fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Hellir sér yfir Helgu Völu og Pírata með hárbeittu háði: „Almenn heimska, fýla eða fáfræði falla ekki undir „lögmæt forföll“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 20. júlí 2018 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins er óvæginn í gagnrýni sinni á Helgu Völu Helgadóttur, þingmann Samfylkingarinnar og þingflokk Pírata í dag, fyrir mótmælaaðgerðir þeirra á hinum sögulega þingfundi á Þingvöllum í fyrradag, sem lengi verður í minnum hafður fyrir allt annað en upphaflega stóð til.

Höfundur fer háðulegum orðum um viðfangsefni sín og segir það sífellt algengara að vinstri mönnum þyki eðlilegt að „bola fólki á brott sé það grunað um skoðanir sem falli ekki að skapalóni þess.“ Segir hann Háskóla Íslands „undirlagðan“ þessu hugarfari:

„Félagslegi þáttur íslenska háskólasamfélagsins á melunum er undirlagður í þessu, og þar þykir einboðið að þeir örfáu fræðimenn sem ekki beygja sig ekki fullkomlega undir skoðanakúgun heimaríks meirihluta skuli lagðir í einelti og látnir sæta ritskoðun umfram aðra. Fyrr eða síðar munu slíkar stofnanir missa tiltrú.“

 

Þykist yfir aðra hafin í skoðunum

Helga Vala gekk „út“ af þingfundinum á Þingvöllum í mótmælaskyni, þegar Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, hóf upp raust sína.

Leiðarahöfundur segir Helgu Völu þykjast vera yfir aðra hafin:

„Í fyrradag sást þegar þingmaður, vel verseraður á vinstrikanti, þóttist skoðanalega yfir aðra hafin og strunsaði af einstæðum þingfundi. Þingmaðurinn sýndi samkomunni, gestum hennar og þeim örfáu sem slysast höfðu óviljandi á staðinn kunnáttu sína í kurteisi. Þingmaðurinn rigsaði af palli þar sem erlendur heiðursgestur hafði ekki fengið samþykki fyrir sínum skoðunum. Sami þingmaður og skokkaði hnarreistur út á lyngbreiður Þingvalla, eins helsta helgistaðar skoðanafrelsis á hnettinum, vakti nýlega athygli fyrir fullkomið fleipur í Ríkisútvarpi um alvöru mál, sem hún þóttist sérfræðingur í. Fréttastofa „RÚV,“ í krafti yfirgripsmikils þekkingarleysis síns, gleypti fáránleikann hráan og útvarpaði honum eins og heilögum sannleika í þeirri viðleitni sinni að gera þjóðina að sömu kjánum og innanbúðarmenn. Af miklu minna tilefni hefur þingmaðurinn sem í hlut átti gert kröfur um að aðrir segðu af sér þegar í stað. Hefði Helga Vala sjálf sýnt þann manndóm hefði hún getað sparað sér rútuferð til Þingvalla og þjóðinni skömm.“

Skyldumæting þingmanna á þingfundi

Píratar fá einnig væna sneið frá Hádegismóum:

„Píratar hafa nýlega krafist þess að þingforseti „geri skrá yfir þær óskráðu reglur“ sem þeir hafa heyrt að gildi á þingi. Þá var ekki rætt um kurteisisreglur. Sjálfsagt þykir pírötum nauðsynlegt að skrá þær. Það er t.d. hvergi skráð að þingmenn skuli hvorki hrækja á gólfið né snýta sér í gardínur. Hvergi er skrifað að þeir skuli ekki leysa vind í ræðustólnum, jafnvel þótt það gæti farið vel við þá ræðu sem verið er að flytja. Hvergi er skráð að aðrir þingmenn skuli ekki spyrja þingmenn Pírata að því hvort þeir séu fullkomin fífl í hvert sinn sem þeir telja sig hafa tilefni til. Þetta eru aðeins dæmi af handahófi sem slík skýrslugerð um óskráðar reglur gæti tekið til. Ætla mætti að skýrslan fyllti fljótlega þúsund síður. En það mundi þó engu breyta, af tveimur ástæðum. 1) Slíkur doðrantur yrði aldrei tæmandi. 2) Engin von er til þess að Píratar læsu skýrsluna. Þeir segjast fyrst hafa heyrt um hinn hættulega heiðursgest daginn fyrir Þingvallafund og þá sest á neyðarfund í snatri og rétt náð að taka ákvörðun um að skrópa hálftíma áður en að rútan fór. Það er raunar frumskylda þingmanna að lögum að mæta til þingfundar nema lögmæt forföll hamli. Almenn heimska, fýla eða fáfræði falla ekki undir „lögmæt forföll“.“

Adolf Hitler kynntur til leiks

„En nú hefur verið upplýst að öllum þingmönnum var tilkynnt 20. apríl sl. að danski þingforsetinn væri boðinn. Viðbrögð Pírata voru að benda á að þær upplýsingar hafi verið frekar neðarlega á síðu! Gott væri ef Píratar gæfu út leiðarvísi um hversu langt niður eftir síðu þeir lesa. Lesa þeir fyrstu þrjár línur á hverri síðu, fimm línur eða jafnvel eitthvað lengra niður? Talsmaður Pírata lét sig hafa það að draga Adolf Hitler inn í málið mættur í beina útsendingu í fréttum. Hann gæti því í sinni vörn bent á að ekki aðeins hefði danski gesturinn verið nefndur „frekar neðarlega á síðu“ heldur voru upplýsingarnar að auki birtar á sjálfum afmælisdegi Adolfs Hitlers, þegar öll píratahjörðin var í eðlilegu uppnámi, þótt vissulega sé nokkuð liðið frá fæðingu ómennisins. Hitt er merkilegt að Píratar fengu þó fréttir af því að til stæði að halda fund þingsins á Þingvöllum. Það hefur þá væntanlega verið nefnt ofarlega á síðu, því ella hefði flokkurinn misst tækifærið til að skrópa. Það tókst miklu betur að tryggja að íslenska þjóðin frétti ekki af fíneríinu fyrr en það var afstaðið. Öðruvísi var haldið á árin 1930, 1944, 1974, 1994 og 2000. En kannski telja fyrirmenni að þjóðinni hafi verið nóg boðið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins