fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Rán Reynisdóttir gefur kost á sér til formanns Neytendasamtakanna

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 16. ágúst 2018 13:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rán Reynisdóttir, hársnyrtimeistari og fjögurra barna móðir, gefur kost á sér til formennsku í Neytendasamtökunum. Hún varð við áskorun hóps fólks sem vill vinna að eflingu samtakanna og hagsmunagæslu almennings.

Rán er ritari Félags hársnyrtisveina og lauk nýverið námi til kennsluréttinda í iðnnámi. Hún er frumkvöðull í grænni hársnyrtingu á Íslandi, sem gengur út á að meðhöndla hár án efna sem eru skaðleg fyrir neytendur, umhverfið eða starfsfólk. Rán er einstæð móðir fjögurra barna á aldrinum tveggja mánaða til átta ára og hefur reynslu af að reka þungt heimili.

„Ég þekki af eigin raun hversu varnarlausir neytendur eru án öflugrar hagsmunagæslu og öflugrar verndar, sem aðeins næst með samstöðu almennings,“ segir Rán. „Þegar ég heyrði af hópi fólks með brennandi áhuga fyrir að stórefla Neytendasamtökin og efla samstöðu neytenda gat ég ekki annað en slegist í lið með þeim. Við bætum ekki samfélagið nema með því að taka þátt, bretta upp ermar,“

segir í tilkynningu.

Rán segir markmið hópsins að vinna á næstu vikum áætlun til eflingar Neytendasamtakanna. Það liggi fyrir að vilji sé innan verkalýðshreyfingarinnar að efla hagsmunagæslu almennings og því sé mikilvægt að tengja Neytendasamtökin við þá vakningu. Þá sé einnig mikilvægt að efla félagslegt starf Neytendasamtakanna og efna til öflugrar umræðu svo hægt sé að endurnýja stefnu og markmið samtakanna.

„Neytendamál snerta allt okkar daglega líf,“ segir Rán, „og vara og þjónusta tekur hröðum breytingum, viðskiptahættir breytast og það er nauðsynlegt að Neytendasamtökin leggi réttar áherslur hverju sinni og starfi í takt við raunverulegar þarfir og hagsmuni neytenda. Það mun ekki takast nema með því að fjölga félögum, styrkja tengingu stjórnar við grasrótina og styrkja fjárhagsgrunn samtakanna.“

Rán segist spennt að takast á við þetta verkefni.

„Það fólk sem leitaði til mín er kröftugur hópur venjulegs fólks sem vill taka málin í eigin hendur. Ég þekki af eigin raun hvað svona starf getur verið gefandi þótt það sé erfitt, en ég þurfti að standa í miklum rannsóknum og stappi til að geta unnið eingöngu með eiturefnafríar hársnyrtivörur. Við getum gert sumt ein, en við getum gert svo miklu meira í sameiningu. Í raun þarf ég hjálp og samstöðu annarra neytenda til að reka mitt stóra heimili. Án samstöðunnar stend ég miklu veikar gagnvart þeim fyrirtækjum sem ég þarf að eiga viðskipti við. Ég gef kost á mér til að hjálpa ykkur svo þið getið hjálpað mér.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt