fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Gísli Marteinn gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn og gatnastefnu Eyþórs Arnalds – Hildur kannast ekki við orð oddvitans

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 13. júlí 2018 14:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gísli Marteinn Baldursson, fjölmiðlamaður og fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, setur fram gagnrýni á sinn gamla flokk og fulltrúa hans í minnihlutanum, þær Hildi Björnsdóttur og Katrínu Atladóttur á Twitter í dag.

Segir Gísli að afstaða þeirra til byggðar í Skeifunni og rammaskipulags í Kringlunni og Skerjafirði hafi ekki legið ljósar fyrir kosningar og því komi honum á óvart sú afstaða flokksins að mótmæla áformum um 3000 íbúðir á þessu svæði.

Þá nefnir Gísli að hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um breikkun gatna sé „harðasta hraðbrautarstefna“ sem sést hafi síðan 1964 og þær séu „fjandsamlegar“ öðrum samgöngumátum:

„Að auki vill XD breikka Grensásveginn á ný, ‘rýmka’ Bústaðaveginn (væntanlega 2+2) og breikka Kringlumýrarbraut og Miklubraut, því þessar götur séu orðnar of þröngar. Þetta er harðasta hraðbrautarstefna sem boðuð hefur verið í Rvk síðan 1964 og fjandsamleg öðrum samgöngumátum.“

Viðsnúningur hjá Sjálfstæðisflokknum ?

Segir Gísli um viðsnúning að ræða hjá flokknum:

„Ég ítreka að þetta kemur mér mjög mikið á óvart, sérstaklega í ljósi skynsamlegra skrifa Hildar hér og víðar í aðdraganda kosninga. Þá var talað um að hverfa frá hraðbrautaskipulaginu, breyta samgöngumynstri borgarbúa osfrv. Það gerum við ekki með því að efla hraðbrautir.“

Gísli er afar mótfallinn breikkun gatna, en Eyþór Arnalds lét hafa eftir sér í viðtali nýverið :

„Já ég myndi vilja snúa til baka og rýmka vegakerfið víða, bæði Grensásveginn, Kringlumýrarbraut, Miklubraut, og Bústaðarveginn, þetta eru allt vegir sem eru orðnir eins og þrengdar slagæðar…“

Um þetta segir Gísli:

„Augljósa dæmið er Bústaðavegurinn. Um leið og sú gata verður orðin 2ja akreina hraðbraut í báðar áttir, munu krakkar eiga erfiðara með að komast í skóla og tómstundir, og skutlið eykst því. Hverfið verður klofið í tvennt, einsog Hringbrautin (líka 2+2 gata) gerir í Vesturbæ. Göngubrýr leysa þetta ekki. Þær eru til að auka flæði og hraða bíla. Hér þarf að hægja á umferð, þrengja að henni, hætta að skera hverfi í tvennt með hraðbrautum og minnka þannig mengun og hávaða og auka öryggi. Þetta er að gerast um allan heim og þarf að gerast í Reykjavík.“

Hildur skerst í leikinn

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi, svarar Gísla og segir um misskilning að ræða, hún og Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki mótfallinn þessum áformum og segist hún ekkert kannast við stefnu Eyþórs um breikkun gatna:

„Þetta er einhver misskilningur. Við höfum ekki mótmælt byggð í Skeifunni. Töldum rammaskipulag í Kringlu og Skerjafirði þarfnast nánari samgöngugreiningar – líkt og meirihlutinn hefur sagt byggð í Örfirisey stranda á samgöngumálum. Ég er fylgjandi byggð á öllum þremur svæðum. Ég kannast bara alls ekkert við þessa hraðbrautastefnu og velti fyrir mér hvar þú grófst hana upp? Það mætti þá kannski nefna að XD mótmælti nýlega áformum um allt að 350 bílastæði á grænu svæði nærri Elliðaánum. Ég vona að það verði tekið til greina.“

Gísli gleðst við þessar fréttir en dregur upp viðtalið við Eyþór Arnalds hvar hann segist einmitt vilja breikka gatnakerfið:

Frábært að heyra með bílastæðin! Vel gert. Hafði ekki heyrt það. Áttu link? Í nýju viðtali segir oddviti D að hann vilji breikka hraðbrautirnar, snúa framvkæmdinni á Grensás til baka og breikka Bústaðaveg. Gæti ekki verið skýrari hraðbrautarstefna.

Hildur hefur ekki svarað fyrir orð Eyþórs þegar þetta er ritað.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn