa, að það stefnir í að ríkisstjórnin núverandi brjóti stjórnarskrá landsins með lögleiðingu á Evrópugerð um Þriðja orkumarkað og stofni til valds yfir innlendum málum sem er utan og ofan við framkvæmda- og dómsvald landsins. Bjarni lýkur athugasemdum sínum svo: „Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi Rögnu Árnadóttur í téðri Úlfljótsgrein. Hún hefur kosið að fjalla með ótrúlega yfirborðslegum hætti um stórmál á sviði íslenzks fullveldis og á sviði orkumála með þeim afleiðingum, að hún hefur villt um fyrir fólki, sem ekki hefur lagt sig eftir kjarna þessa máls eftir öðrum leiðum. Þetta er í anda málflutnings iðnaðarráðuneytisins um þetta efni og lögfræðilega álitsgerð fyrir ráðuneytið, sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá ESA var fenginn til að semja.“

 

Krefst afsökunarbeiðni frá Bjarna, ekki Staksteinum

Björn segir Bjarna yfirborðslegan og yfirlætisfullan í lokadómi sínum um grein Rögnu. Hann telur afsökunarbeiðni við hæfi, en minnist hvergi á að Staksteinahöfundur geri slíkt hið sama:

„Lokadómur Bjarna um grein Rögnu er bæði yfirborðslegur og yfirlætisfullur. Þegar umræður um þriðja orkupakkann hófust las ég það sem Bjarni Jónsson ritaði um málið og taldi hann reisa það á þekkingu sinni sem rafmagnsverkfræðingur. Hann sagði að með aðild að þessu samstarfi mundu Íslendingar afsala sér yfirráðum á orkuauðlindum sínum og ESB næði einhvers konar tangarhaldi á þeim.

Lýsti ég áhyggjum vegna þessa en hvatti til þess að málið yrði rætt. Einmitt þess vegna fagnaði ég grein Rögnu Árnadóttur og fleiri sem hafa sagt álit sitt á málinu. Skoðanir Bjarna um afsalið og tangarhald ESB stangast á við það sem er satt og rétt. Nú kýs hann að fara inn á svið lögfræðinnar. Hann ætti að biðja Rögnu Árnadóttur afsökunar, mér finnst að minnsta kosti leitt að hafa dregið athygli hans að ágætri grein hennar. Hún á betra skilið en afbökun Bjarna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt