fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

„Vitleysisgangur“ segir Kolbrún um störf borgarfulltrúa: „Með afar heimskulegri framkomu hafa þeir gjaldfellt sig á skömmum tíma“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 20. ágúst 2018 08:28

Ráðhús Reykjavíkur.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbrún Bergþórsdóttir

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar það sem margir hugsa í leiðara Fréttablaðsins í dag. Þar fjallar hún um það upphlaup sem hefur átt sér stað í borgarstjórn Reykjavíkur undanfarið, en hún segir sumum það um megn að vinna sína vinnu þannig að sómi sé að og ástæða sé til að efast um að borgarfulltrúarnir geti tekið yfirvegaðar ákvarðanir:

(Millifyrirsagnir eru Eyjunnar)

„Í umræðu um stjórnmálamenn sem valda ekki verkefnum sem þeim hafa verið falin hlýtur hugurinn að leita til borgarfulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur. Borgarbúar, sem kusu þá til starfa fyrr á þessu ári, hafa örugglega gert ráð fyrir því að þessir fulltrúar þeirra sæju sér fært að sinna starfi sínu og nýta orku sína í þágu góðra verka. Nú er ljóst að borgarfulltrúar, bæði í meirihluta og minnihluta, ráða engan veginn við þetta sjálfsagða verkefni. Þeir eyða ómældum tíma í að bera hver annan alls kyns sökum og orð eins og „einelti“, „leki“ og „trúnaðarbrestur“ koma þar mjög við sögu. Hvert tilfinningalegt upphlaupið rekur annað hjá borgarfulltrúum sem virðast ófærir um að sýna sjálfstjórn. Vitleysisgangur þessa fólks nær hámarki þegar það vill leiða umræðuna út í það hvort ákveðinn borgarfulltrúi hafi ullað á einn borgarfulltrúa minnihlutans eða tvo. Borgarbúar fylgjast furðu lostnir með og hljóta að velta því fyrir sér hvort allt þetta vanstillta fólk eigi eitthvert erindi í stjórnmál og hvort það sé virkilega fært um að taka yfirvegaðar ákvarðanir er varða hag Reykvíkinga. Ástæða er til að efast um það.“

Krónískt tilfinningauppnám á vinnustað

„Borgarfulltrúarnir virðast vera í krónísku tilfinningauppnámi vegna þess að þeim er gert að sitja saman á fundum í Ráðhúsinu. Þar neyðast þeir til að eiga samskipti, sem eru þeim nánast óbærileg. Ekki virðist hvarfla að þeim að það sé valkostur í stöðunni að bíta á jaxlinn frekar en að góla um fólsku pólitískra andstæðinga. Þessi ítrekuðu neyðarköll rata vitanlega í fjölmiðla sem gera þeim góð skil og „fórnarlömbin“ eru æði dugleg að mæta í viðtöl og tíunda raunir sínar.

Ekki bjuggust margir svo sem við því að meirihluta og minnihluta borgarstjórnar myndi semja sérlega vel, en fæstir hafa örugglega séð fyrir að gagnkvæm andúð myndi leiða þá út í það öngstræti sem þeir eru nú komnir í. Borgarfulltrúarnir eru orðnir að athlægi og hafðir að háði og spotti, ekki bara um allan bæ heldur allt land. Með afar heimskulegri framkomu hafa þeir gjaldfellt sig á skömmum tíma.“

Hagið ykkur almennilega !

„Málið er ekki verulega flókið, það snýst bara um að hegða sér sómasamlega á vinnustað. Það tekst hinum venjulega borgara yfirleitt ágætlega á sínum vinnustað, þótt þar starfi fólk sem hefur ekki sömu skoðanir á málum og hann. Borgarfulltrúar, sem eiga að vera sómasamlegir fulltrúar kjósenda, ættu að taka sér vinnandi fólk til fyrirmyndar og reyna að haga sér skikkanlega. Þeir voru kosnir til þess en ekki til að verða sér hvað eftir annað til háborinnar skammar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus