fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Eyjan

Ingmar Bergman, bíóástin og blómatími hinnar listrænu kvikmyndagerðar

Egill Helgason
Þriðjudaginn 17. júlí 2018 00:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líklega eru ekki margir sem horfa á myndir eftir Ingmar Bergman núorðið, en það er með ólíkindum hvað hann var fyrirferðarmikill á sínum tíma. Kvikmyndaáhugamenn, sem þá voru nánast eins og sérstakur þjóðflokkur, fylgdust með honum í aðdáun og undrun. Í París var listabíó sem um langt árabil sýndi ekkert nema myndir Bergmans – þegar maður loks kom til heimsborgarinnar var þetta einn fyrsti staðurinn sem maður heimsótti. Þetta var eitt höfuðvígi hinnar listrænu kvikmyndagerðar sem blómstraði frá stríðslokum og fram á áttunda áratuginn.

Myndir úr hjónabandi voru í sjónvarpinu með Liv Ullmann og Erland Josefsson, það var eins og gegnumlýsing. Kvikmyndaklúbburinn Fjalakötturinn sýndi Bergman-myndir – Þögnina, Persona, og Villt jarðarber. Svo þegar maður hélt að Bergman væri dauður úr öllum æðum kom hið epíska meistaraverk Fanny & Alexander, þar var allt í einu litagleði og húmor, að minnsta kosti framan af, myndin var svo löng að hún var líka röð sjónvarpsþátta.

Maður stóð eiginlega á öndinni þegar Bergman flúði Svíþjóð vegna skattamála. Hvernig gat fyrirmyndarlandið hrakið brott sinn mesta listamann? Í Þýskalandi gerði Bergman myndina Höggormseggið með amerískum aðalleikara – hún var svo full af reiði að manni varð ekki um sel þegar maður sá myndina í Háskólabíói.

Ég sigldi til Færeyja þegar ég var sautján ára, átti þar dagpart þar sem ég hafði lítið að gera, fór í Sjónleikarahúsið og sá Sjöunda innsiglið þar sem dauðinn er sífellt á hælum aðalpersónanna. Hef gantast með að þarna hafi magnast upp hjá mér mikil angist sem ég hef varla verið laus við síðan, þar sem rann saman drungi eyjanna og glíman við manninn með ljáinn í myndinni.

Á þessum árum spratt Woody Allen líka fram sem stórkostlegur kvikmyndagerðarmaður. Hann var ekki bara undir djúpum áhrifum frá Bergman heldur var hann hann sífellt að leika sér með minni úr Bergmann myndum – gerði meira að segja heila kvikmynd sem var tilbrigði við Bros sumarnæturinnar.

Bergman ásamt Tarkovskí er heimspekilegastur kvikmyndahöfunda. Hann horfir djúpt í mannssálina og tilvistina, getur verið grimmur og vægðarlaus. Veltir fyrir sér einsemdinni, óttanum við dauðann, forgengileikanum, ómöguleika þess að eiga mannleg samskipti sem endast, verundinni sem er sífellt á hreyfingu, sambandinu við Guð – jú og kjarnorkuógninni, þetta var tími hennar.. Það dettur varla neinum í hug að gera svona djúpar og gáfaðar myndir í dag – og þær fengjust varla sýndar í bíó. En myndir Bergmans voru teknar til sýninga í kvikmyndahúsum út um allan heim. Fyrir minn tíma voru myndirnar hans sýndar reglulega í Bæjarbíói í Hafnarfirði – fólk tók sér far með Hafnarfjarðarstrætó til að sjá þær eins og Stefán Snævarr lýsir í grein í Stundinni.

 

 

Eins og ég sagði áðan var blómatími kvikmyndanna sem listgreinar á áratugunum eftir stríð. Í seinni tíð hefur afþreyingarþátturinn orðinn sífellt mikilvægari – við erum líka umkringd kvikmyndaefni í öllum áttum. Heilu þáttaraðirnar renna fyrir augu neytenda í gegnum miðla eins og Netflix, nánast án þess að þeir taki eftir því á hvað þeir eru að horfa.

Hér er merkilegt viðtal sem Hrafn Gunnlaugsson tók við Ingmar Bergman árið 1986 þegar hann kom í heimsókn til Íslands. 14. júlí voru liðin 100 ár frá fæðingu Bergmans og því rifjaði RÚV upp þetta viðtal.

Ásgrímur Sverrisson kvikmyndagerðarmaður skrifaði um Bergman á Facebook og dró af þessu tilefni fram texta úr frægri ritgerð eftir bandaríska rithöfundinn Susan Sontag. Hún nefnist A Century of Cinema og var rituð árið 1995. Sontag skrifaði um bíóhneigð og bíóást eins og hún birtist á blómatíma hinna listrænu kvikmynda. Þýðingin er eftir Ásgrím sjálfan.

Hver listgrein á sér sína öfgafullu fylgismenn. Ástin sem kvikmyndin blés fólki í brjóst var hinsvegar sérstök. Hún var sprottin af þeirri sannfæringu að kvikmyndin væri listform ólíkt öllum öðrum: afar nútímalegt; sérlega aðgengilegt; ljóðrænt og dularfullt og erótískt og siðferðilegt – allt í senn. Kvikmyndin átti sér spámenn. (Eins og trúarbrögð). Kvikmyndin var krossför. Fyrir bíóhneigða náðu kvikmyndirnar utan um allt. Kvikmyndin var bæði bókin um listina og bókin um lífið. Eins og búast mátti við hefur ást á bíómyndum dvínað. Fólk hefur enn gaman af að fara í bíó og sumum er enn annt um og búast við einhverju einstöku af kvikmynd. Og enn er verið að gera dásamlegar kvikmyndir (…) En þú finnur varla lengur, sérstaklega ekki meðal ungs fólks, þessa sérstöku bíóhneigðar ást á kvikmyndum, sem er ekki bara ást heldur tiltekin smekkur á myndum (byggður á mikilli þörf fyrir að upplifa og endurupplifa dýrðardaga kvikmyndarinnar). Bíóhneigðinni sjálfri hefur verið stillt upp sem einhverju gamaldags, úr sér gengnu og snobbuðu. Því að bíóhneigð gefur til kynna að kvikmyndir séu einstök og töfrandi reynsla sem ekki verði endurtekin. Bíóhneigðin segir okkur að endurgerð Hollywood af A Bout de Souffle eftir Godard, geti ekki verið eins góð og frummyndin. Bíóhneigð á ekkert erindi á öld iðnaðarmynda. Bíóhneigð, með sínum fjölbreytilegu ástríðum, getur ekki annað en haldið fram þeirri hugmynd að kvikmyndin sé fyrst og fremst ljóðrænt viðfang; getur ekki annað en hvatt þá sem eru utan kvikmyndaiðnaðarins, eins og myndlistarmenn og rithöfunda, að gera myndir líka. Það er nákvæmlega þessi hugmynd sem hefur verið kveðin í kútinn. Ef bíóhneigð er dauð eru kvikmyndirnar dauðar líka… og skiptir þá engu máli hversu margar myndir, jafnvel mjög góðar, verða gerðar áfram. Ef kvikmyndin á að rísa upp aftur mun það aðeins gerast í gegnum fæðingu nýrrar tegundar af bíóást.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Í gær

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Enn sérstakt áhættuálag á Ísland hjá erlendum fjárfestum – krónan þjóðhagslegt vandamál?

Guðjón Auðunsson: Enn sérstakt áhættuálag á Ísland hjá erlendum fjárfestum – krónan þjóðhagslegt vandamál?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Rétthugsun?

Óttar Guðmundsson skrifar: Rétthugsun?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: „Samstaðan í ríkisstjórninni“ – sjálfstæðismenn og Framsókn reyndu allt til að losna við VG

Orðið á götunni: „Samstaðan í ríkisstjórninni“ – sjálfstæðismenn og Framsókn reyndu allt til að losna við VG
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir að Bjarni Benediktsson hafi haft forsetaframbjóðanda fyrir rangri sök í Kastljósi

Segir að Bjarni Benediktsson hafi haft forsetaframbjóðanda fyrir rangri sök í Kastljósi