fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Baráttan við spillta elítu Rússlands – Refsingin fyrir morð á að vera meira en bara aflýst frí

Ari Brynjólfsson
Sunnudaginn 17. júní 2018 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ef eitrað verður fyrir Vladimir Kara-Murza í þriðja sinn verður ekki hægt að bjarga honum. Þetta segja læknar honum. Þriðja eitrunin mun einfaldlega drepa hann. Hann lifði naumlega af tvær morðtilraunir þar sem eitrað var fyrir honum. Læknar segja að líkurnar á að lifa af hafi aðeins verið fimm prósent í hvort sinn. Síðast var eitrað fyrir honum í febrúar á síðasta ári en þá voru liðin tvö ár frá fyrri morðtilrauninni.

Vladimir Kara-Murza á sjúkrahúsi eftir morðtilræði.

Nokkrum mánuðum fyrir fyrri morðtilraunina var vinur hans og viðskiptafélagi, Boris Nemtsov, skotinn til bana á götu úti nærri Kreml í Moskvu. Murzas komst til meðvitundar eftir fyrri morðtilraunina nokkrum vikum eftir að honum var byrlað eitur. Læknar vita ekki hvaða eitur var notað en eru ekki í vafa um að eitrað var fyrir honum. Í síðara skiptið voru einkennin þau sömu, líktust hjartaáfalli en Murza vissi að hann væri ekki að fá hjartaáfall. Honum var haldið sofandi í tvær vikur. Þegar hann vaknaði yfirgaf hann Rússland ásamt fjölskyldu sinni.

Murzas er ekki í neinum vafa um hverjir stóðu á bak við morðtilræðin. Sterk öfl meðal rússnesku elítunnar vilja gjarnan losna við hann á sama hátt og margir pólitískir andstæðingar þeirra og gagnrýnendur hafa dáið. Murza veit einnig vel af hverju hann er svona óvinsæll hjá elítunni. Hann er einn af helstu talsmönnum hinna svokölluðu Magnitskij-laga sem falla ekki vel í kramið hjá elítunni.

Sergej Magnitskij lést í nóvember 2009.

Magnitskij-lögin beinast gegn valdamestu mönnum Rússlands og hitta á þann stað sem þá svíður mest, veskið og möguleikann á að ferðast út fyrir Rússland. Bandaríkin tóku fyrst ríkja slík lög upp en það var 2012 eftir að rússneskur lögmaður lést í fangelsi á meðan hann beið réttarhalda. Lögmaðurinn, Sergej Magnitskij, hafði skömmu áður komið upp um umfangsmikil skattsvik og spillingu meðal rússneskra ráðamanna og yfirvalda. En afhjúpun hans leiddi ekki til rannsókna á málunum heldur var Magnitskij sakaður um skattsvik. Nokkrum dögum áður en hann átti að mæta fyrir dómara fannst ungi lögmaðurinn látinn í fangaklefa sínum. Samkvæmt skýrslum lést hann af völdum hjartastopps og blóðeitrunar af völdum lifrarbólgu sem hann smitaðist af í fangelsinu. Niðurstaða rannsóknar rússneska mannréttindaráðsins var að hann hefði verið pyntaður og beittur miklu ofbeldi áður en hann lést. Þetta varð til að Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseti, innleiddi hin svokölluðu Magnitskij-lög í desember 2012. Lögin náðu þá til 18 Rússa.

Rússar svöruðu þessu með refsiaðgerðum gegn nafngreindum bandarískum ríkisborgurum og lokuðu á ættleiðingar frá Rússlandi til Bandaríkjanna. Einnig var dómur kveðinn upp yfir hinum látna lögmanni og hann sakfelldur fyrir skattsvik.

Fleiri ríki hafa innleitt útgáfur af Magnitskij-lögunum

Fram að þessu hafa Kanada, Bretland, Eistland, Lettland og Litháen innleitt sínar eigin útgáfur af Magnitskij-lögunum. Breska löggjöfin er sérstaklega áhrifamikil að mati Muzar þar sem Lundúnir hafa lengi verið uppáhaldsstaður þeirra skúrka sem olígarkar eru að hans sögn. Bresk stjórnvöld innleiddu lögin þó ekki fyrr en nú í maí í kjölfar erfiðra samskipta þeirra við Rússa eftir að eitrað var fyrir Skripal-feðginunum fyrr á árinu. Bretar hafa lengst af lokað augunum fyrir umsvifum Rússa í Lundúnum enda hafa rússnesku auðmennirnir komið með mikið fjármagn til borgarinnar.

Rússar hafa gagnrýnt lögin og segja þau vera dóm, sem kveðinn er upp án réttarhalda, yfir rússneskum ríkisborgurum fyrir meint afbrot sem voru framin í Rússlandi. Murza segir að eins og staðan sé í dag sé eina leiðin sem fær er að Vesturlönd beiti þeim refsiaðgerðum gegn Rússlandi sem Magnitskij-lögin eru. Ekki sé hægt að láta alvöru réttarhöld fara fram í Rússlandi eins og staðan sé þar í dag.

„Refsingin fyrir pyntingar, morð, ólöglegar handtökur og umfangsmikla spillingu eiga ekki að vera aflýst sumarfrí eða að innistæður á breskum bankareikningum séu frystar. Það eiga að vera alvöru réttarhöld hjá alvöru dómstól.“

Bill Browder, óvinur Pútín númer 1.

Bandaríkjamaðurinn Bill Browder hefur einnig unnið ötullega að því að fá fleiri ríki til að samþykkja Magnitskij-lög en það var Browder sem réð Sergej Magnitskij á sínum tíma til að rannsaka skattsvik, rannsókn sem varð honum að bana. Browder segir að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, sé einn reiðasti og illgjarnasti einræðisherra heims, þjóðarleiðtogi sem hefji stríð, eitri fyrir óvinum sínum, svindli á ólympíuleikunum og blandi sér í kosningar í öðrum ríkjum.

„Hann er ógn við heiminn og hann hefur aðeins áhuga á einu: Peningunum sínum. Hann á mikið af peningum og þá peninga geymir hann á Vesturlöndum. Hann vill ekki að þessi lög ógni peningunum hans.“

Segir Browder. Hann segir einnig að það sýni hinn mikla siðferðisskort sem hrjáir Pútín að þegar Bandaríkin innleiddu Magnitskij-lögin hafi Pútín bannað ættleiðingar rússneskra barna til Bandaríkjanna. Það sýni innræti hans að svarið við refsiaðgerðum gegn glæpamönnum, spilltum embættismönnum og mönnum sem brjóta mannréttindi sé að banna ættleiðingar. Eitthvað sem bitnar á börnum.

Það er einmitt af því að Magnitskij-lögin koma illa við pyngju rússnesku elítunnar sem þau eru sterkasta vopnið gegn henni að mati Browder.

Rússar eru ósáttir við Browder og hafa margoft reynt að láta handtaka hann og fa hann framseldan til Rússlands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt