fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Þingmaður ögrar þjóðhöfðingjalögum og kallar Donald Trump  „fant, drullusokk og hrotta“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 22. júní 2018 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, gerir gömul lög frá árinu 1997 að umtalsefni sínu í kjölfar umræðunnar um börnin sem aðskilin eru foreldrum sínum af Bandaríkjastjórn á landamærunum við Mexíkó. Mikil gagnrýni hefur beinst að Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir vikið, sem Trump virðist hafa tekið til sín, þar sem hann undirritaði forsetatilskipun þess efnis í gær að héðan í frá ætti að halda fjölskyldum saman. Í tilskipuninni er hinsvegar hvergi getið um þau 2000 börn sem nú þegar hafa verið aðskilin foreldrum sínum og hefur Trump fengið á sig mikla gagnrýni fyrir skammsýni forsetatilskipunarinnar, auk þess sem hvergi er slegið af í sjálfri stefnu Trumps um herta landamæragæslu.

Margir hafa því bölvað Trump í sand og ösku, erlendis sem hérlendis.

Hinsvegar eru í gildi lög hér á landi sem beinlínis leggja blátt bann við því að erlend þjóð eða þjóðhöfðingi erlends ríkis og fáni þess séu „smánuð“ opinberlega. Getur slíkt brot varðað allt að sex árum.

Rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson var til dæmis dæmdur til sektargreiðslu árið 1934 fyrir meiðandi ummæli um Adolf Hitler, er hann sagði í grein, að þýsk stjórnvöld hefðu „staðið fyrir einhverri villtustu morð- og píslaröld sem sagan geti um.“ Fékk hann 200 króna sekt, sem er um 50.000 krónur að núvirði.

Þá var skáldið Steinn Steinarr dæmdur til þriggja mánaða fangelsisvistar árið 1933, fyrir að taka niður hakakrossfánann hjá Sophusi Blöndal, þáverandi vararæðismanns Þýskalands á Siglufirði, og trampa á honum, skera og rífa ásamt tveimur félögum sínum, sem einnig hlutu dóm. Þeir fengu þó sakaruppgjöf og sátu aldrei inni.

Helgi Hrafn lætur sitt ekki eftir liggja og skrifar beinskeyttan pistil, sem einnig má líta á sem ögrun við núgildandi lög:

„Það þarf að svara þessu fólki sem er að reyna að klína stefnu Trump-stjórnarinnar á lög frá 1997. Í 95. gr. almennra hegningarlaga á Íslandi, Í DAG, er þessi ótrúlega klausa:

„Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Nú eru sakir miklar og varðar brot þá fangelsi allt að 6 árum.“

Nú er þessum lögum ekki beitt þegar einhver kallar t.d. fantinn, drullusokkinn og hrottann Donald Trump, eitthvað eins og fant, drullusokk og hrotta.“

Bandaríkjastjórn og Trump báru því við að stjórnsýslan væri bundin af lögum og gæti því lítið annað gert en að fara eftir þeim. Það er ekki rétt, því það var að áeggjan Trump stjórnarinnar sem gripið var til þess úrræðis að nýta lagaheimildina til hins ýtrasta með því að sækja eins marga til saka og þeir gátu, sem ætluðu sér að fara ólöglega yfir landamærin og í kjölfarið aðskilja börn þeirra.

Helgi Hrafn vísar til þessa, með kaldhæðni að vopni, er hann tekur dæmi um við hvern skuli sakast þegar þjóðhöfðingjalögunum er framfylgt hér á landi:

„Ef dómsmálaráðherra Íslands gæfi út fyrirmæli um að þessum lögum skyldi framfylgt til hins ítrasta, og að fólk skyldi sett í tveggja ára fangelsi fyrir að kalla Donald Trump fant, drullusokk og hrotta, væru þau fyrirmæli dómsmálaráðherra að kenna, eða einhverjum öðrum?“

 

Þingmaður Vinstri grænna, Steinunn Þóra Árnadóttir, ásamt þremur öðrum úr VG, lögðu fram frumvarp í febrúar þess efnis að afnema ætti þetta ákvæði 95. greinar almennra hegningarlaga í heild sinni, en utanríkisráðuneytið lagðist gegn því í umsögn sinni, þar sem það er talið vinna gegn ákvæðum Vínarsamningsins frá 1961, er fjallar um stjórnmálasamband ríkja.

Þá segir einnig í umsögninni:

„Má rökstyðja að öll sömu verndarsjónarmið og um sendiráð og sendierindreka eigi að gilda um þjóðhöfðingja erlends ríkis. Að mati ráðuneytisins skýtur skökku við ef þjóðhöfðingi erlends ríkis njóti minni réttarverndar heldur en t.d. sendiherra viðkomandi ríkis, aðrir sendierindrekar og fjölskyldur þeirra.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn
Eyjan
Í gær

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma
Eyjan
Fyrir 3 dögum

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun